2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Glæpir og rómantík

  Fátt veitir betri afslöppun og að leggjast upp í rúm með góða glæpasögu og lesa sér til ánægju. Þessar bækur henta einkar vel til að gleyma um stund áhyggjum meðan dvalið er í heimi bókarinnar.

  Samsæri öfgahægriafla í Svíþjóð?

  Óleyst glæpamál hvíla oft eins og mara á þjóðarsálinni. Guðmundar- og Geirfinnsmálin eru dæmi um slíkt hér á landi en í Svíþjóð er það morðið á Olof Palme. Þrátt fyrir að forsætisráðherrann hafi verið umdeildur naut hann engu að síður einnig mikilla vinsælda. Olof Palme var bráðgreindur maður, friðarsinni og hugsjónamaður þótt hann hafi einnig verið kænn stjórnmálamaður. Arfur Stiegs Larson eftir Jan Stocklassa byggir að hluta til á miklu safni gagna og heimilda sem hinn þekkti höfundur þríleiksins um Lisbet Salander hafði safnað að sér en einnig eigin rannsóknum og ályktunum Jans. Þetta er stórmerkileg bók og varpar alveg nýju ljósi á morðið og morðrannsóknina sem hefur verið Svíum þyrnir í augum allt frá árinu 1986. Undirfyrirsögnin er lykillinn að morðinuá Olof Palme og vissulega eru rök Jans sannfærandi en hvort hann hefur í raun leyst málið verður aðeins hægt að fullyrða ef finnast óyggjandi sönnunargögn.
  Útg.Bjartur.

  Einn af þeim bestu

  AUGLÝSING


  Mons Kallentoft er stórskemmtilegur sögumaður og í nýjustu bók hans, Brennuvargar, nýtur sú gáfa sín vel. Lögreglukonan Malin Fors er ákaflega greind og notar innsæi sitt óspart til að leysa flókna glæpi. Að þessu sinni fær hún þá nagandi tilfinningu að morðið á níu ára dreng, Lúkasi, sem var barin til dauða og dráp filippeyskrar konu en lík hennar finnst illa brennt úti í skógi nálægt Linköpng tengist. Malin hefur hingað til ekki haft rangt fyrir sér og að þessu sinni leiðir rannsóknin hana langt út fyrir landamæri Svíþjóðar.
  Útg. Ugla

  Óhefðbundin rómantík við Tangagötu

  Brúin yfir Tangagötuna eftir Eirík Örn Norðdahl er ástarsaga en allsendis óskyld Rauðu ástarsögunum. Hún segir af samdrætti tveggja hversdagsmanneskja á Ísafirði þegar sundurgrafin Tangagata gerir það að verkum að Halldór kynnist nágrannakonu sinni, Gyðu, betur. Sagan er rómantísk þótt það sé ekki rómantík í hefðbundnum skilningi. Halldór er engin sérstakur draumaprins og Gyða engin skýjadís. Þetta er skemmtilega skrifuð bók, fullkomlega jarðbundin og þótt atburðir séu hvorki magnaðir né óvenjulegir skipta þeir samt sköpum í lífi parsins sem óvænt tengdist með brú yfir Tangagötuna.
  Útg. Mál og menning.

  Fín glæpasaga

  Heine Bakkeid er nýgræðingur meðal norrænna sakamálahöfunda en ef marka má Ég mun sakna þín á morgun á hann eftir að láta að sér kveða í hópnum í framtíðinni. Þetta er flott spennusaga um hinn týpíska einfara, lögreglumann sem sjálfur hefur endað í fangelsi og misnotar lyf en fáir standast honum snúning þegar kemur að því að skynja það sem öðrum er hulið. Hann flækist inn í rannsókn á dularfullum mannshvörfum í Norður- Noregi og hver veit, kannski er þetta einmitt það sem Thomas Aske þarf til að koma sér á réttan kjöl aftur.
  Útg. Ugla

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum