2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Leikhúsið þarf að sýna breidd mannlífsins“

  Rósa Guðný Þórsdóttir er hluti af hópnum Leikhúslistakonur 50+. Hún segir það skjóta skökku við að þessi aldurshópur sé meirihluti áhorfenda en sjáist lítið á sviðinu.

  Rósa Guðný er ein af okkar þekktari leikkonum og leikstjórum og á að baki túlkun á mörgum frægustu persónum leikbókmenntanna, svo sem eins og Nóru í Brúðuheimili Ibsens og Blanche DuBois í Sporvagninum Girnd eftir Tennessee Williams svo fátt eitt sé nefnt. Þegar þú lítur yfir sviðið í dag, Rósa, finnst þér leikhúsið hafa breyst eða hlutverk þess?  „Leikhúsið þarf auðvitað að sýna breidd mannlífsins, það hefur ekkert breyst. Það þarf að tala inn í samtímann, það er mikilvægt. Svo þarf það líka að gleðja og skemmta fólki, það skiptir máli.“

  Viðtalið við Rósu Guðnýju má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

  Í hópnum Leikhúslistakonur 50+ sameina krafta sína margar okkar reyndustu og öflugustu leik- og sviðslistakonur, ásamt danshöfundum og leikmynda- og búningahönnuðum sem eru komnar um og yfir fimmtugt. Félagið hefur það að markmiði að styðja við og ýta undir leikstarfsemi kvenna á þessum aldri en leitar aðstoðar og framlags karla eftir aðstæðum hverju sinni. Varðandi það, að tala inn í samtímann þá er það einmitt það sem þið eruð að gera hjá Leikhúslistakonum 50+-hópnum sem var stofnaður árið 2014. „Já, það er einmitt það sem við erum að gera, frumkvæðið kom frá Margréti Rósu Einarsdóttur sem var til skamms tíma staðarhaldari með meiru í Iðnó,“ segir Rósa. „Hún hafði mikinn áhuga á því að gefa sviðslistakonum sem væru komnar um fimmtugt og eldri, vettvang til leikstarfsemi og hóaði saman nokkrum konum á fund og lét okkur húsnæði í té. Ekki var hægt að hugsa sér skemmtilegri staðsetningu en Iðnó, elsta og sögufrægasta leikhús landsins við Tjörnina. Þar vorum við með leiklestra og sýningar þangað til við gerðum samstarfssamning við Þjóðleikhúsið til eins leikárs frá hausti 2018 til sumars 2019.“

  Heldurðu að nýir tímar og breytt aldurssamsetning þjóðarinnar muni hafa áhrif á leikhúsið og stöðu kvenna þar? „Já, það finnst mér ekki ólíklegt. Fólk er að eldast og þörfin fyrir að fjalla um og endurspegla veruleika þessara hópa er þess vegna að aukast. Það þarf að breyta hugsunarhættinum varðandi aldur. Fólk sem er um sjötugt í dag og er svo heppið að vera heilsuhraust er ekkert gamalt. Þessi hópur er orðinn öðruvísi og fjölbreytilegar samsettur í dag en áður og er meiri markhópur, eins og það er kallað. Því miður er ekki borin nógu mikil virðing fyrir reynslu fólks almennt og þá sennilega sérstaklega reynslu kvenna. Hluti af þessu er líka það að konur virðast oft ekki trúa nógu sterkt á sjálfar sig. Það er of algengt að þær rífi sig niður, séu jafnvel of vandvirkar og haldnar fullkomnunaráráttu. Þetta er að breytast en það gerist samt furðuhægt.“

  „Það þarf að breyta hugsunarhættinum varðandi aldur. Fólk sem er um sjötugt í dag og er svo heppið að vera heilsuhraust er ekkert gamalt.“

  AUGLÝSING


  Eru einhverjar sérstakar áherslur í verkefnavalinu hjá ykkur? „Nei, þetta byggir á hugmyndum okkar sjálfra og áhuga hinna að taka þátt í þeim verkefnum sem stungið er upp á hverju sinni. Flóran er mjög fjölbreytt. Við höfum sýnt leikrit, verið með leiklestra og ljóðasýningar. Við erum þarna á okkar forsendum og getum valið að vera með eða ekki, eftir því sem hugur okkar og tími stendur til. Það veitir frelsi sem er mjög gott að hafa. Gerir okkur kleift að hella okkur út í hlutina eða draga okkur í hlé, t.d. ef við höfum ekki tíma til að taka þátt.“

  Ef skoðað er hvað er fram undan hjá sviðslistakonunum, þá ríkir greinilega engin lognmolla á fundunum þeirra. Ég gef Rósu Guðnýju orðið: „Við fengum styrk frá afmælisnefnd um 100 ára afmæli fullveldis Íslands í sýninguna okkar „Fjallkonan fríð – eða hefur hún hátt?“ En hugmyndin að þeirri sýningu kom upp á fundi hjá okkur og hefur síðan dafnað og þróast. Þarna verður hin íslenska kona og barátta hennar í aðalhlutverki, allt frá því hún fékk kosningarétt og fram að Metoo-byltingunni. Þetta verður mikil gleði- og danssýning. Ég get lofað því að þarna kemur ýmislegt á óvart. Það er svo margt sem kemur í ljós þegar grúskað er í sögu kvenna. Margt sem þær hafa reynt og gert og það verður að segjast eins og er að oft hefur konum verið sýnd mikil vanvirðing,“ segir Rósa og verður mjög hugsi, „og sumu er enn verið að berjast fyrir, eins og sömu launum fyrir sömu störf. Sú barátta hefur staðið yfir frá því í byrjun tuttugustu aldar og enn er talsvert í land að launajafnrétti sé komið á. Í þessari sýningu skoðum við Fjallkonuna sem tákn og hún er mátuð við baráttu kvenna í gegnum tíðina í tali og tónum. Allt í misléttum dúr. Höfundur handrits er Helga Thorberg og leikstjóri María Sigurðardóttir.

  „Það er svo margt sem kemur í ljós þegar grúskað er í sögu kvenna. Margt sem þær hafa reynt og gert og það verður að segjast eins og er að oft hefur konum verið sýnd mikil vanvirðing.“

  Við frumsýnum „Fjallkonan fríð – eða hefur hún hátt?“ þriðja nóvember nk. í Þjóðleikhúskjallaranum. Við verðum svo með aðra sýningu í Þjóðleikhúskjallaranum næsta vor sem kallast „Dansandi ljóð“ en sú sýning er byggð á ljóðum Gerðar Kristnýjar. Í því verki er verið að skoða lífshlaup íslenskrar nútímakonu með öðrum hætti en við eigum að venjast, með ljóðum, tónlist, dansi og líka í óbundnu máli. Edda Þórarinsdóttir samdi handritið og hún er líka leikstjóri. Árið 2017 sýndum við „Konur og  krínólín“ í Iðnó, en það var sýning sem sló alveg í gegn. Þar er rakin saga tískunnar allt frá krínólíni til rasspúða, rjómakökukjóla og efnislítilla Charleston-kjóla og gamli góði Hagkaupssloppurinn var líka með. Við stefnum að því að taka þessa sýningu upp aftur í Kassanum í Þjóðleikhúsinu vorið 2019.“

  En hópurinn sér ekki bara um sýningar í Þjóðleikhúsinu? „Nei, við höfum líka staðið fyrir leiklestrum í Hannesarholti, t.d. á leikritum Svövu Jakobsdóttur. Það var alveg einstaklega ánægjulegt að endurnýja kynnin við verk hennar, sem mér fundust jafnfersk í dag og þegar hún steig fram á ritvöllinn með þennan frumlega skáldskap á sínum tíma. Hannesarholt er einstaklega gott hús fyrir viðburði af ýmsu tagi, góður hljómburður og húsið allt mjög sjarmerandi.“

  Verður áfram dagskrá í Hannesarholti? „Já, fyrsti leiklestur leikársins var þann 24. október á verkinu „Konur skelfa“ eftir Hlín Agnarsdóttur, óvenjulegt og sterkt verk sem var sýnt við miklar vinsældir í Borgarleikhúsinu árið 1996. Leikendur voru þeir sömu og í uppsetningu Borgarleikhússins og fleira er fyrirhugað,“ segir Rósa en ýtarlegt viðtal við hana má lesa í nýjustu Vikunni.

  Hægt er að nálgast upplýsingar um sýningar leikhúslistakvennanna á síðunni 50plus.org og á fésbókinni: 50+Viðburðir

  Texti / Svala Arnardóttir
  Mynd / Unnur Magna

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum