2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Trúi því innilega að heimurinn sé fyrir alla“

  Kvikmyndin Tryggð er byggð á skáldsögu Auðar Jónsdóttur, Tryggðarpanti. Mexíkóska listakonan Raffaella Brizuela Sigurðardóttir fer með eitt aðalhlutverk myndarinnar en þrátt fyrir að þetta sé frumraun hennar á hvíta tjaldinu hefur hún lifað og hrærst í heimi kvikmyndaiðnaðarins og annarra lista í fjöldamörg ár.

   

  Fyrir nokkrum árum fór Raffaella fyrst í prufu fyrir annað hlutverk í myndinni. „Það kom frekar óvænt upp,“ útskýrir hún.

  „Mér var boðið í prufu fyrir karakterinn sem er frá Úganda. Prufan gekk í sjálfu sér vel en leikstjórunum fannst ég ekki passa í þetta tiltekna hlutverk. Það var ekki fyrr en að hlutverk Marisol sem er frá Kólumbíu losnaði óvænt, að mér var boðið að koma aftur í prufu. Ég fékk hlutverkið í þetta sinn en það þýddi að ég hafði aðeins mánuð til að undirbúa mig fyrir tökurnar á meðan sumir höfðu miklu lengri tíma. En þetta hafðist, ég lagði mig alla fram og ferlið gekk mjög vel með stuðningi samstarfsfólks míns. Ég tók því sérstaklega alvarlega að ná rétta hreimnum, kólumbíska hreimnum sem þurfti að ná fram bæði á íslensku og ensku. Ég myndi segja að það hafi verið mesta áskorunin. En allt var mjög vel skipulagt hjá AskjaFilms production og mikið fagfólk sem stóð að gerð myndarinnar. Við áttum mjög gott samstarf og ég held að allir séu himinlifandi með útkomuna.“

  „Við vitum alveg hvað er að eiga sér stað víða í Evrópu, með alla þessa innflytjendur sem eru að flýja aðstæður í heimalöndum sínum. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir ástandinu,“

  Tryggð fjallar um líf þriggja kvenna. Ein þeirra, Gísella, sem leikin er af Elmu Lísu Gunnarsdóttur er íslensk, en hún á í vandræðum með að láta enda ná saman og fær tvær erlendar konur til að leigja hjá sér. Sambúðin gengur vel fyrst um sinn en með tímanum fara menningarárekstrar að koma upp á yfirborðið. „Við vitum alveg hvað er að eiga sér stað víða í Evrópu, með alla þessa innflytjendur sem eru að flýja aðstæður í heimalöndum sínum. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir ástandinu,“ segir Raffaella.

  AUGLÝSING


  „Sumir koma inn í landið löglega og aðrir ekki og hver hefur sína sögu að segja. Myndin varpar ljósi á að þessi mál hafa margar hliðar og hvert og eitt er afar persónulegt. Við gerum okkur oft ekki grein fyrir því hvað er að eiga sér stað inni á heimilum, sjáum þetta fólk og hugsum með okkur að þarna sé á ferð bara einhver útlendingur. Fordómarnir byrja jafnvel að gerjast án þess við áttum okkur á því að hver ákvörðun sem við tökum hefur margföld áhrif á jörðina og íbúa hennar. Persónulega tel ég mig bera vissa ábyrgð á óréttlæti sem á sér stað hinum megin á hnettinum, bara með því að ýta á hnapp á snjallsímanum mínum, kaupa bensín eða henda fötum þegar þau eru farin úr tísku.

  Í myndinni fáum við mjög góða innsýn og tækifæri til að sjá hlið þessara kvenna, hvernig það er að búa í nýju landi og hvernig er tekið á móti þeim. Það er ekki alltaf fallegt og þarna eru skýr dæmi um það sem þarf að breytast. Ég var mjög spennt að fá það tækifæri að taka þátt í þessu verkefni því ég trúi því innilega að heimurinn sé fyrir alla. Þó að við búum á Íslandi verðum við samt sem áður fyrir áhrifum af öðrum þjóðum og gerðum þeirra og þegar geisa stríð förum við ekki varhluta af því. Og sem Baha’i þá trúi ég því að jörðin er sem ein heild og mannkynið íbúar hennar.“

   Frá New York til Sauðárkróks

  Málefnið er ekki ótengt Raffaellu sjálfri því hún þekkir það af persónulegri reynslu að vera innflytjandi á Íslandi. Fyrstu kynni hennar af landinu voru þegar hún kom hingað í heimsókn, fjögurra ára gömul. Hún fæddist í Mexíkó þar sem móðir hennar kynntist fljótt eftir það íslenskum manni, sem þá var skiptinemi í landinu. Þau felldu hugi saman og maðurinn gekk Raffaellu í föðurstað. Stuttu síðar fluttist fjölskyldan til New York þar sem foreldrar Raffaellu fóru í nám.

  Þegar föður hennar bauðst staða sem tónlistarkennari í skóla á Sauðarkróki, slógu þau til og fluttu heim til Íslands. Raffaella fluttist því á fyrstu árum ævi sinnar frá Mexíkó til New York og þaðan á Sauðarkrók sem verður að teljast stórt stökk. Hún lýsir Sauðarkrók sem staðnum þar sem hún upplifði frelsi í fyrsta skipti. „Ég þekkti ekkert annað en að þurfa að halda í höndina á mömmu eða einhverjum fullorðnum í hvert skipti sem ég fór út úr húsi. Allt í einu var mér svo nánast hent út og átti að leika mér þar allan daginn þar til kæmi að kvöldmat. Mér fannst alveg ótrúlegt að fá slíkt frelsi. Ég byrjaði í grunnskólanum þar og lærði tungumálið. Mín fyrstu orð voru „bland í poka fyrir 15 krónur, takk!““ Eftir eitt ár og nokkrar tannlæknaheimsóknir fluttum við svo til Reykjavíkur. Ég flutti 15 ára til Los Angeles og þar má segja að listalífið mitt hafi byrjað. Ég kláraði nám við háskólann í Pasadena Art Center College of Design sem Entertainment Designer og flutti þá aftur til Íslands.“

  Listin er leið til að koma góðum hlutum á framfæri

  Raffaella á afar fjölbreytta ferilskrá að baki og hefur starfað bæði fyrir framan og aftan myndavélina. Hún vann í tvö ár í Kína í kvikmyndaiðnaðinum og stofnaði listasmiðjur í Suður-Ameríku, Rússlandi og Afríku, svo fátt eitt sé nefnt. Meðal íslenskra verkefna má nefna vinnu við framleiðslu Latabæjarþáttanna og nú síðast kvikmyndina Kona fer í stríð. Rafaella segir listina ávallt hafa verið stóran hluta af hennar lífi.

  „Ég hef alltaf verið að syngja og dansa og leiklistin alltaf verið partur mér. Mér finnst þetta allt í raun mjög svipað, fjölbreytileg verkfæri sem fólk notar til að fá sköpunina í gegn. Það er það sem þetta snýst um fyrir mér, að vera einlæg og ná tilfinningum fram. Þannig er hægt að ná til hjarta fólks og breyta heiminum. Listin er valdamikið tjáningarform, leið til þess að koma áhrifamiklum hugmyndum  á framfæri.“

  Þegar viðtalið fer fram er Raffaella stödd hinum megin á hnettinum, í Simbawbe, að heimsækja Bahai-fjölskyldu sína.

  „Nú langar mig að fara einbeita mér að tónlist, gefa út lögin mín. Það hefur lengi verið stór draumur hjá mér. Svo er ég að vinna líka í fjölskyldufyrirtækinu okkar sem mamma og stjúppabbi minn eiga. Það er veitingastaðurinn Eldur og ís á Skólavörðustígnum, þar sem  boðið er upp á ljúffengar crepés-pönnukökur. Ég hef virkilega gaman af því að vera þar, það er alltaf nóg að gera og fólk frá öllum heimshornum kemur inn og spjallar. En ég reyni að plana ekki of mikið fram í tímann, láta lífið koma mér vel á óvart, eins og gerðist þegar ég fékk þetta frábæra hlutverk í Tryggð sem ég er svo þakklát fyrir. Það eina sem ég veit er að ég mun alltaf halda áfram að anda inn og út í listunum,“ segir Raffaella að lokum.

  Myndir / Lilja Jónsdóttir, Julie Rowland og úr einkasafni

   

   

   

   

   

   

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum