Þriðjudagur 16. apríl, 2024
0.1 C
Reykjavik

Menningarsnobb akademíunnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Lindu Björg Árnadóttur

Á síðasta ári síðustu aldar kom hópur fólks að því að gefa út blað sem bar nafnið 24/7 sem átti að fylgja Morgunblaðinu einn dag í viku sem aukablað og fjalla um mál líðandi stundar, poppmenningu, tónlist og tísku. Ég kom aðeins að þessu þar sem forsíðuviðtalið og forsíðumyndin var af fatahönnuðum og fyrirætluðum viðburði í þeim geira.
Blaðið kom út einu sinni og svo ekki meir. Ástæðan var sú að hinir íhaldssömu og elítísku áskrifendur Morgunblaðsins urðu æfareiðir yfir aukablaðinu og sendu kvartanir í hrönnum til ritstjórnar MBL varðandi hvað það ætti að þýða að senda þeim þessa lágmenningu og rusl og hótuðu í kjölfarið að segja blaðinu upp.

Það var því hætt við áframhaldandi útgáfu þessa ágæta blaðs og er það miður. Það er nefnilega þannig að eitthvert fólk hefur ákveðið að sum menning er hámenning og önnur menning, sem ekki er eins mikils virði, er lágmenning, öðru nafni poppmenning, menning fólksins.

Í nýlegu viðtali við kvikmyndaframleiðandann og listamanninn Sigurjón Sighvatsson á Vísi gerir hann skilin á milli hámenningar og lágmenningar að umtalsefni. Hann segir frá því að hann hafi á árum áður, verið við nám í bókmenntafræði í Háskóla Íslands og þar hafi hann ekki verið hátt skrifaður sem og hans verk og tónlist, en hann var meðlimur í hinum vinsælu hljómsveitum Brimkló og Ævintýri. Að það sem hann hafi verið að gera, hafi samkvæmt fræðimönnunum ekki flokkast sem tónlist eða listir vegna þess að það var ekki hámenning.

Ég hef lengi verið að velta þessu fyrir mér vegna þess að ég hef unnið í listum í 30 ár og hef ekki séð að það séu listamenn sem standa fyrir þessari hugmynd um elítisma og lagskiptingu innan listanna. Hugmyndin virðist algerlega koma frá fræðimönnum og akademíunni.
En hvað er það sem gefur fræðimönnum og akademíunni leyfi til þess að taka listir og flokka þær með þessum hætti. Útiloka sumar listir og staðsetja svo sjálfa sig með hálistunum og elítunni? Þessi hugmynd hefur ekki orðið listunum til framdráttar.

Samkvæmt kenningum félagsfræðingsins Pierre Bourdieu þá koma listir og menning frá elítunni og síðan seytla þær niður samfélagið til lægri stétta. Hvernig stendur á því að listirnar eigi að koma frá elítunni? Hún býr þær ekki til heldur listamenn sem hafa almennt engan áhuga á elítisma.

- Auglýsing -

Sigurjón bendir réttilega á að þessi hugmynd sé víkjandi og að núna sé það bara eldri kynslóðin sem sér listirnar með þessum hætti. Skilin milli hámenningar og lágmenningar eru að hverfa. En voru þau einhvern tíman til? Voru þau ekki bara búin til af fræðimönnum?
Sigurjón hélt eftir þetta til kvikmyndaborgarinnar Hollywood og lét þar þessar hugmyndir ekki hefta sig og framleiddi margt frábært sem hægt væri að flokka í báða þessa flokka listanna þar á meðal uppáhaldskvikmyndina mína „Wild at heart“ eftir David Lynch.

En það verður erfitt fyrir suma að sleppa þessari hugmynd vegna þess að margt fólk hefur notað hugmyndina um hámenningu og lágmenningu til þess að upphefja sig, til þess að staðsetja sjálft sig í efri lögum samfélagsins. Notað þessar hugmyndir sér til aðgreiningar frá almúganum. Því samkvæmt þessu, ef einstaklingur gefur til kynna að hann hafi þekkingu á hámenningunni þá telur sá hinn sami sig tilheyra elítunni.

Ef lesendur Morgunblaðsins hefðu ekki verið svona íhaldssamir og elítískir árið 1999 og lagt niður blaðið 24/7 þá væri það í dag kannski fjölmiðlasamsteypa á stærð við Torg ehf.
Nú eru mörg fylgiblöð sem fylgja Morgunblaðinu um ýmiss málefni, tísku og poppmenningu þar á meðal, og hefur orðið augljós breyting á þessu flokkunarkerfi listanna núna 20 árum seinna en samt vantar töluvert upp á.

- Auglýsing -

Höfundur er dósent og doktorsnemi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -