2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Gripið í bók

  Janúar er góður mánuður til að lesa. Útivist er yfirleitt ekki spennandi og veðrið gefur oft tilefni til að kúra innandyra og þá er tilvalið að grípa í bók.

   

  Uppflettirit fyrir hlaupanörda
  Eftir að Arnar Pétursson tileinkaði sér hlaupin eftir glæstan feril í körfubolta má segja að hann hafi tekið þau alla leið, eins og sagt er. Hann er nú sjöfaldur Íslandsmeistari í maraþoni, hefur unnið hvert hlaupið á fætur öðru á undanförum árum og hefur sannarlega skipað sér í flokk fremsta íþróttafólks landsins. En hvernig nær maður slíkum árangri? Í Hlaupabókinni deilir Arnar aðferðum sínum með lesendum í nokkurskonar uppflettiriti sem gagnast bæði byrjendum og lengra komnum hlaupurum. Sniðugt er að hafa penna, yfirstrikunarpenna og litla merkimiða við höndina þegar bókin er lesin til að skrifa í spássíurnar og merkja við það sem áhuga vekur. Alger nördabók, skrifuð af hlaupanörd fyrir hlaupanörda. Útg. Veröld.

  Mögnuð framtíðarsaga
  Hér er á ferð framhald af verðlaunabókinni Ljóninu, önnur bókin af þremur. Árið 2096 er runnið upp og Kría, söguhetja fyrri bókar, er þekkt eftir alræmdan vísindaleiðangur til Mars. Ömmubarn Kríu, Alma Khan, 19 ára, aðalsöguhetjan hér, vinnur í gróðurhúsi á Hellisheiði og er óvænt boðið starf í einkagróðurhúsi hinnar frægu Olgu sem einnig fór til Mars. Eftir að hin dularfulla Indra kemur inn í líf Ölmu á margt eftir að breytast. Höfundur hefur skapað afar athyglisverðan og vel úthugsaðan framtíðarheim þar sem landamæri eru engin og loftslagsbreytingar hafa haft mikil áhrif. Gamli miðbærinn er til dæmis afgirt bannsvæði en Kría amma á eitt húsanna þar. Mögnuð og stórskemmtileg framtíðarsaga sem kom verulega á óvart. JPV gefur út.

  Klassískt meistaraverk
  Það er alltaf fengur að klassískum meistaraverkum á íslensku. Endurfundir á Brideshead er þýðing Hjalta Þorleifssonar á Brideshead Revisited eftir Evelyn Waugh. Saga Charles Ryders og vinar hans Sebastian Flyte hefur heillað lesendur um allan heim síðan hún fyrst kom út árið 1945. Hér er tekist á við stórar trúarlegar og siðferðilegar spurningar. Geta menn afneitað innsta eðli sínu og lagað sig að siðboðum sem ganga í berhögg við það? Er ástin sterkasta aflið eða má hún sín lítils þegar sektarkenndin nær að brjóta manneskjuna niður? Stundum eru sambönd og tengsl einfaldlega of flókin og menn betur komnir án þeirra sem þeir elska heitast. Þýðingin er vel unnin og virkilega gaman að rifja upp kynnin af þessari mögnuðu skáldsögu. Útg. Ugla.

  AUGLÝSING


  Lífleg og bráðskemmtileg
  í Með sigg á sálinni, segir Friðrik Þór Friðriksson Einari Kárayni frá lífshlaupi sínu til þessa. Friðrik er skemmtilegur sögumaður, fyndinn og næmur á smáatriði og Einar kann vel þá list að leyfa karakternum að njóta sín. Hann nær að draga upp ótrúlega litríka mynd af þessum vini sínum og kaflarnir þar sem höfundur segir í eigin persónu frá samstarfi þeirra og kynnum eru frábær viðbót.
  Um leið og þetta er saga hæfileikamanns, dugnaðarforks og elshuga er þetta líka að hluta til saga kvikmyndagerðar á Íslandi. Friðrik Þór er þar fyrirferðarmikill og ómetanlegt að fá innsýn inn í hvernig sú listgrein náði að festa sig í sessi hér á landi. Útg. Mál og menning.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum