2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Nokkrar góðar unglingabækur

  Allir vita að margvíslegan ávinning má fá af því að lesa, meðal annars lengri einbeitingartíma, bætta þekkingu, meiri orðaforða, aukna hæfni til að kryfja hlutina til mergjar, slökun og hugarró. Þetta er aðeins lítill hluti af þeim kostum sem lestur hefur í för með sér og þess vegna ætti að hvetja unglinga til að lesa sem mest og það er góð afþreying að lesa með börnunum sínum.

  Fín verðlaunabók

  Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur hlaut barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár. Þetta er spennandi saga og persónurnar bæði furðulegar og skemmtilegar. Það er alltaf eitthvað heillandi við þá sem binda ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamenn. Dröfn ferðast á afskekkta eyju til að hitta ömmu sína í fyrsta sinn. Amman býr í blokk og nágrannar hennar eru um margt sérstæðir. Dröfn lærir hins vegar að ekki er alltaf að marka fyrstu hughrif og bæði staðir og fólk geta unnið á. Þetta er heillandi, skemmtileg og vel skrifuð saga. Útg. Mál og menning.

  Blokkin á heimsenda

  AUGLÝSING


  Hryllilegur hryllingur

  Ævar Þór Benediktsson er ungum, íslenskum lesendum að góðu kunnur. Bæði hafa gagnvirku bækurnar Þín eigin … slegið í gegn sem og sögurnar af bernskubrekum Ævars vísindamanns. Hann hefur greinilega trú á að óþarfi sé að hlífa börnum við ýmsum hryllingi en Þín eigin hrollvekja kom út árið 2017 og nú eru komnar Hryllilega stuttar hrollvekjur. Þetta er smellnar sögur en óhugnanlegar. Gömlu ævintýrin voru svo sem enginn barnaleikur og það eru þessar sögur Ævars ekki heldur. En hver kannast ekki við hafa sem barn sóst eftir svæsnum draugasögum og fundið hvernig kaldur hrollur fór um mann? Lengi á eftir þorði maður heldur ekki fram á klósett í rökkrinu. En þessi bók gefur einnig foreldrum gott tækifæri til að njóta grípandi sagna af óhugnanlegum verum og atburðum með unglingnum sínum. Útg. Mál og menning.

  Þín eigin hrollvekja

  Ofboðslega fallegur texti

  Sumarbókin eftir Tove Jansson er um Soffíu, móðurlausa stúlku sem dvelur á sumrin með ömmu sinni og pabba á lítilli eyju undan strönd Finnlands. Hér er verið að lýsa einföldu hversdagslífi fólks og samspili þess við náttúruna. Textinn er svo fallegur að stundum grípur lesandinn andann á lofti og verður að lesa sömu málsgreinina þrisvar bara til að njóta hennar til fulls. Þetta er frábær saga til að lesa fyrir börnin en líkt og allar bestu barnabækurnar geta fullorðnir ekki síður notið hennar. Útg. Mál og menning.

  Sumarbókin

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum