Metsölubækur eftir höfund sem neitar að koma út úr skápnum

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Bækurnar um vinkonurnar Elenu Creco og Lilu Cerullo hafa farið sigurför um heiminn.

Í sögunum alast stúlkurnar upp í fátækrahverfi í Napólí á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Báðar gera sitt besta til að hefja sig upp yfir aðstæður sínar og fá einhvers konar vald yfir eigin lífi en tekst misjafnlega.

Elena Ferrante er skáldanafn og enginn veit hver höfundurinn er í raun.

Elena segir söguna sem byrjar þegar henni berast þær fréttir frá syni Lilu að hún sé horfin. Engu er líkara en jörðin hafi gleypt hana. Elena fer að hugsa til baka og rifjar upp vináttu þeirra allt frá því báðar voru smábörn. Þótt Elena dáist að Lilu er ljóst að frá fyrstu tíð ríkir skrýtin samkeppni á milli þeirra. Það er alveg sama hversu mjög Elena leggur sig fram, Lila er alltaf skrefi á undan. Hæfileikar hennar og námsgáfur eru einstakar. Elena vinnur af mikilli elju í viðleitni sinni til að halda í við vinkonu sína en finnst hún samt alltaf síðri. Lila á hinn bóginn virðist sjaldan þurfa að hafa nokkurn hlut fyrir öllum sínum sigrum.

Þegar líða tekur á söguna fer lesandinn að efast um þessa upplifun Elenu. Þrá Lilu eftir að verða rík, losna undan hömlum umhverfisins og lifa sjálfstæðu lífi er sterk. Strax í fyrstu bókinni kemur í ljós hversu gríðarlega mikla vinnu Lila er tilbúin að leggja á sig til þess að draumurinn nái að verða að veruleika. En það er eins og öll hennar viðleitni sé dæmd til að mistakast.

„Þrá Lilu eftir að verða rík, losna undan hömlum umhverfisins og lifa sjálfstæðu lífi er sterk. Strax í fyrstu bókinni kemur í ljós hversu gríðarlega mikla vinnu Lila er tilbúin að leggja á sig til þess að draumurinn nái að verða að veruleika.“

Barátta Lilu

Elena á hinn bóginn fær öll tækifærin. Þeim býðst báðum að halda áfram námi en aðeins Elena fær leyfi foreldra sinna til þess. Lila reynir að halda í við vinkonu sína og tileinka sér það námsefni sem hún lærir, kannski í þeirri von að einhvern tíma opnist henni námsleiðin líka. Eitt dásamlegt sumar fær Elena að fara í frí til lítillar paradísareyju og þar opnast henni sýn á annars konar líf og veröld en ríkir í sumarmollunni í Napólí. Hún skrifar Lilu og lýsir því sem fyrir augu ber en reiðist þegar hún fær aðeins eitt bréf til baka. Að vísu fullkomlega stílað og vel skrifað og þá finnst Elenu að verið sé að nudda henni upp úr eigin ófullkomleika í skrifunum og svarar því ekki.

Þegar heim kemur kemst hún að því að ein af ástæðunum fyrir þögn Lilu er sú að hún hefur af brennandi eldmóð hellt sér út í að læra iðn föður síns og bróður, skósmíðar. Hún ætlar að smíða vandaða, fallega skó og leggja þannig nýjan grunn í fjölskyldufyrirtækinu. Hún leggur nótt við dag en draumurinn er lagður í rúst í einu vetfangi er faðir hennar sér skóna. Að lokum sér Lila sér ekki annað fært en giftast sextán ára gömul manni sem hún telur að beri virðingu fyrir sér og muni skapa sér betri tilveru. Í sjálfu brúðkaupinu rennur upp fyrir henni að svo er ekki.

Bækur Elenu Ferrante njóta vinsælda um allan heim.

Í síðari bókunum heldur Elena áfram sigurgöngu sinni. Hún flytur úr hverfinu og verður rithöfundur, starf sem margt bendir til að Lila hefði kosið sér hefði hún getað.  Þegar Elena lítur baka er ýmislegt í fyrstu bók hennar sem á sér samsvörun í smásögu sem Lila skrifaði tólf ára gömul. Sagan heitir Bláa álfkonan og er nafnið tilvísun í veruna góðu sem gerði Gosa að raunverulegum strák í sögunni um trédúkkuna sem þarf að ganga í gegnum miklar þrautir áður en hann nær að verðskulda það tækifæri.  Þarna kann að leynast lykillinn að kjarna bókanna.

Í Elena Ferrante er skáldanafn og enginn veit hver höfundurinn er í raun. Í fyrra reyndi ítalskur blaðamaður að uppljóstra hver hún væri en vopnin snerust í höndum hans þegar allir lesendur Elenu um heim allan höfnuðu frétt hans og sögðu að engu skipti hver höfundurinn væri, bækurnar stæðu fyrir sínu og ef hún vildi ekki gera uppskátt um raunverulegt nafn sitt væri það hennar val. Þetta er aðdáunarverð afstaða og segir margt um styrkleika boðskapar bókanna.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira