2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Dansað og hlegið hátt

  Janúar er tilvalinn tími til að læra eitthvað nýtt eða liggja uppi í sófa og annaðhvort horfa eða hlusta á eitthvað áhugavert. Mannlíf heyrði í þremur einstaklingum og fékk að vita hvað þeir væru að gera spennandi í ársbyrjun.

  „Stórkostleg ádeila á öll nútímasamfélög“

  Esther Bíbí. Mynd / Eiður og Einar Snorri

  Ester Bíbí Ásgeirsdóttir, tónlistarmaður, hljóðmaður og starfsmaður á Kvikmyndasafni Íslands, heldur upp á þættina Flowers og Messiah.

  „Breska serían Flowers er listaverk. Hádramatískir, mjög fyndnir og kolsvartir, gamanþættir. Klikkuð fjölskyldusaga sem er stórlega ýkt en djúpyndisleg á sama tíma,“ segir Esther Bíbí, spurð að því hvort hún sé að horfa á eitthvað skemmtilegt um þessar mundir.

  AUGLÝSING


  „Í janúar horfði ég svo líka á þættina Messiah – alla þættina á einni helgi,“ bætir hún við í flýti og hlær. „Þættirnir eru stórkostleg ádeila á öll nútímasamfélög. Hvernig myndi fólk, ríkisstjórnir og trúarleiðtogar, eiginlega bregðast við ef fram kæmi maður sem segðist vera sonur Guðs, með fallegan boðskap? Ég meina, má það bara? Ég mæli með að allir horfi,“ segir hún hress.

  Skemmtileg innsýn í huga grínistans

  Atli Fannar Bjarkason fjölmiðlamaður missir ekki af þætti með Conan O’Brien.
  „Ég hlusta alltaf á Hismið mitt, Dr. Football og Hæhæ en það þarf ekki að láta fólk vita af þessum svínslega vinsælu kumpánum,“ segir Atli.

  „Ég er mikill aðdáandi Conans O’Brien og hlusta alltaf á hlaðvarpið hans, þar sem hann freistar þess að eignast vini úr skemmtanabransanum. Maður fær sérstaklega skemmtilega innsýn í huga grínistans í þáttunum, enda bestu viðtölin hans við fyndið fólk en það er kannski ekki hægt að taka mark á mér þar sem mér finnst meira að segja auglýsingarnar skemmtilegar í flutningi hans.“

  „Dansinn breytti lífi mínu til hins betra“

  Brynhildur Björnsdóttir. Mynd / Hvergiland

  Brynhildur Björnsdóttir, fjölmiðlakona og skemmtikraftur, segir að sér sé lífsnauðsyn að dansa.

  „Ég byrja á Charleston-dansnámskeiði hjá Margréti Erlu Maack í febrúar í mínu ástkæra Kramhúsi þar sem ég hef áður dansað Beyoncé, Broadway, burlesque, afró og stundað leikfimi undanfarin ellefu ár,“ segir Brynhildur og getur þess að henni sé lífsnauðsyn að dansa, bæði fyrir sálina og líkamann.

  Spurð hvort námskeiðið sé hluti af áramótaheiti segist Brynhildur nú stundum hafa reynt að strengja áramótaheit en þau verði alltaf að áþján þegar líður á árið. „Nema gjafakortið í Kramhúsið sem ég fékk í jólagjöf fyrir ellefu árum og strengdi þess heit að mæta að minnsta kosti í mánuð áður en ég gæfist upp. Besta jólagjöf og besta áramótaheit allra tíma, því ég er þar enn og Kramhúsið og dansinn breyttu lífi mínu til hins miklu betra.“

   

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum