2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Eames-hjónin og hönnunin – Tveir þekktustu hönnuðir tuttugustu aldarinnar

  Vikan tíndi til nokkra hluti sem Eames-hjónin hönnuðu og hafa verið vinsælir um allan heim, þar á meðal á íslenskum heimilum.

  Bandarísku hjónin Charles og Ray Eames voru helstu frumkvöðlar nýtískuhúsgagnahönnunar og tveir þekktustu hönnuðir tuttugustu aldarinnar. Líklega eru þau hvað frægust fyrir hinn heimsþekkta Eames-stól sem breytti hugmyndum fólks um nýtískuhúsgögn en stóllinn var þó bara brot af öllu því sem þau áorkuðu um ævina.

  DSR-stóllinn.

  Þessi geysivinsæli stóll, DSR, kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1950. Upphaflega hönnuðu Eames-hjónin stólinn til að svara eftirspurn eftir ódýrum húsgögnum eftir seinni heimsstyrjöld og vildu þau hafa stólinn í senn ódýran og fallegan, sem allir ættu að hafa efni á. Setan var gerð úr plasti, sem ekki kostaði mikið að fjöldaframleiða, og var hún sett á fíngerða teina til að gefa stólnum meiri léttleika. Stólinn hefur einnig verið framleiddur með tréfótum sem hafa verið afar vinsælir og með og án arma. Einnig er stóllinn til sem ruggustóll. Eames-plaststóllinn var í upphafi hugsaður til notkunar á heimilum en vinsældir hans færðust út fyrir heimilið og sjá má stólinn á hinum ýmsu stöðum; allt frá kaffihúsum til flugvalla.

  AUGLÝSING


  Hang It All-fatahengið.

  Hang It All-fatahengið sem Eames-hjónin hönnuðu árið 1953 er falleg, sígild hönnun. Hugmyndin á bak við það var að hvetja börn til að hengja fötin upp eftir sig. Fullorðnir tóku fatahenginu fagnandi, ekki síst vegna þess að margir sem höfðu ekki efni á að fylla húsið af Eames-húsgögnum gátu nú látið Eames-hönnun prýða heimilið.

  Eames House Bird.

  Eames House Bird prýddi heimili Eames-hjónanna í meira en fimmtíu ár. Þau notuðu fuglinn í fjölmörgum útstillingum á hönnun sinni og fuglinn birtist margoft sem fylgihlutur á ljósmyndum þeirra.

  Aluminum Group „Task“-stóllinn.

  Aluminum Group „Task“-stóllinn hefur verið vinsælt skrifstofuhúsgagn þótt hann hafi upphaflega verið hannaður til notkunar utandyra, með netasessu í stað leðursessu. Stóllinn var fyrst framleiddur árið 1958 og óhætt er að segja að hönnun hans sé tímalaus.

  The Lobby Chair

  The Lobby Chair var hannaður árið 1960 fyrir Time-Life-bygginguna í New York. Skákmeistarinn Bobby Fischer krafðist þess að fá að sitja í slíkum stól þegar hann háði heimsmeistaraeinvígi í skák við Boris Spassky í Reykjavík árið 1972. Húsgagnafyrirtækið Herman Miller sendi tvo stóla til Íslands, einn fyrir Fischer og annan fyrir Spassky.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum