2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Lesefni á vetrarmánuðum

  Vetrarkvöld eru góður tími til lestrar. Meðan myrkrið grúfir yfir utandyra og snjór og hálka hindra för manna er bók best vina.

  Sönn matarást
  Yljandi yndislestur, afar ljúf saga um hinn franska Julien sem elst upp í litlu veitingahúsi uppi í sveit. Hann þráir ekkert heitar en að feta í fótspor föður síns sem er algjör listakokkur. Faðirinn reynir að koma í veg fyrir það með ýmsum ráðum og hefur aðrar og háleitari fyrirætlanir um framtíð sonarins. Móðirin fær föðurinn, eftir miklar fortölur, til að skrifa niður einstakar uppskriftirnar en uppskriftabókin hverfur sporlaust, eins og fleira í lífi Juliens. Bókin er skrifuð til föðurins og Julien rifjar upp minningar, bæði góðar og sárar og djúpt grafin leyndarmál koma í ljós, yfir öllu saman svífur djúpstæð ástin á matargerð, svo maður nánast finnur matarilminn. Þetta er fyrsta skáldsaga Jacky Durand, blaða- og útvarpsmanns, sem hefur fjallað mikið um franska matargerðarlist. Ólöf Pétursdóttir þýddi. JPV, 2020.

  Stormur í sálinni
  Óveðrið eftir Steve Sem-Sandberg vekur óneitanlega hugrenningatengsl við Ofviðri Shakespeares. Andreas Lehman snýr aftur á litlu norsku eyjuna þar sem hann óx upp eftir lát fósturföður síns. Smátt og smátt rifjast upp fyrir honum minningar frá æskuárunum og lesandanum verður ljóst að gerðir eiganda eyjarinnar Jan-Heinz Kaufmanns þola ekki dagsljósið. Og margt fleira leynist undir yfirborðinu á þessari eyju skrímslisins. Minna, systir Andreasar, flýr þaðan unglingur en það er eins og hún komist samt aldrei fyllilega í burtu. Þemað hér er hvort menn geti breyst, slitið sig frá fortíð sinni og uppruna og náð sátt og hamingju. Og mun sannleikurinn gera menn frjálsa eða fjötra þá enn frekar? Þetta er snilldarlega vel skrifuð saga og áhrifa hennar gætir lengi að lestri loknum. Útg. Ugla.

  Óvæntar slaufur og sálarflækjur
  Hin konan eftir Greer Hendricks og Söruh Pekkanen er vel uppbyggð spennusaga. Við kynnumst tveimur konum, Emmu og Vanessu, eða Nellie. Emma er unnusta fyrrum eiginmanns Vanessu en svo virðist að hún syrgi enn manninn og lífið sem þau lifðu. En hvers vegna reynir hún þá að vara Emmu við? Oft leynist margt ljótt undir sléttu yfirborði en konurnar tvær tengjast á fleiri vegu en þann að hafa báðar orðið ástfangnar af sama manninum. Útg. JPV.

  AUGLÝSING


  Upp á líf og dauða
  Assad á deild Q hjá dönsku lögreglunni hefur alltaf verið dulur um eigin hagi en þegar hann sér ljósmynd í dagblaði bregður honum illilega og opnar sig gagnvart samstarfsfélögum sínum. Í kjölfarið fara hann og Carl Mörk til Þýskalands í sannkallaða hættuför. Deild Q hefur einnig fengið símtöl frá ungum manni sem segist ætla að myrða fólk. Það er barátta upp á líf og dauða á báðum vígstöðvum og hver sekúnda skiptir máli. Þetta er áttunda bók Jussi Adler Olsen um Carl Mörk og samstarfsmenn hans. Höfundur hefur einstakt lag á að skapa góða sögu og mikla spennu og það var sönn nautn að sökkva sér ofan í Fórnarlamb 2117 og steingleyma gnauðandi vetrarvindum. Magnea J. Matthíasdóttir þýddi, Vaka Helgafell, 2020.

  Steingerður Steinarsdóttir og Guðríður Haraldsdóttir.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum