2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Fróðleg og falleg bók um sögu Listasafns Sigurjóns Ólafssonar

  Saga Listasafns Sigurjóns Ólafssonar er einstök og merk. Birgitta Spur, eiginkona listamannsins, tekur þá ákvörðun tveimur árum eftir lát Sigurjóns að standa vörð um verk hans með því að byggja upp safn í kringum þau. Nú er komin út fádæma vel unnin bók um sögu safnsins og listamannsins Sigurjóns.

   

  Birgitta ritstýrir bókinni og byggir að nokkru leyti á eigin dagbókarskrifum, bréfum, blaðaskrifum og ljósmyndum. Þetta er viðamikið verk og ótrúlega fjölbreytt. Þótt vissulega snúist hún að meginhluta um lífsstarf Sigurjóns Ólafssonar, list hans og arfleifð segir hún ekki síður sögu Birgittu.

  Saga Listasafns Sigurjóns Ólafssonar er einstök og merk.

  Hvað varð til þess að hún settist að hér, hóf að kenna dönsku og lagði síðar allt í sölurnar til að sjá til þess að merkilegur hluti íslenskar menningarsögu glataðist ekki? Hún leggur upp í þetta risavaxna verkefni og fyrir þrotlausa vinnu hennar og fórnfýsi varð til þetta fallega safn yst á Laugarnestanganum með útsýn yfir sundin og til Viðeyjar.

  AUGLÝSING


  Það er ómetanlegt að fá innsýn í hugarheim frumkvöðuls, konu og móður með þessum hætti. Á sama tíma er þarna einnig að finna brot af Íslandssögunni og bókin varpar fróðlegu ljósi á tíðaranda, hugsunarhátt og brag áratuganna eftir stríð.

  Þegar flett er í bókinni verður einnig ljóst hve fjölbreytt og margvíslegt framlag Listasafns Sigurjóns Ólafssonar hefur verið til menningarlífs í landinu. Þar hefur farið fram starf tengt margvíslegri menningu þótt myndlist og tónlist hafi verið fyrirferðarmest.

  Frá upphafi hafa verið haldnir tónleikar í húsnæði safnsins og þar hafa komið fram ótalmargir hæfileikaríkir og framúrskarandi tónlistarmenn. Þar hafa verið haldnir fundir og ráðstefnur og farið fram verðlaunaafhendingar og styrkveitingar. Miðlun upplýsinga hefur sömuleiðis verið ríkur þáttur í starfi safnsins bæði í formi bóka, sýningaskráa og bæklinga. Meðan haldnir voru fjölskyldudagar í Laugarnesi tók safnið einnig á móti börnum og foreldrum og opnuð voru augu þeirra fyrir möguleikum listarinnar.

  Aðgengileg og skemmtileg

  Þá hafa gestir safnsins ekki síður verið athyglisverðir. Þarna hafa komið við merkilegir  listamenn bæði íslenskir og erlendir, íslenskir ráðamenn og erlend stórmenni. Yfir öllu vakir Birgitta Spur en hún sá um að reka safnið í samvinnu við Styrktarfélag Listasafns Sigurjóns Ólafssonar allt fram til ársins 2012 þegar það varð hluti af Listasafni Íslands.

  Úr bókinni.

  Vegna þess hve ljósmyndir og blaðaskrif eru stór hluti bókarinnar verður hún aðgengileg og skemmtileg. Allir sem hafa heimsótt Listasafn Sigurjóns vita að það er töfrum líkast að ganga inn í kyrrlátt en stílhreint húsnæðið. Verkin njóta sín vel í þessu umhverfi og áhrifamáttur þeirra magnast vegna einstakrar birtunnar í sölum safnsins.

  Að setjast niður í kaffistofunni og njóta nálægðarinnar við sjóinn magnar upplifunina sem og fjöllin úti við sjóndeildarhring þegar gengið er um fyrir utan. Þess vegna er mjög mikilvægt að varðveita einnig Laugarnesið, þennan merka sögustað og Birgitta hefur lagt sig fram um að tryggja að friðun þess sé virt og ekki sé á söguleg menningarverðmæti þar gengið. Þjóðin á Birgittu Spur skuld að gjalda fyrir hennar ómetanlega framlag til varðveislu og viðhalds listar í þessu landi og nú bætist við þessi stórmerkilega bók.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum