2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Sönglist tekin til starfa í Þjóðleikhúsinu eftir óvænta uppsögn á samningi

  Ragnheiður Hall og Erla Ruth Harðardóttir hafa rekið leiklistar-, söng- og dansskólann Sönglist í 21 ár. Síðustu 16 árin innan veggja Borgarleikhússins en í vor var samningi þeirra þar sagt upp og þær stóðu frammi fyrir því að skólinn yrði húsnæðislaus.

   

  Svo fór þó ekki, sem betur fer, Þjóðleikhúsið gerði við þær samstarfssamning og nú er vetrarstarfsemi skólans hafin af fullum krafti á nýjum stað.

  „Þessir flutningar komu reyndar ekki til af góðu,“ segja þær Ragnheiður og Erla Ruth. „Þó að okkur líði ótrúlega vel hérna í Þjóðleikhúsinu og móttökurnar hafi verið stórkostlegar, þá var okkur einfaldlega bara sagt fyrirvaralaust upp í Borgarleikhúsinu þar sem við höfðum verið síðan 2003.“

  Spurðar hvaða skýringar Borgarleikhúsið hafi gefið á að slíta samstarfi við þær segja þær stöllur að lítið hafi verið um skýringar.

  AUGLÝSING


  „Ég held að skýringin sé að þau stofnuðu sjálf leiklistarskóla til höfuðs okkur í rauninni,“ segir Erla Ruth. „Ástæðan sem þau gáfu okkur hins vegar var plássleysi. Ég leyfi mér nú að draga það í efa, þótt allir þurfi auðvitað sitt pláss. Ég held þau hafi bara viljað losna við okkur úr samkeppninni til að efla sinn eigin skóla.“

  Þrjú hundruð nemendur og tæplega þrjátíu kennarar

  Sönglist hóf starfsemi í Þjóðleikhúsinu í ágúst og vetrarstarfið er komið í fullan gang. Gerðar eru strangar kröfur til nemenda og þær Ragnheiður og Erla Ruth leggja áherslu á að þetta sé alvöruskóli með tvær tólf vikna annir á ári, ekki námskeið.

  „Allir nemendur verða að sækja tíma bæði í söng og leiklist,“ útskýra þær. „Svo bætist dansinn við þannig að það er tekið á þessum þremur meginlistgreinum í leikhúsbransanum. Við vorum lengi þær einu sem buðum upp á svona nám, en nú eru komnar söngleikjadeildir í suma dansskólana. Ég held samt að það vinni enginn jafnmarkvisst að kennslu í þessum þremur greinum og við gerum.“

  Aldursmörk nemenda sem teknir eru inn í Sönglist eru frá átta til fimmtán ára en sumir halda áfram að sækja nám þar alveg til sautján ára aldurs. Skólanum hefur heldur betur vaxið fiskur um hrygg síðan á upphafsárunum þegar þær Ragnheiður og Erla Ruth sáu sjálfar um alla kennslu, nú kenna þar sjö söngkennarar, tíu leiklistarkennarar, níu danskennarar og allt að fimmtán aðstoðarkennarar, sem oftar en ekki eru fyrrverandi nemendur skólans. Nemendur eru um þrjú hundruð og á hverri önn eru sýnd um fjörutíu leikrit.

  „Við erum eins og maskína,“ segir Erla Ruth og hlær. „Enda er varla sett upp leiksýning eða sjónvarps-verkefni eða kvikmyndaverkefni án þess að obbinn af krökkunum í þeim verkefnum séu frá Sönglist.“

  Skóli eins og þær hefðu viljað vera í

  Erla Ruth segir að kveikjan að stofnun skólans fyrir tuttugu og einu ári hafi alfarið verið hugmynd Ragnheiðar sem þá vann í Söngsmiðjunni.

  „Ég fékk Erlu til liðs við mig til að hjálpa mér við leiklistina, eða það er að segja túlkun á lagatextum,“ útskýrir Ragnheiður. „Síðan var sá skóli lagður niður en okkur Erlu langaði til að stofna skóla eins og við hefðum viljað vera í þegar við vorum ungar.“

  „Við vorum náttúrlega báðar í Leiklistarskóla Helga Skúlasonar þegar við vorum ungar,“ skýtur Erla inn í. „Ragnheiður er menntuð sem bæði söngkennari og grunnskólakennari og ég er menntuð leikkona og það skemmtilega við það þegar Ragnheiður var í Söngsmiðjunni, var hvað hún lagði mikla áherslu á túlkun textanna við lögin og taldi, sem er auðvitað rétt, að með því að taka nemendurna í þjálfun í leiklist yrði þeim gert auðveldara fyrir við þá túlkun. Þannig varð Sönglist til, fyrsti skólinn fyrir börn sem lagði jafna áherslu á söng og leiklist.“

  „Ég held þau hafi bara viljað losna við okkur úr samkeppninni til að efla sinn eigin skóla.“

  Sönglist hefur aldrei hlotið neina styrki eða fjárhagsaðstoð frá hinu opinbera, hefur þetta ekki oft verið barningur?

  „Ó, jú,“ segir Ragnheiður og brosir. „Við höfum aldrei fengið krónu í styrki, vorum reyndar að baksa við að biðja um styrki hér og þar þegar við vorum að byrja en fengum alls staðar nei og þá ákváðum við bara að annaðhvort gengi skólinn eða ekki. Við myndum bara standa og falla með því, en við yrðum auðvitað að geta borgað starfsfólkinu laun.“

  Ragnheiður Hall og Erla Ruth Harðardóttir.

  Fór bara að hágráta

  Það gekk og skólinn hefur blómstrað síðan og alið upp hverja stjörnuna af annarri. Þær segjast reyndar ekki vilja telja upp þá fyrrverandi nemendur sem gert hafi garðinn frægan í leiklist, söng eða dansi eftir að hafa útskrifast frá Sönglist, en þeir séu ansi margir og sér ekki fyrir endann á því. Til marks um það lýsir Erla Ruth upplifun sinni af því að mæta á sýningu á Matthildi, sem auðvitað skartar nemendum Sönglistar í aðalhlutverkum.

  „Það eru þrjár stúlkur sem skipta með sér hlutverki Matthildar,“ útskýrir hún. „Tvær þeirra eru úr Sönglist og þegar ég mætti á sýninguna, þar sem líka voru fyrrverandi nemendur í burðarhlutverkum, fór ég bara að hágráta. Það var svo sterk upplifun að horfa á þessa stórkostlegu sýningu með þessar dásamlegu stúlkur sem höfðu numið hjá okkur í forgrunni. Það gerði mig óskaplega stolta.“

  „Það var auðvitað búið að skipuleggja leikárið þegar við fengum uppsagnarbréfið frá Borgarleikhúsinu.“

  Þær stöllur eru að vonum óskaplega ánægðar og þakklátar fyrir að vera komnar inn í Þjóðleikhúsið og segja að með svona stuttum fyrirvara hafi það nánast verið kraftaverk að forráðamenn Þjóðleikhússins hafi skapað rými fyrir starfsemi skólans.

  „Það var auðvitað búið að skipuleggja leikárið þegar við fengum uppsagnarbréfið frá Borgarleikhúsinu,“ segir Erla Ruth.

  „Við leituðum til Ara Matthíasarsonar þjóðleikhússtjóra og hann fékk bara áfall. Sagði ekki koma til greina að láta þennan listaskóla sem haldið hefur uppi barnamenningu í 21 ár deyja drottni sínum. Þannig að þau komu okkur inn hjá sér, sem er kraftaverki líkast. Það er sko ekkert smámál að koma svona batteríi inn í leikár sem þegar er búið að skipuleggja, en þeim tókst það og þau eru dásamleg og við dýrkum þau eins og á stalli. Við fáum Kassann undir sýningarnar okkar og það rými er bara eins og sérsniðið fyrir okkur. Við eigum ekki orð til að lýsa því hvað við erum þakklátar og hamingjusamar með þetta.“

  Myndir / Hákon Davíð Björnsson

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum