2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Einlæg og falleg Ronja

  Margir hafa beðið með mikilli eftirvæntingu eftir fyrstu frumsýningu vetrarins en ræningjadóttirin Ronja hefur nú hreiðrað um sig á stóra sviði Þjóðleikhússins.

  Rétt eins og önnur verk Astridar Lindgren skipar ævintýrið um ræningjadótturina Ronju sérstakan sess í hugum margra. Tilhlökkunin var því gríðarleg á frumsýningu þrátt fyrir að örlitlar efasemdir hefðu gert vart við sig. Ljóshærð Ronja og eins og yngsti gagnrýnandinn benti réttilega á, “Matthías allt öðruvísi en hann Á að vera.”

  Með leikhúsmöntruna á lofti um opinn huga og ólíkar nálganir ákváðum við mæðgur að sleppa takinu og treysta þrátt fyrir að erfitt sé að útmá upprunalegar hugmyndir um jafn hjartkæra karaktera og raun ber vitni. Leikhústöfrarnir létu þó ekki bíða lengi eftir sér því áður en tjaldið var dregið frá gerði gamalkunn gæsahúðin vart við sig þegar töfrandi tónar laganna sem við þekkjum svo vel fengu að óma um myrkvaðan salinn.

  Persónurnar lifnuðu við hver á fætur annarri og þegar á heildina er litið tókst ljómandi vel til. Mest mæðir á Sölku Sól Eyfeld sem þeytir hér frumraun sína á leiksviði. Ronja í hennar meðförum var bæði sannfærandi og án nokkurrar tilgerðar þar sem textinn komst vel til skila og söngurinn nær hnökralaus.

  Sigurður Þór Óskarsson fer með hlutverk Birkis Borkasonar og gerir aðdáunar vel. Tengingin milli Birkis og Ronju var bæði barnslega einlæg og falleg í senn.

  Lovísa er leikinn af Vigdísi Hrefnu Pálsdóttur en kvennakraftur sýningarinnar fer ekki framhjá neinum. Lovísa stjórnar ræningjahópnum með harðri hendi og þrátt fyrir að halli á fjölda kvenhlutverka bætir leikstjórinn, Selma Björnsdóttir um betur og kvengerir Skalla Pétur auk ræningja í hópnum.

  Senuþjófurinn Edda Björgvinsdóttir gæðir Skalla Pétru lífi og gerir bráðvel enda uppskar hún mikil hlátrasköll, sérstaklega úr eldri enda áhorfendasalsins. Örn Árnason naut sín jafnframt í botn sem mannsbarnið Matthías í geðklofakenndum grátsenum og tilraunum til yfirráða.

  AUGLÝSING


  Þrátt fyrir að sagan segi frá slátrandi ræningjum og föður sem reyni að einangra einkadóttur sína eru verk Astridar ákaflega femínisk. Sögur af hugrökkum stelpum og viðkvæmum strákum brutu blað í bókmenntasögunni en með þeim öðluðust stúlkur, nú og þá kvenfyrirmyndir sem þora og fylgja sinni sannfæringu. Trúa á það góða og leyfa óvininum að njóta vafans með boðskapinn að leiðarljósi að í kjarnanum séum við öll góð og getum allt.

  Leikmynd Finns Arnars Arnarssonar er listilega framsett þar sem ævintýraheimur Matthíasarborgar, helvítisgjáin, Bjarnarhellir og anímónutréð vakna til lífsins. Leikhúslausnirnar eru jafnframt skemmtilegar og útfærsla rassálfanna yndisleg. Sérstakt hrós frá yngstu leikarar sýningarinnar þar sem orkan innan hópsins er næstum áþreifanleg. Persónusköpun ræningjanna var jafnframt frábærlega framsett þar sem hver og einn bauð upp á sín kostulegu sérkenni. Búningar Maríu Th. Ólafsdóttur voru vel í anda sýningarinnar en skógarnornirnar voru sérstaklega vel útfærðar sem og ásjón grádverganna.

  Tónlistin undir stjórn Hjartar Ingva Jóhannssonar naut sín í botn enda myndu þeir sem ekki þekkja söguþráðinn spjaldanna á milli segja hana vera hjarta sýningarinnar. Allir listamenn stóðu sig með stakri prýði en úlfasöngur Lovísu verður að fá sérstakt lof.

  Aðdáendur Ronju eiga í vændum yndislega stund en vert er að taka fram að sýningin er löng og gæti tekið á þolrif yngstu áhorfendanna þó óhugnaður hinnar dimmu og drungalegu Matthíasarborgar sé í algjöru lágmarki.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum