2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Fórum alla leið með sjálfhverfuna“

  Leikhópurinn RaTaTam vakti gríðarlega athygli með sýningu um heimilisofbeldi unnið upp úr reynslusögum fólks. Þar var notuð nýstárleg aðferð er kallast verbatim en þá eru raunverulegar persónur og frásagnir þeirra lagðar til grundvallar leiksýningar.

   

  Þetta áhrifamikið og þegar í kjölfarið fylgdi hin frumlega og skemmtilega sýning Ahh, byggð á ljóðum Elísabetar Jökulsdóttur, má segja að leikhópurinn hafi náð festa sig rækilega í sessi. Nú standa yfir sýningar á nýju verki, HÚH! (Best í heimi) í Borgarleikhúsinu. Forvitnilegt að vita hvað er þar til umfjöllunar.

  RaTaTam samanstendur af þeim Guðrúnu Bjarnadóttur, Hildi Magnúsdóttur, Albert Halldórssyni, Charlotte Bøving, Halldóru Rut Bjarnadóttur Stefáni Ingvari Vigfússsyni, Þórunni Maríu Jónsdóttur, Helga Svavari Helgasyni, Laufeyju Elíasdóttur og Guðmundi Þorvaldssyni.

  Líklega dylst engum að HÚH! er vísun í hyllingu Íslendinga á landsliði sínu og endurspeglar þjóðarstoltið okkar. Í lýsing á verkinu segir einnig að það fjalli um sjálfið. Hvernig tengist titillinn sjálfinu?

  AUGLÝSING


  „HÚH byggir á reynslusögum leikara verksins, sem allir eru hreinræktaðir Íslendingar,“ segir Halldóra Rut. „Fátt er meira einkennandi fyrir þjóðina og fyrir fátt hefur hún verið þekktari undanfarin misseri en víkingaklappið. En víkingaklappið hefur víðari skírskotun. Það situr djúpt í þjóðarsálinni að allir verði að afreka eitthvað. Við þykjum einstök á heimsvísu. Þrjú hundruð þúsund manna þjóð með þrjár konur í allra fremstu röð í heiminum í Fitness.

  Landslið í hópíþróttum á lokamótum stórmóta í knattspyrnu-, körfu- og handbolta aftur og aftur. Að ekki sé minnst á tónlistarfólkið, leikarana, rithöfundana, kvikmyndagerðarfólkið. Ísland, best í heimi, er ekki svo fjarri lagi. En hvernig stendur á þessu? Hver er fórnarkostnaðurinn? Heimsmet í geðlyfjatöku? Af því að við erum öll Íslendingar, nema leikstjórinn. Í RaTaTam höfum við ekki haldbæra þekkingu á sjálfsmynd annarra þjóða en erum þess nokkuð viss að í okkar sögum muni aðrir finna samhljóm. HÚH er líka afbökun á enska orðinu WHO, sem er okkar stytting á Who am I.“

  Hafa áhuga á hinu mannlega

  Þetta er ekki í fyrsta sinn sem RaTaTam velur að vinna leikverk með verbatim-aðferðinni. Hvers vegna veljið þið hana? „Ratatam er rannsóknarleikhópur. Við höfum mikinn áhuga á mannlegu eðli. Við viljum hafa áhrif á og vekja upp spurningar og umræður í samfélaginu sem við búum í,“ segir Guðmundur. „Við höfum áhuga á samfélaginu okkar, hinu mannlega, hversdagslega, hinu smáa, mistökum, mörkum eðlilegheita og geðveiki, mörkum ástar og sársauka, af hverju við erum svona þunglynd og óhamingjusöm þrátt fyrir fordæmalausa velsæld.

  „Við höfum mikinn áhuga á mannlegu eðli.“

  Okkur finnst skemmtilegt að safna reynslusögum úr nærumhverfinu og gera úr því listaverk. Hlutverk listarinnar er að spegla, greina, velta við steinum, varpa ljósi á hið smáa og lækna með húmor og kærleika. Okkur finnst þessi hugmyndafræði einfaldlega meira spennandi en verk sem þegar hafa verið skrifuð og fjarlægja okkur frá því sem stendur okkur næst. Við viljum naflaskoðun.“

  „Við höfum áhuga á samfélaginu okkar, hinu mannlega, hversdagslega, hinu smáa, mistökum, mörkum eðlilegheita og geðveiki, mörkum ástar og sársauka, af hverju við erum svona þunglynd og óhamingjusöm þrátt fyrir fordæmalausa velsæld.“

  Leitin að ástinni

  Hvað varð til þess að þið völduð að fjalla um sjálfið í hröðu samfélagi? „Fyrsta verkið okkar SUSS, fjallaði um heimilisofbeldi. Eftir að hafa tekið tvö hundruð klukkustundir af viðtölum, unnið upp úr þeim sýningu og sýnt hana í þremur löndum, fannst okkur merkilegast að komast að því að allir okkar viðmælendur voru að leita að ástinni og þráðu ekkert heitara en hamingju og ást,“ segir Halldóra Rut. „Okkur fannst merkilegt að átta okkur á því og spurðum okkur hvernig í ósköpunum fólk með svona göfugt markmið gat endað í slíku og þvílíku öngstræti. Þannig ákváðum við að við þyrftum næst að skoða fyrirbærið ást, hvað það væri í raun og veru. Þannig kom AHHH, okkar næsta verk til. Eftir að hafa grandskoðað ástina frá öllum hliðum í því verki komumst við að því að það er skammt milli ástar og geðveiki. Þegar ástin verður óheilbrigð og sveiflast í átt að geðveiki, er það yfirleitt vegna þess að sá sem á í hlut er ekki með alveg heilbrigða sjálfsmynd og er að sækja eitthvað í annað fólk sem það hefur ekki í eigin sjálfsmynd. Þannig kom það til að okkur langaði næst að rannsaka sjálfið.“

  Hlutverk listarinnar er að spyrja

  Þið tengið sjálfið og hraða samfélagsins og eruð ævinlega höfundar að eigin sýningum. Er verkið á einhvern hátt persónulegt? „Sjálfið er alltaf persónulegt og í verkinu HÚH! (Best í heimi) töldum við mikilvægt að fara alla leið með sjálfið og í sjálfhverfuna,“ segir Guðmundur. „Þá varð niðurstaðan sú að sjálfið í sjálfum leikurunum væri tekið fyrir og þeir engjast um í sjálfhverfu, húmor og einlægni. Áhorfandinn mætir ekki til að horfa á sjálf leikarana heldur vonumst við til þess að þeir sjái sig sjálfa og kannski hlæi örlítið að sjálfum sér og sínu sjálfi.“

  Þið setjið fram stórar tilvistarspurningar í þessu verki. Er þeim svarað? „Við erum akkúrat á þessu augnabliki að reyna að svara því af hverju við erum yfirhöfuð að setja upp þessa sýningu,“ segir Halldóra kímin. „Spyrja okkur af hverju hún skipti máli í hröðu samfélagi okkar þar sem sjálfhverfan er svo mikil að sjávardýr kyrkjast í plasti og jöklarnir bráðna og við kannski útdauð eftir þrjátíu ár. Við vitum kannski ekki sjálf alveg af hverju við erum að gera listaverk upp úr sjálfinu en það er eitthvað sem segir okkur að við verðum að eiga þetta samtal við dýrin. En hlutverk listarinnar er að spyrja spurninga. Vonandi svarar verkið einhverjum spurningum áhorfenda um sig sjálfa.“

  Er eitthvað fleira í bígerð hjá RaTaTam? RaTaTam er alltaf á fullu. „Í nóvember verða fjórar sýningar á SUSS!, fyrsta verkinu okkar á Nýja sviði Borgarleikhússins, tvær af fjórum sýningum verða á ensku, því við viljum ná til þeirra sem eru ekki sterkir í íslensku líka. Ókeypis er á sýningarnar. Þetta nóvemberverkefni er unnið í samstarfi við Borgarleikhúsið, fagaðila, samtök og stofnanir sem þjónusta fólk sem býr við, eða lendir í kynferðis- og/eða heimilisofbeldi. Umræður verða eftir sýningar. Nóvemberátak RaTaTam er hluti af stóru evrópsku verkefni sem heitir Shaking The Walls. Leikhús og leikhópar í Tékklandi, Póllandi, á Írlandi, Íslandi og Englandi skilgreina vandamál í sínu heimalandi sem listin getur opnað á, skapa verk, flytja fyrir þá sem helst þurfa að sjá það, og fara svo með sýninguna til annarra landa. RaTaTam er að fara með SUSS! til Tékklands í byrjun júní og til Póllands í byrjun ágúst.

  Samhliða þessu verður RaTaTam með þætti um heimilisofbeldi í Útvarpsleikhúsinu í október og nóvember. Auk þessa erum við byrjuð að leggja drög að okkar næsta sviðsverki, BlaBla, sem fjallar um samskipti,“ segir Guðmundur.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum