2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Búðardalsleirinn einstaklega meðfærilegur

  Guðbjörg Björnsdóttir sat oft með vinum sínum í Búðardal í æsku og mótaði fígúrur og drullukökur úr leir. Strax þá heillaðist hún af þessu efni og hefur aldrei sagt skilið við það. Nýlega dvaldi hún sumarlangt við nám í þýskri postulínsverksmiðju og þar bjó hún til músarrindla og sýndi þá í þýskri höll. Hún er dæmigerður Íslendingur að því leyti að hún vinnur tvö störf, sinnir ástríðu sinni í tómstundum og gengur um dali og fjöll en segist gæta þess að hvíla sig líka.

   

  „Ég er fædd og uppalin í Dölunum,“ segir hún. „Nánar tiltekið á Skarðsströnd en flutti með foreldrum mínum þegar ég var lítil stelpa í Búðardal. Þar kynntist ég leirnum í jörðinni. Við lékum okkur mikið með hann krakkarnir, vorum að drullamalla og móta úr leirnum. Búðardalsleirinn er svo þægilegur að auðvelt er að móta hann. Þetta var auðvitað bara barnaleikur og við létum verkin þorna í sólinni, svo kom regnið og þau runnu út.“

  Mynd/Hákon Davíð Björnsson

  Búðardalsleirinn var rannsakaður og unnið mun meira úr honum áður en farið var að flytja inn leir hingað til landsins. En Guðbjörg átti eftir að kynnast þessu hráefni mun betur síðar. „Ég fór í myndmenntadeild Kennaraháskóla Íslands. Þá hafði kennaradeildin nýlega verið flutt úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands þangað yfir og ég er með fyrstu nemendunum til að útskrifast úr deildinni. Þar kynntist ég leirlistinni, Ásrún Tryggvadóttir kenndi mér af mikilli innlifun og ég smitaðist af henni. Ég hellti mér síðan út í kennslu, kynntist eiginmanni mínum Haraldi Guðna Bragasyni tónlistamanni við eignuðumst og ólum upp börnin okkar þrjú en ég var alltaf eitthvað að sinna myndlist og leirnum með fram. Ég eignaðist ofn eftir að hafa tekið þátt í samkeppni um vænlegar hugmyndir að frumkvöðlastarfi. Þar setti ég á stofn „fyrirtæki“ um kaffihús og leirvinnustofu og hlaut fyrir það fyrstu verðlaun.

  „Í hugmyndavinnunni sæki ég í náttúruna og ég nota mikið íslensk jarðefni. Í náminu rannsakaði ég og gerði tilraunir með jarðleirinn. Ég þróaði úr honum steypumassa og hanna töluvert af munum og steypi í gifsmótum.“

  AUGLÝSING


  Við urðum svo fyrir stóru áfalli haustið 2009 en ég missti manninn minn óvænt. Stuttu seinna ákvað ég að sækja um námsleyfi og í kjölfarið um diplómanám í leirmótun í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Ég var svo lánsöm að komast að, ég þurfti þessa tilbreytingu og þráði nýbreytni. Bara það að geta unnið og sinnt sköpun eftir að hafa orðið fyrir þessu áfalli hjálpaði mér að vinna úr því.“

  Guðbjörg Björnsdóttir. Mynd/Hákon Davíð Björnsson

  Vinnur með íslenskan jarðleir
  Guðbjörg bjó í Sælingsdalstungu í Dalabyggð þegar hún hóf námið árið 2013. „Ég bjó í borginni þessa tvo vetur en var fyrir vestan í sveitinni á sumrin. Ég útskrifaðist árið 2015 og í kjölfarið ákváðum við, ég og yngri dóttir mín, að vera áfram hér. Eldri börnin mín voru þá sest hér að.“

  Hún á enn húsið sitt fyrir vestan og hluta í jörðinni sem hún fæddist á svo ræturnar hafa ekki enn verið fullkomlega slitnar upp. „Nei, ég er mikil Dalamanneskja,“ segir hún. „Er sveitamanneskja og ef ég stæði betur fjárhagslega myndi ég ekki selja húsið mitt fyrir vestan en eins og staðan er núna er erfitt að vera á leigumarkaði. Ég myndi gjarnan vilja komast af honum. Ég er með góða og trygga vinnu hér og leirvinnustofu í Íshúsi Hafnarfjarðar. Það er því margt sem heldur í mig hér núna. Að starfa sem leirlistakona gefur mér mjög mikið og ég nýti allan minn aukatíma í það. Ég er í fullu starfi sem sérkennari í Lindaskóla í Kópavogi og kenni að auki tvö námskeið í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Þess vegna hef ég það ekki alltaf í hendi mér hvenær ég kemst til að vinna á vinnustofunni.“

  Steypumassi og glerungar úr íslenskum jarðefnum
  Kannski er það þráin eftir heimahögunum eða einfaldlega ástin á landinu sem ræður því að Guðbjörg notar mikið íslenskan jarðleir og jarðefni. „Í hugmyndavinnunni sæki ég í náttúruna og ég nota mikið íslensk jarðefni. Í náminu rannsakaði ég og gerði tilraunir með jarðleirinn. Ég þróaði úr honum steypumassa og hanna töluvert af munum og steypi í gifsmótum. Núna er ég að vinna að því að búa til góðan glerung á leirmunina og til þess nota ég ýmis jarðefni, meðal annars Reykjaneskísilinn og Hekluvikur. Mig langar mikið til að nota íslensk jarðefni og móta mína sérstöðu og eigin línu, gera borðbúnað og fleira, er byrjuð á hugmyndavinnunni.“

  „Við urðum svo fyrir stóru áfalli haustið 2009 en ég missti manninn minn óvænt. Stuttu seinna ákvað ég að sækja um námsleyfi og í kjölfarið um diplómanám í leirmótun í Myndlistaskólanum í Reykjavík.“

  En er íslenski jarðleirinn hentugur til að vinna úr? „Hann er frekar stuttur en það þýðir að hann er ekki mjög teygjanlegur. Þegar ég var til dæmis að gera rannsóknir á honum og vinna steypumassann minn þá vantaði mig efni í hann til fá meiri styrk í hann og gera hann örlítið teygjanlegri. Ég setti í hann örlítið af rauðleir eða um 20% og þá fékk ég góða útkomu. Gáruglösin sem ég hannaði á meðan ég var í námi og vann úr honum fyrst til að byrja með nota ég heima hjá mér og þau þola mjög vel almenna notkun og uppþvottavél. Sumarið eftir að ég lauk námi var ég að vinna sem matráðskona í Silfurtúni í Búðardal og þar þvoði ég glasið mitt í uppþvottavél tvisvar til þrisvar á dag og það þoldi það mjög vel, styrkurinn var því mjög fínn. En ég þarf sjálf að ná í leirinn og hreinsa hann. Það er því miklu meiri vinna að baki því að nota hann en að kaupa tilbúinn innfluttan leir. Búðardalsleirinn er líka einstaklega meðfærilegur og fallegur í glerungagerð á postulín eða steinleir.“

  Mynd/Hákon Davíð Björnsson

  Músarrindlar í höll í Þýskalandi
  En þekkingarþrá Guðbjargar var hvergi nærri fullnægt þrátt fyrir þessar tilraunir. Hana langaði að prófa fleira og sótti um Erasmusstyrk sem kennari við Myndlistaskólann í Reykjavík til að fara til Þýskalands til starfsnáms, læra af þeim gifsmótagerð og að kynna sér postulínsframleiðslu. „Ég hafði samband við einkarekna postulínsverksmiðju í Lippelsdorf, Wagner & Apel Porzellan. Þetta fjölskyldufyrirtæki var stofnsett árið 1877. Þau voru tilbúin til að taka við mér en þau sérhæfa sig í að gera styttur úr postulíni og búa til mjög flókin mót úr gifsi. Áður en ég fór kviknaði hugmyndin um fuglinn. Ég ætlaði ekki að gera mót sem væri mjög flókið til að byrja með, mig langaði þó að gera eitthvað íslenskt. Ég hef alltaf verið hrifin af músarrindlinum, því að lengi var hann minnsti fugl Íslands. Þetta er ofsalega fallegur lítill fugl. Hann er brúnn og hugmyndin var alltaf sú að gera hann úr íslenska leirnum mínum, því hann er rauðbrúnn.

  Meðan ég var þarna í starfsnáminu og búin að gera fyrsta gifsmótið kemur kona í heimsókn í verksmiðjuna, hún var starfandi sýningarstjóri í Schlossmuseum í Molsdorf, gamalli höll í barokkstíl sem var byggð á 17 öld. Hún var komin til að ræða við systurnar sem reka verksmiðjuna um væntanlega postulínssýningu sem hún var að undirbúa. Hún fór svo að forvitnast um mína vinnu og fékk mikinn áhuga á því sem ég var að gera. Það að ég væri að búa til gifsmót og vinna þarna úr þýsku postulíni og ætlaði síðan að halda áfram og steypa úr íslenskum jarðleir. Þessu lauk með því að hún sendi mér tölvupóst daginn eftir og bauð mér að koma næsta ár og taka þátt í postulínssýningunni í höllinni. Ég fór því út síðastliðið sumar með fugla með mér og tók þátt í þessari samsýningu. Þetta var mikill heiður fyrir mig og systurnar í verksmiðjunni voru óskaplega ánægðar með að vera ekki bara að sýna eigin muni heldur einnig verk íslenska lærlingsins síns.“

  Núna eru fuglarnir framleiddir fyrir hana í verksmiðjunni og seldir í Litlu hönnunarbúðinni í Hafnarfirði, í Saga Museum í Reykjavík og Handverkshúsinu Bolla í Búðardal. Það kann að hljóma einfalt að steypa músarrindla úr leir í gifsmóti eða handmóta og renna leir en töluverð hugmyndavinna liggur að baki hverju verki. Guðbjörg sökkti sér ofan í rannsóknir á músarrindlum. Hún las sér til um lifnaðarhætti þeirra, teiknaði þá í skissubækur og velti fyrir sér litbrigðum þeirra. Hún tekur mjög mikið af ljósmyndum meðan hún vinnur og þær myndir eru bæði hennar leið til að skrásetja heimildir um starfið og þróa hugmyndir sínar áfram.

  Vinnur af ástríðu
  Ekki er annað að heyra en að verkefnalistinn sé nokkuð langur hjá Guðbjörgu og flestum þætti þetta sennilega nóg, hún er að kenna, sækja leir, hreinsa og vinna úr. Hún er einnig mikill göngugarpur og hefur gaman af að vera úti í náttúrunni og bregða sér á göngu með góðum félögum þegar tími gefst til. „Ég er ekki í mikilli framleiðslu enn sem komið er,“ segir hún. „Ég hef ekki tíma í það. Hins vegar skipulegg ég mig mjög vel. Í fyrra varði ég páskafríinu í sumarbústað á Flúðum. Hafði með mér 30-40 kg af leir og gerði skúlptúra sem ég sýndi á sýningu síðastliðið haust. Með því að finna tíma á þennan hátt þá hefst þetta. Ég hef brennandi áhuga og geri þetta af mikilli ástríðu.

  „Hún var komin til að ræða við systurnar sem reka verksmiðjuna um væntanlega postulínssýningu sem hún var að undirbúa. Hún fór svo að forvitnast um mína vinnu og fékk mjög mikinn áhuga á því sem ég var að gera.“

  Í framtíðinni get ég unnið meira í leirnum. Þegar ég næ að selja húsið fyrir vestan og koma mér vel fyrir hérna get ég örugglega minnkað starfshlutfallið. Eins og hlutirnir standa núna þarf ég að vinna mikið til að standa undir mínum skuldbindingum. Ábyrgðin er farin að minnka gagnvart börnunum, þau eru orðin fullorðin. Þau eldri eru farin að búa og það er komin lítill ömmustrákur. Ég finn fyrir meira frelsi og hef fleiri stundir fyrir sjálfa mig og listina.“

  Þess má geta að þótt hún tali um hvíld og frelsi þá hefur hún fengið áframhaldandi styrk til að læra meira í Þýskalandi. „Já, ég er að fara aftur í sumar. Þær systur vilja fá mig aftur og það gleður mig og ég er þakklát,“ segir Guðbjörg. „Við erum orðnar góðar vinkonur og önnur þeirra kom til Íslands í ágúst í fyrra. Ég er líka í samstarfi við átta aðra listamenn hér á Íslandi. Við hittumst í vinnusmiðju haustið 2017, kennarinn okkar var leirlistamaðurinn Anders Fredholm frá Svíþjóð. Við lærðum að smíða rakúofn og rakúbrenndum, einnig brenndum við leirmuni með öðrum frumstæðum brennsluaðferðum. Tekin var upp heimildamynd á meðan á þessari vinnu stóð. Í framhaldi af því bauðst okkur að halda sýningu síðastliðið haust, á heimildarmyndinni og á þessum verkum. Við tókum svo ákvörðun um það að halda áfram samstarfinu og fara víðar með sýninguna. Hún verður sýnd á þremur stöðum á landinu á þessu ári, þar er ég eingöngu að sýna skúlptúra unna úr rauðleir. Þetta er það helsta fram undan hjá mér. Ég vinn af ástríðu og í rólegheitum. Ég reyni að hvíla mig á milli og fara ekki fram úr sjálfri mér. Að skapa er eins og að elska og gerir mig hamingjusama.“

  Mynd/Hákon Davíð Björnsson

  Nú vinnur þú við sérkennslu. Hefur leirlistin eða myndlistarsköpun nýst þér þar? „Já, ég hef notað myndlist í sérkennslunni. Það er gaman að virkja nemendur og uppgötva unga listamenn og hvetja þá áfram. Maður er fljótur að átta sig á og sjá hæfileikana hjá þessum einstaklingum. Ég er búin að kenna í tuttugu og átta ár, verið myndlistarkennari, umsjónarkennari, skólastjóri og nú síðast sérkennari. Í gegnum tíðina hefur verið svo ánægjulegt að sjá þessa hæfileika hjá nemendum og sjá þá blómstra í gegnum listina. Nú er ég einnig að kenna unglingum í Myndlistaskólanum og þar er dásamlegt að horfa á þá gleyma sér við sköpun, með leirinn og við rennibekkinn, þar ná þau að slaka á,“ segir Guðbjörg að lokum en myndir af verkum hennar má sjá á Fésbókarsíðunni, LeirGugga.

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum