2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Bók er best vina

  Að lesa er góð leið til að kyrra hugann, finna ró og frið. Meðan menn upplifa heim bókarinnar má gleyma eigin áhyggjum og streitu.

  Freki forsetinn
  Þessi bráðskemmtilega bók segir frá Friðbergi, ansi hreint frekum forseta, sem meðal annars rak sendiherra Bandaríkjanna úr bústað sínum við Engjateig og kom sér þar fyrir sjálfur. Að auki stefnir hann að því að losa Ísland við allt erlent fólk. Síðan fara börn að hverfa … Systkinin Sóley og Ari og skólafélagar þeirra taka til eigin ráða og heyja hetjulega baráttu við forsetann. Flott bók sem er ekki bara skemmtileg, heldur á hún án efa eftir að efla réttlætiskennd lesenda sinna. Bjartur gefur út.

  Spennandi nútímagoðsagnir
  Sæþokan eftir Camillu og Vivecu Sten er önnur bókin í þríleik þeirra mæðgna um hafsfólkið. Sú fyrri, Hyldýpið, kom út í fyrra og sló tóninn. Þetta eru spennandi bækur með margvíslegar og áhugaverðar tengingar við goðsagnaheima bæði norræna og suðræna. Aðalpersónan Tuva hefur yfirnáttúrlega hæfileika og skynjar öfl í tilverunni sem aðrir finna ekki. Þegar þykk sæþoka leggst yfir Skerjagarðinn og vill ekki hverfa telja flestir það afleiðingu loftslagsbreytinga en Tuva veit betur. Hún veit jafnframt að enginn getur bjargað málum nema hún. Á sama tíma tekst Tuva á við vanskilning móður hennar á því hver hún er, drykkju föðurins og svik Rasmusar vinar hennar. Útg. Ugla

  Að hefja sig yfir upprunann
  Sjálfsævisaga Töru Westover, Menntuð, er mögnuð saga kúgunar og ofbeldis innan fjölskyldu. Faðir hennar glímir við andlegan sjúkdóm sem aldrei er greindur og heldur konu sinni og börnum í heljargreipum eigin ofsóknaræðis. Hann rekur ruslahaug, þ.e. safnar rusli og vinnur úr sumu brakinu nýtanlega vöru. Öll börnin hans sjö vinna þar í stórhættulegu umhverfi og slys eru tíð. Ekki má leita til lækna eða fara á sjúkrahús. Móðirin er grasalæknir og það er sama hversu skelfilegir áverkar barnanna og föðursins eru þá má eingöngu meðhöndla með hennar lyfjum. Tyler, bróðir hennar, hefur gríðarlega þekkingarþrá og hann smitar litlu systur sína. Hann sýnir henni leiðina út. Í dag er Tara með tvær doktorsgráður, hefur stundað nám í Oxford, Cambridge og Harvard. Stúlka sem aldrei gekk í barnaskóla eða framhaldsskóla. Hún undirbjó sig ein og óstudd undir inntökupróf í háskóla því faðir hennar komst hjá því að yfirvöld skiptu sér af skólagöngu barnanna með því einfaldlega að skrá ekki fæðingu þeirra. Þetta er mögnuð saga, frábærlega vel skrifuð og einstaklega áhugaverð. Útg. Benedikt

  Sagan endar ekki við altarið
  Jakobína saga skálds og konu eftir Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur er áhrifamikil ævisaga Jakobínu Sigurðardóttur skáldkonu, móður höfundar. Jakobína hafði skömm á ástarsögum því hún taldi hjónaband og barneignir hefta konur og vera í raun uppsprettu helsis hennar. Hennar eigin saga byrjaði hvorki né endaði við altarið en það er ekki þar með sagt að ástin hafi ekki verið sterkt afl í lífi hennar og átt þátt í að móta hvernig því vatt fram. Hún kynnist Þorgrími Starra Björgvinssyni þrítug og flytur þá til hans að Garði í Mývatnssveit. Þau eiga vel saman en á heimilinu eru engar kjöraðstæður fyrir unga konu, skáld og móður. Jakobína þarf að berjast við tengdaföður sinn alla tíð meðan hann lifir. Það er alltaf áhrifamkið að fá innsýn inn í líf annarra með þeim hætti sem hér er boðið upp á. Hér er skrifað af hreinskiptni, næmni og mannskilningi. Útg. Mál og menning

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum