Mikill kærleikur í loftinu í Búðardal um hávetur

Deila

- Auglýsing -

Ný íslensk kvikmynd Héraðið var frumsýnd þann 14. ágúst og fer kona með burðarhlutverkið. Arndís Hrönn Egilsdóttir leikur Ingu, kúabónda sem gerir uppreisn gegn kaupfélaginu í heimabyggð sinni og rekst á að boðberar sannleika og nýrra tíma eiga ekki alltaf auðvelt með að koma boðskap sínum til skila.

 

Arndís Hrönn hefur verið áberandi í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum undanfarin ár og skapað marga eftirminnilega karaktera.

Myndin var tekin upp á rjómabúinu Erpstöðum þar sem besti ís landsins fæst. Grímur Hákonarson leikstýrir Héraði en hann er þekktastur fyrir Hrúta. Nýja myndin gerist einnig í litlu samfélagi og fjallar um bónda þó á mjög ólíkan hátt. En hvernig var fyrir Arndísi Hrönn, leikkonu og borgarbarn, að leika kúabónda? Var erfitt fyrir hana að setja sig inn í sveitalífið eða hafði hún einhverja þekkingu á því fyrir?

„Ég hafði aldrei verið í sveit og er ekki fræg fyrir mikið verksvit þannig að ég þurfti að hafa dálítið fyrir þessu,“ segir hún. „Ég fór í vist í eina viku til hinnar mögnuðu Heiðu Guðnýjar Ásgeirsdóttur fjallabónda og reyndi að vera aðeins til gagns. Best var ég í að sópa fóðurganginn. Svo voru þau Helga og Þorgímur á Erpstöðum algerlega dásamleg og handleiddu mig í gegnum búverkin og kenndu mér á traktor. Ég er óendanlega þakklát fyrir kennsluna og líka fyrir að hafa kynnst öllum þessum frábæru bændum og ást þeirra á skepnunum og náttúrunni.“

Las um sorg og sorgarviðbrögð

Inga er sterkur persónuleiki og reynir allt hvað hún getur að sannfæra aðra bændur og fá þá í lið með sér en það gengur erfiðlega, enda hefur kaupfélagið hefur sterk ítök í sveitinni. Þegar þú fékkst handritið í hendurnar, hvað fannst þér um persónuna?

„Mér fannst hún strax mjög áhugaverð og spennandi að fara undir húðina á henni og reyna að átta sig á hvað hún var að hugsa. Ég las mikið um sorg og sorgarviðbrögð þar sem að Inga missir manninn sinn í byrjun myndarinnar og í framhaldi leysast úr læðingi byltingaröfl innra með henni.“

Margir hafa talað um að Inga sé ekki ólík Höllu í Kona fer í stríð, þ.e.a.s kona sem ekki hikar við að fara ein í baráttu við kerfið. Ertu sammála þessu? „Kona fer í stríð og Héraðið eru mjög ólíkar myndir og Halla og Inga eru gjörólíkar persónur en þær eiga það sameiginlegt að vera konur og vera á miðjum aldri,“ segir Arndís Hrönn.

„Ég las mikið um sorg og sorgarviðbrögð þar sem að Inga missir manninn sinn í byrjun myndarinnar…“

„Kvikmyndasagan er stútfull af sögum af karlmönnum sem berjast gegn ríkjandi kerfi en það er sjaldgæfara að miðaldra konur séu í aðalhlutverki. En sem betur fer er það nú að breytast. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvort þessi spurning myndi koma upp ef um væri að ræða kvikmyndir um tvo karla sem væru í svipaðri stöðu.“

Það er vissulega góður punktur en til allrar lukku má sjá teikn á lofti um að það færist í vöxt bæði að konur séu í burðarhlutverkum og að aldur sé ekki endilega fyrirstaða. Ýmsar kvenkynsofurhetjur og baráttujaxlar hafa komið frá Hollywood-maskínunni sem og kvikmyndir þar sem miðaldra fólk og eldra er í forgrunni. Nú þegar búið er að frumsýna myndina, hvaða tilfinningar eru þér þá efst huga og hvað stendur upp úr þegar þú horfir til baka yfir ferlið við gerð hennar?

„Ég er bara ótrúlega þakklát fyrir að hafa verið partur af þessum hæfileikaríka hópi sem tók þátt í gerð myndarinnar. Grímur er frábær leikstjóri og það var ótrúlega gott að vinna með honum og öllu teyminu. Það var mikill kærleikur í loftinu og mynduðust sterk vinabönd. Það var líka ótrúlega magnað að búa í Búðardal um hávetur alveg við hafið, vakna á morgnana og fá sér kaffi og horfa út á sjóinn og sjá himnana opnast.“

Grímur fékk mikið lof fyrir mynd sína Hrúta og þegar er búið að selja Hérað til yfir þrjátíu landa. Hún verður sýnd víðsvegar um Evrópu í vetur og tilhlökkunarefni að vita hvort hið sama verður upp á teningnum með hana. En aftur að aðalleikkonunni. Hvað ertu að gera núna og hvað er fram undan hjá þér í vetur? „Núna er ég á leiðinni til Englands á fiðlunámskeið með dóttur minni. En í haust stendur til að fara á nokkrar kvikmyndahátíðir til að fylgja Héraðinu úr hlaði. Síðan byrja ég að æfa í Þjóðleikhúsinu mjög spennandi verk sem heitir Engillinn og er byggt á verkum Þorvaldar Þorsteinsonar. Það er Finnur Arnar Arnarsson sem leikstýrir og verkið verður frumsýnt í desember. Svo stendur til að gera framhald af Föngum og ýmislegt fleira skemmtilegt í gangi,“ segir Arndís Hrönn að lokum.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

- Advertisement -

Athugasemdir