2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Mikilvægt að rjúfa keðju óheilbrigðra samskipta

  Leikritið Gullregn vakti mikla athygli þegar það var sýnt í Borgarleikhúsinu. Efnið var eldfimt og kom við kaunin á mörgum. Þar segir af Indíönu Jónsdóttur, íbúa í Breiðholti, sem öðlast hefur talsverða leikni í að vera á framfæri hins opinbera. Hún er stjórnsöm, fordómafull og bitur. Sigrún Edda Björnsdóttir lék hana á sínum tíma og nú stígur hún aftur í spor öryrkjans Indíönu en að þessu sinni á hvíta tjaldinu.

   

  Margir gagnrýnendur höfðu á orði þegar Gullregn gekk í leikhúsinu að það hentað vel sem kvikmynd. Höfundurinn Ragnar Bragason er auðvitað kvikmyndaleikstjóri og einkar lagið að segja sögu á myndrænana hátt. En hvernig var að fara með Indíönu Jónsdóttur af leiksviði og yfir á hvíta tjaldið? „Það var ævintýri líkast og um leið mikil áskorun að fara með hana Indíönu mína af Stóra sviði Borgarleikhússins yfir á hvíta tjaldið,“ segir Sigrún Edda. „Ég bjó að því að þekkja mína konu út og inn eftir skapandi æfingaferli og svo lékum við yfir fimmtíu sýningar á sviðinu. Það er allt önnur leiktækni að leika í kvikmynd, enda tvö ólík listform, þannig að ég þurfti að nálgast textann og persónuna alveg upp á nýtt. Í leikhúsi verður röddin þín að ná á aftasta bekk og öll framsetning kallar á stærðir í leik. Í kvikmyndinni er nostrað við minnstu blæbrigði, skapsveiflurnar, andardráttinn, einmanaleikann og húmorinn. Sagan stækkaði. Við gátum farið með Indiönu út úr íbúðinni sinni í Torfufelli og búið til ný ævintýri. Í myndinni fer hún t.d. á blint stefnumót á Kringlu-krána, hún skreppur í Engihjallann og rústar bíl og við gátum nostrað við dulargervið sem hún fer í þegar hún heimsækir Tryggingastofnun.“

  „Mikilvægasti boðskapur þessa verks er að við lítum í eigin barm og skoðum samskipti okkar við annað fólk. Það er mikilvægt rjúfa keðju óheilbrigðs samskiptamynsturs. Samskiptamynsturs sem einkennast af einkennast af meðvirkni, kúgun sem og andlegu og líkamlegu ofbeldi.“

  Ekki aðlaðandi manneskja

  Auk þess að sækja bætur fyrir sjálfa sig hefur Indíana náð ýmsu út á son hennar Unnar. Hann er undir ægivaldi móður sinnar sem hefur talið honum trú um að hann sé haldinn ýmsum krankleikum og með ADHD. Þegar þarna er komið sögu er hann fluttur í eigin leiguíbúð og kominn með áhuga á björgunarsveitarstörfum og heilbrigðum lífsstíl. Að auki hefur hann kynnst konu. Sú er pólsk og ekki tengdamóður sinni fyllilega að skapi, fyrst og fremst vegna þjóðernisins. Það er ekki hægt að segja að hún sé aðlaðandi persónu. Hvað finnst þér um hana? „Það verður seint sagt um hana Indíönu Georgíu Jónsdóttur að hún sé aðlaðandi manneskja,“ segir Sigrún Edda. „Persónulega vildi ég ekki búa í sama stigagangi og hún. Ef satt skal segja þá var ég alveg búin á því eftir að hafa verið við tökur tólf tíma á dag í rúman mánuð í hugarheimi hennar.

  AUGLÝSING


  En það eru ekki allar manneskjur aðlaðandi en þær geta engu að síður verið áhugaverðar. Indíana er áhugaverð. Tilfinningalíf hennar er eins og hjá litlum krakka. Hún sveiflast á einni mínútu úr gleði í afbrýðisemi, tekur frekju- og fýluköst eins og hendi sé veifað og er í stöðugum samanburði við náungann. Við veltum fyrir okkur hvað það væri í umhverfi og aðstæðum sem mótar manneskju eins og Indiönu? Það eru nefnilega margir sem þekkja þessa manngerð. Hvað gerir hana að því sem hún er? Indíana er stjórnsöm einstæð móðir með fjörutíu ára gamlan son sem hún hefur sjúkdómavætt frá frumbernsku. Sjálf er hún búin að koma sér upp ýmsum sjúkdómum til að lifa af í hörðum heimi. Þetta er leiðin sem hún kann. Hún er mikil leikkona, grimm og klár og snillingur í að spila á kerfið. Svo er hún er rasisti, díler og þjófur en mér þykir nú samt svolítið vænt um hana, hún er brjóstumkennanlega fyndin í allri sinni neikvæðni. Hún er hrædd við lífið, hrædd við fólk, hrædd við breytingar, hrædd við að missa það sem henni er kærast, son sinn. Hún þorir ekki að hleypa ástinni inn í líf sitt af ótta við höfnun og situr uppi með einsemdina, biturleikann og ástleysið.“

  Vert að líta í eigin barm

  Ekki beinlínis eftirsóknarverð örlög það. Þrátt fyrir þennan fremur kaldranalegan heim hefur Ragnari tekist að sýna fyndnar jafnt sem sorglegar hliðar á honum. Þarna er margt áhugavert til umfjöllunar auk ádeilu á fordóma má nefna þörfina fyrir viðurkenningu eins og komið var inn á áðan, verið er að takast á við skuggahliðar manneskjunnar og hvernig hún getur byggt sér óraunhæfar hugmyndir um aðra. Hvað finnst þér mikilvægasti boðskapur þessa verks?

  „Mikilvægasti boðskapur þessa verks er að við lítum í eigin barm og skoðum samskipti okkar við annað fólk. Það er mikilvægt rjúfa keðju óheilbrigðs samskiptamynsturs. Samskiptamynsturs sem einkennast af meðvirkni, kúgun sem og andlegu og líkamlegu ofbeldi.“

  Þegar verkið var sýnt í Borgarleikhúsinu urðu margir til að gagnrýna að Indíana væri stöðluð og frekar fordómafull mynd af atvinnuöryrkjanum sem væri orðinn sérfræðingur í að svíkja fé af ríkinu. Hvað finnst þér um þá gagnrýni? „Fólk upplifir hluti á mismunandi hátt. Ég stjórna því ekki. Indíana er ekki tákngervingur fyrir öryrkja síður en svo. Það hvarflar ekki að okkur að gera lítið úr fólki í þessari bíómynd. Fólk er allskonar, gott og slæmt, fyndið og fúlt, breiskt og klókt, ríkt og blankt í öllum stéttum samfélagsins. Indíana á allan tilfinningaskalann þó að hennar skali sé nokkuð dimmur.“

  Gullregnið, tréð hennar Indíönu, er hennar líf og yndi, fjársjóður ef svo má segja. Þegar henni er gert að fórna því ætti það að vekja hana til umhugsunar og nýta tækifærið til að þroskast. Gerir hún það? „Menn verða að sjá myndina til að komast að því. Gullregnið hennar er það eina sem hún hefur fengið viðurkenningu fyrir í lífinu og því sársaukafullt fyrir hana að sú viðurkenning sé að engu gerð,“ segir Sigrún Edda.

  Sigrúns Edda segir að það sé stórkostlegur hópur sem komi að þessari mynd. Fagmenn á öllum póstum. „Ég vona að bíógestir skemmti sér jafn vel og við skemmtum okkur við gerð þessarar myndar. Það var mikið hlegið á settinu. Því þó að persónur myndarinnar séu harmrænar þá eru þær alveg dásamlega spaugilegar.“

  Hvað ertu að gera núna og hvað er fram undan hjá þér? „Ég er að vinna í Borgarleikhúsinu.
  Lauk við að sýna Ríkharð III og lék núna í Vanja frænda eftir Anton Tsjékhov sem frumsýnt var 11. janúar. Svo fer í gang mjög spennandi verkefni, glens og grín þar sem tekið verður á skemmtanamenningu landans. Verkið heitir Veisla og verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu í apríl. Svo er bara að njóta lífsins!“

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum