2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Svo varð ég ófrísk og það varð úr að það varð hluti af sögunni“

  Svandís Dóra Einarsdóttir leikkona hefur átt mikilli velgengni að fagna undanfarin ár og tekist á við afar fjölbreytileg hlutverk. En leiklistin er ekki það eina sem Svandís tekst á við um þessar mundir því hún á von á sínu fyrsta barni með eiginmanni sínum, Sigtryggi Magnasyni um miðjan ágúst. Og það upplýsist hér með að frumburður Svandísar er drengur.

   

  „Ég var að klára tökur á þáttaröðinni, Ráðherranum, þar sem ég var með lítið hlutverk. Þáttunum er leikstýrt af Nönnu Kristínu Magnúsdóttur og Arnóri Pálma Arnarsyni en það er Ólafur Darri Ólafsson sem fer með aðalhlutverkið,“ segir Svandís þegar hún er spurð hvað hún sé að bardúsa í leiklistinni þessa dagana.

  „Næsta vetur fer ég svo að leika í þáttaröðinni Aftureldingu sem er leikstýrt af Hafsteini Gunnari Sigurðssyni en handritið er m.a. skrifað af Dóra DNA. Svo var ég líka að klára tökur á  fransk-kanadískri kvikmynd sem var að hluta tekin upp hér heima og er leikstýrt af Pascal Payant. Myndin heitir April Skies og gerist á þremur stöðum, Íslandi, Svíþjóð og Frakklandi.  Hún er tekin upp á þremur tungumálum, íslensku þar á meðal. Þetta er saga þriggja kvenna í þessum löndum sem svo fléttast saman smátt og smátt. Hver og ein þessara kvenna er á sínu  tilinningalega ferðalagi, ef svo má segja, sem síðan tengjast.“

  „Þetta er saga þriggja kvenna í þessum löndum sem svo fléttast saman smátt og smátt.“

  Svandís fer með eitt af aðalhlutverkunum í myndinni og segir leikstjórann hafa verið í sambandi við sig og þau hafi hist.

  AUGLÝSING


  Svandís á von á sínu fyrsta barni með eiginmanni sínum, Sigtryggi Magnasyni um miðjan ágúst. Mynd / Unnur Magna

  „Eftir að við höfðum spjallað saman bauð hann mér hlutverkið, en þá var ég ekki ólétt,“ segir Svandís og brosir. „Síðar sagði ég honum að ég væri barnshafandi og við fórum yfir það hvort betra væri að byrja tökur á Íslandi þegar lítið sæist á mér, en sjálfri fannst mér alltaf sterkara samkvæmt handritinu að persónan sem ég léki væri ólétt. Ég sagði við hann að ég mundi auðvitað virða hans ákvörðun varðandi þetta. Síðan gerðist það dásamlega að hann hringir í mig og segir þetta allt vera magnaða tilviljun, því hann hafi dreymt, viku áður en ég hafði samband, að ég ætti von á barni og hann hafi verið að ræða það mikið við konuna sína sem skrifaði handritið með honum, hvort að persónan sem ég leik ætti að vera ólétt. Svo varð ég ófrísk og það varð úr að það varð hluti af sögunni,“ segir Svandís um þetta dulmagnaða atvik, þar sem lífið og listin fléttast saman með einstaklega fallegum hætti.

  Lestu viðtalið við Svandísi í heild sinni í 30. tölublaði Vikunnar. Í viðtalinu ræðir hún einnig hestamennskuna en Svandís er hestakona í húð og hár, enda komin af miklum kempum á því sviði en faðir hennar, Einar Bollason, er einn þekktasti hestamaður þjóðarinnar fyrr og síðar og einn stofnenda Íshesta sem hann rak ásamt móður hennar, Sigrúnu Ingólfsdóttur, hestakonu af lífi og sál.

  Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

  Texti / Svala Arnardóttir
  Myndir / Unnur Magna

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum