2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Miðla, skemmta og efla andlega heilsu

  Bækur hafa svo margvíslegan tilgang, að miðla fróðleik, skemmta, efla andlega heilsu og fleira og fleira. Allir eru sammála um að það þarf að byrja snemma að kenna börnum að meta bækur og halda við þeim áhuga fram á unglingsár þannig endist hann alla ævi. Hér eru nokkrar bækur sem óhætt er að mæla með.

   

  Íslenska sauðkindin

  Kannski er fullmikið í lagt að telja dýrasögur sérstaka bókmenntagrein en um tíma nutu þær mikilla vinsælda. Höfundar voru oftast dýravinir að leitast við að vekja athygli manna á réttindum dýra. Gestur Pálson skrifaði stórkostlega sögu um hryssuna Skjónu og Þorgils Gjallandi sendi frá sér margar góðar dýrasögur. Þekktustu erlendu sögurnar eru án efa bækurnar um Lassí og bækurnar Úlfhundurinn (Call of the Wild) og Fagri Blakkur. Undanfarið hafa svona sögur notið mikilla vinsælda á hvíta tjaldinu en í Kindasögum eftir Aðalstein Eyþórsson og Guðjón Ragnar Jónasson er leitast við að skoða og sýna samband manns og sauðkindar hér á landi, rifja upp atburði þar sem kindur koma við sögu og fjalla um fé sem ekki fer troðnar slóðir, til að mynda forystufé, útigangsfé og villifé. Þeir rifja einnig upp ýmsar ógnir sem sótt hafa að þessari dýrategund, hrakningar þess um íslensku fjöllin og hvernig henni hefur tekist að lifa þær allar af. Þetta er skemmtilega skrifuð bók og fróðleg. Útg. Sæmundur

  Íslenska sauðkindin

  AUGLÝSING


  Margbreytileg einsemd

  Innflytjandinn eftir Ólaf Jóhann Ólafsson er stórskemmtilegt sambland af reyfara, ástarsögu og fagurbókmenntum. Matargagnrýnandinn, bókahöfundurinn, þýðandinn og starfsmaður utanríkisþjónustunnar Hildur Haraldsdóttir fær óvenjulega beiðni frá vini sínum, Georg Vilhjálmssyni píanóleikara, nefnilega að dreifa ösku hans á tilteknum stað á Íslandi. Hún hefur lengi verið búsett í New York en leggur upp í nokkurra daga ferð til heimalandsins í þessum tilgangi en fyrir tilstuðlan tengdadóttur systur sinnar flækist hún inn í lögreglurannsókn á morði á ungum innflytjanda. Ung stúlka er einnig horfin og ferðin verður bæði lengri og snúnari en Hildur lagði upp með. Söguþráðurinn er flókinn og komið inn á margvísleg þemu meðal annars hve margbreytilegur einstæðingsskapur fólks getur verið. Ólafur Jóhann skrifar einstaklega fallegan texta og persónur í þessari bók eru ótrúlega heillandi. Útg. Veröld

  Margbreytileg einsemd

  Lífsþorstinn

  Svo skal dansa eftir Bjarna Harðarson er frábærlega vel skrifuð saga íslenskra alþýðukvenna. Fátæktin er þeirra fylgikona og engin leið að kveða þá skottu niður þrátt fyrir dugnað og eilífan þrældóm. Það er heldur ekki mikið val þegar kemur að ástinni og barneignum. Karlar lofa og karlar svíkja en nokkrir reynast heilir og sannir. Þessar konur þurfa að bjarga sér sjálfar og það er ekki alltaf auðvelt. Þetta eru hetjur og þótt lífið kunni að beygja þær þá brotna þær ekki. Það er eiginlega ekki hægt að leggja þessa bók frá sér fyrr en hún er lesin til enda og að henni lokinni þykir manni vænt um Siggu Velding, Hallberu, Settu, Stínu, Kollu, Sjönu og allar hinar sem koma við sögu. Útg. Sæmundur

  Lífsþorstinn

  Dúfur koma skemmtilega á óvart

  Dúfnaregistur Íslands eftir Tuma Kolbeinsson er fróðleg, vel skrifuð og fallega uppsett bók. Það er óhætt að segja að dúfur komi lesandanum skemmtilega á óvart. Flestar þekkja auðvitað hæfni þeirra til að rata og fljúga langar vegalengdir án þess að fatast nokkru sinni flugið, enda þess vegna verið notaðar til að flytja boð milli manna í árþúsundir. En hversu fjölbreyttar þær eru og hæfileikarnir margvíslegir kemur mjög vel fram í þessari fróðlegu bók þar sem rakin er sameiginleg saga manns og dúfna bæði hér á landi og út um allan heim. Öllum fuglaáhugamönnum ætti að finnast fengur að þessari bók. Útg. Sæmundur.

  Dúfur koma skemmtilega á óvart

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum