2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Gjarn á að grautast í mörgu

  Fyrir skemmstu kom út ný bók eftir Ingva Þór Kormáksson, Stigið á strik. Að sögn höfundar er um að ræða glæpasögu, eða skáldsögu með glæpsamlegu ívafi. En það var ekki það eina sem hann sendi frá sér á þessum tíma því um svipað leyti komu út tvö lög með hljómsveitinni JJ Soul Band. Lög sem týndust eða gleymdust en dúkkuðu óvænt upp við tiltekt í glatkistunni.

  „Ef um hægist á því sviði gæti það svo sem gerst að ég snúi mér aftur að einhverju glæpsamlegu.“

  JJ Soul Band var nokkuð þekkt meðal unnenda blús- og djasstónlistar og sendi frá sér fjórar plötur. Það telst alltaf til tíðinda þegar finnast verðmæti sem talin voru glötuð. Hvernig kom það til að lögin með fundust? „Árið 2007 voru gerðar demó-upptökur í Hljóðveri FÍH með það fyrir augum að gefa út árið eftir,“ segir Ingvi Þór. „Meiningin var að nota það af upptökunum sem vel hafði heppnast og bæta svo nýju efni við. Raunin varð sú að árið eftir var allt efni tekið upp á nýjan leik en tvö lög skilin eftir, líklega vegna þess að þau voru í popp-rokkstíl og þóttu á skjön við annað efni sem fór á plötuna. Þessi tvö lög sem urðu afgangs gleymdust bara í áratug eða svo. Ég var svo í fyrravor að leita að einhverju í hillu hjá mér þegar ég rakst á geisladisk sem ég kannaðist ekki við og þegar ég fór með hann í stúdíóið hjá hljóðmanninum okkar, Birgi Jóhanni Birgissyni, kom í ljós að þarna voru týndar og gleymdar upptökur af þessum tveimur lögum. Við skoðun fannst okkur upptökurnar nægilega vel heppnaðar til að vinna með þær, sem við gerðum, og var slagverki bætt við, bakröddum og fleiru, svo að nú eru tvö „ný“ lög komin út.“

  Ekki bara „soul“

  AUGLÝSING


  Ingvi Þór er enginn nýgræðingur í tónlist. Hann hóf ferilinn fjórtán ára gamall með skólahljómsveitinni Sturlungum í Reykholtsskóla í Borgarfirði. Þá lék hann á trommur en sneri sér síðar alfarið að hljómborðinu. Hann lék með mörgum sveitum, meðal annars Gaddavír, Amon Ra og Goðgá. Árið 1988 ákvað hann að hætta dansleikjaspilamennsku og hóf að semja lög og gaf út nokkrar plötur með eigin lögum en síðan tók JJ Soul Band við. Hvenær var hljómsveitin stofnuð og hvers vegna völduð þið soul, eða sálartónlist? „Hljómsveitin JJ Soul Band var stofnuð 1994, starfaði með miklum hléum í fimmtán ár eða til 2009, sendi frá sér fjórar plötur og vann til ýmissa verðlauna og viðurkenninga erlendis fyrir einstök lög. Nafnið er þannig tilkomið að Englendingur að nafni John J. Soul eða JJ Soul settist hér að í nokkur ár. Hann hafði starfað sem söngvari og trommuleikari ytra og var til í að taka upp þráðinn með íslenskum spilurum, sérstaklega eftir að við tveir höfðum komist að því að okkur gekk vel að semja saman músík og texta. Músíkin er raunar ekki „soul“ eins og margir kunna að álykta heldur mestanpart blús og fönk með nokkru djassívafi en ýmislegt fleira slæddist stundum með.“

  Eingöngu rafrænt

  Hvar verður þessi tveggja laga plata aðgengileg? „Þessi tveggja laga plata er næstum því en ekki alveg eins og þær voru í gamla daga með a- og b-hliðum, því að útgáfan er einungis rafræn,“ segir Ingvi Þór. „Hún á að finnast á öllum tónlistarveitum, Spotify, iTunes og fleiri stöðum, en auk þess reikna ég með að lögin fái góða kynningu á vegum útgáfufyrirtækis sem starfar í Bandaríkjunum, Bretlandi og Asíu. Annað lagið, Wild About You, verður á safnplötu frá því fyrirtæki sem kemur út bæði rafrænt og á hljómdiski sem dreift verður vítt og breitt.“

  En Ingvi Þór er ekki einhamur í sköpun sinni. Hann hefur lengi skrifað og áður hafa komið út eftir hann glæpasagan Níunda sporið og smásagnasafnið Raddir úr fjarlægð. Þú sendir ekki bara frá þér tónlist. Glæpasagan Stigið á strik kom frá þér á dögunum. Hvenær varð hún til og hver var kveikjan að sögunni? „Það vill svo til að ég hef verið gjarn á að grautast í mörgu. Áhugamálin eru þó fyrst og fremst músík og bókmenntir og ég verið svo heppinn að hafa unnið við hvort tveggja um ævina; sem hljómlistarmaður frá því að ég var sextán ára og síðar bókasafnsfræðingur á Borgarbókasafni. Þótt aldrei hafi verið meiningin að leggja stund á ritstörf hefur það samt æxlast svo að ég hef sent frá mér tvær lauslega tengdar glæpasögur, smásagnasafn og eina þýðingu. Eftir að fyrri skáldsagan kom út 2016 komst ég í stuð og fékk hugmynd sem kallast á við ýmislegt sem þá átti sér stað í þjóðlífinu og passar jafnvel enn í dag, fyrir utan vírusinn alræmda auðvitað. Efni sögunnar, fyrir utan glæpaverkin, tengist músík og einnig hljóðum í umhverfi okkar og óhljóðum sem angra okkur og einnig koma hljóðmenn mikið við sögu en dauðsföll eiga sér stað í þeirra röðum.“

  Hyggur ekki á frekari afrek – og þó

  Árið 2009 hampaði hann Gaddakylfunni, verðlaunum Hins íslenska glæpafélags, fyrir bestu glæpasmásöguna en hann er meðlimur í því félagi. Heldur þú að framhald verði á þínum glæpaferli á ritvellinum? „Gaddakylfuna hlaut ég fyrir smásögu sem síðar birtist í bókinni Raddir úr fjarlægð. Það stóð ekki til að skrifa neitt meira en kannski urðu þessi verðlaun mér hvatning til að láta frekar til skarar skríða þegar ég datt ofan á söguefnið sem varð að glæpasögunni Níunda sporið.

  Ég hygg ekki á frekari afrek á þessu sviði enda nánast kominn að fótum fram fyrir elli sakir. Að minnsta kosti nýkominn á eftirlaun. Einhvern veginn hefur músíkin tekið yfir tíma minn um sinn og snýr það mest að sambandi við erlenda forleggjara, sem felst í að snúast í kringum þegar útgefið efni, þar á meðal frá JJ Soul Band, en stundum er hljóðrituð ný músík sem ég vinn með félögum mínu, Birgi Jóhanni og Vilhjálmi Guðjóns. Í bígerð er svo djassfönkplata með lögum eftir okkur Stefán S. Stefánsson. Ef um hægist á því sviði gæti það svo sem gerst að ég snúi mér aftur að einhverju glæpsamlegu. Það er ein saga sem bíður en hvort hún verður skrifuð verður bara að koma í ljós.“

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum