2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Orti ljóð um leiðinlega stærðfræði

  Stundum eru ljóðabækur safn ljóða sem virðast óskyld eða allsendis ólík hvert öðru en einnig er til í dæminu að þær hafi þema sem gengur eins og rauður þráður í gegnum bókina. Okfruman er fyrsta bók ungrar skáldkonu, Brynju Hjálmsdóttur, en þar er sögð heildstæð saga í fáum en litríkum dráttum.

   

  Okfruman er í raun ævisaga sögð í ljóðum. Hvernig kviknaði hugmyndin? „Í byrjun árs 2019 fór ég að leggja drög að handriti, reyna að tína saman efni sem ég átti til hér og þar og búa til heildstætt verk,“ segir Brynja. „Á einhverju frekar hversdagslegu augnabliki áttaði ég mig á því hvað bókin átti að heita: Okfruman. Þegar ég fann titilinn byrjaði ýmislegt að gerast, þá varð til þráður, aðalpersóna og fleiri ljóð bættust við. Okfruma er fyrsta fruman í nýjum einstaklingi. Þetta er sterkt orð og það vísar í raun til frum-oksins sem bókin fjallar um: að upphafið sé nátengt endalokunum og að dauðinn sé hluti af lífinu.“

  Okfruman

  Vantaði myndrænt mótvægi

  AUGLÝSING


  Margt kemur við sögu, fósturmissir, þunglyndi, sultugerð og ævintýri. Allt fléttast þetta saman og eitt verður stundum tákn fyrir annað. Meðal annars má nefna Grámann í Garðshorni og rabarbara. Var meðvitað að sækja þannig algenga hluti til að bregða upp mynd af örlagaríkum atburðum í huga lesandans? „Já, ég myndi segja að það væri meðvitað. Í þessari bók geri ég tilraun til að draga upp ævi manneskju með sem fæstum orðum, sem felst meðal annars í því að segja frá veigamiklum atburðum í bland við hversdagslegar hendingar. Verkið er einhvers konar safn minningabrota. Svo gengur ljóðmælandinn í bókinni í gengum ákveðið rof, þar sem minningarnar brenglast og saklausir hlutir verða ógnvekjandi, eins og til dæmis Grámann í Garðshorni.“

  Í bókinni eru myndir. Eru þær eftir þig? „Þetta eru myndir eftir mig. Þegar ég var að vinna í handritinu áttaði ég mig á að það vantaði myndrænt mótvægi,“ segir hún. „Myndirnar eru þarna til að skapa eins konar „kaflaskipti“ eða andrými milli hluta til að lesandinn geti staldrað við. Myndirnar sjálfar eru óræðar en það má samt alveg lesa eitthvað í þær, þannig að hver lesandi getur lagt sína eigin túlkun í myndirnar.“

  „Mamma fann nú nokkrar stökur um daginn sem ég orti þegar ég var svona ellefu ára. Þær eru alveg rígbundnar með stuðlum og höfuðstöfum og fjalla m.a. um hvað stærðfræði sé leiðinleg.“

  Minningar dýrmætar og viðkvæmar

  Vír og víravirki kemur inn í líf manneskjunnar á mörkum æsku og fullorðinsára. Eru það tákn fyrir skuldbindingarnar og flókin tilfinningabönd sem þá koma inn í líf fólks? „Já, það er bara dýrindistúlkun! Víravirkið endurspeglar líka tilraun ljóðmælandans til að koma reglu á sinn þankagang, raða minningum sínum upp skipulega, en það gengur brösulega. Minningar eru dýrmætar en þær eru líka viðkvæmar, þær geta gleymst, týnst og breyst. En þetta fjallar vissulega um tengsl og tilfinningabönd, ævi manneskju er minningasúpa sem blandast við aðrar ævir, aðrar súpur. Þetta sést til dæmis í öðru ljóði í bókinni sem fjallar um dánarbú. Þar er einhver sem vill fá verðmætin, tekkhúsgögnin og Kjarvalsmyndirnar en aðrir fá annars konar verðmæti, pönnukökupönnu, minningu af rifrildi, reykinn í loftinu og þar fram eftir götunum.“

  Áður hafa birst eftir þig ljóð í bókmenntatímaritum og safnbókum. Hefur þú lengi fengist við að yrkja? „Ekkert voðalega lengi, ég hef ort í svona fjögur ár. En mamma fann nú nokkrar stökur um daginn sem ég orti þegar ég var svona ellefu ára. Þær eru alveg rígbundnar með stuðlum og höfuðstöfum og fjalla m.a. um hvað stærðfræði sé leiðinleg,“ segir Brynja kankvís og víst er að margir taka undir að stærðfræði er svo hvimleið að hún gæti rekið hvern sem er út í ljóðagerð bundna stuðlum og rími.

  Okfruman er þín fyrsta ljóðabók, full af heillandi og lifandi myndum. Má búast við að þær verði fleiri? „Ég er strax byrjuð að þreifa á nýju ljóðverki, sem er óvænt ánægja, ég ætlaði að skrifa eitthvað allt annað. Það kemur eitthvað meira, bara spurning hvenær það verður.“

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum