Mikilvægast að bíða ekki lengur

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Einkaþjálfarinn Björn Þór Sigurbjörnsson er með reyndari þjálfurum landsins. Hann hefur starfað við þjálfun frá árinu 2001 og segist alla tíð hafa haft mikla þörf á að hreyfa sig. Hann lítur svo á að heilsa og heilbrigði sé ekki sjálfsagður hlutur og undir okkur sjálfum komið að hafa hlutina í lagi. Björn mælir með jafnvægi og segir að þeir sem ráðleggi öðrum að borða ekki ávexti ættu að hugsa sinn gang.

„Það eru ákveðin forréttindi að vakna á morgnana, geta stigið fram úr og gert þá hluti sem okkur þykja sjálfsagðir,“ segir Björn. „Okkur finnst sjálfsagt að geta gengið á milli staða og farið í ræktina en ég lít svo á að það að hafa heilsu og að geta viðhaldið heilbrigði sé langt frá því að vera sjálfsagður hlutur og eingöngu undir okkur sjálfum komið.“

Björn segist alla tíð hafa haft mikla þörf fyrir að hreyfa sig og vera aktívur en hann byrjaði að starfa við þjálfun árið 2001. „Segja má að ég hafi slysast út í það út frá lyftingunum sem áttu hug minn allan. Eftir að hafa sótt námskeið og tekið einkaþjálfarapróf fékk ég starf í Hreyfingu sem tækjaleiðbeinandi. Stuttu seinna fékk ég tækifæri til þess að taka að mér einkaþjálfun og hef síðan þá verið á fullu í þessu og sótt mér meiri menntun í þjálfuninni. Ég er með próf frá American Council on Exercise í einkaþjálfun og endurhæfingarþjálfun en lauk fyrst einkaþjálfaraprófi frá Life Fitness sem var í raun og veru undanfari þess sem í dag er einkaþjálfaraskóli World Class. Svo hef ég lokið ótal öðrum námskeiðum. Stefnan er síðan sett á að læra osteopatann í Svíþjóð ef COVID leyfir.“

Svefninn ákveðin grunnstoð

Spurður hvort hann leggi áherslu á eitthvað sérstakt í starfi sínu sem þjálfari segir Björn að allir þættir séu mikilvægir, hvort sem það er hreyfing, mataræði, mikilvægi svefns eða blóðsykurstjórnun. „Eftir því sem maður er lengur í þessu sér maður meira mikilvægi í öllum þessum þáttum og hvernig þeir tvinnast saman sem heild. Ég tel svefninn vera ákveðna grunnstoð hjá okkur. Of lítill svefn og slæmar svefnvenjur hafa bein neikvæð áhrif á hreyfingu, blóðsykurstjórn og þar með næringu, það er engu logið um það. Allir þessir þættir hafa áhrif hver á annan og myndlíkingin hvað þetta varðar er sú að keðjan er aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn. Ég legg áherslu á að byggja upp grunnstoðir góðrar heilsu og það er í mörg horn að líta þar.“

Björn Þór Sigurbjörnsson/Mynd: Stefanía Elín Linnet

Hann segir það geta verið erfitt fyrir fólk að horfast í augu við hluti sem það hafi verið í afneitun með en það sé hollt að byrja að brjóta niður múrinn sem það hafi byggt upp í kringum sig. „Það er að segja þessum eltingaleik sem allir þekkja, að missa einhverja tölu á vigtinni en bæta svo þyngdinni aftur á sig og rúmlega það. Það er svekkjandi að þurfa alltaf að byrja aftur á sama stað.“

Björn segir að þótt þyngdartap sé ekki auðvelt sé það í sjálfu sér ekki flókið og það sé heldur ekki vandamálið, heldur sé það síendurtekin þyngdaraukning sem sé meira vandamál. „Heilsan er margþætt og það hvernig við skilgreinum ávinning og góða heilsu er rosalega persónubundið. Það er alls ekki bundið við töluna á vigtinnni og ég beini fólki frá því að nota hana sem eina mælikvarðann á árangur. Ég beini athygli fólks í auknum mæli að viðhorfi þess gagnvart þeim hlutum sem það er að byggja upp og að missa ekki sjónar af því, að minnsta kosti ekki lengi. Við þurfum stundum að minna okkur á og spyrja okkur í sífellu af hverju og hvers vegna til að minna okkur á og viðhalda viðhorfi okkar réttum megin við línuna. Allir hafa afrekað einhverja stóra sigra á sinni ævi og ég hvet fólk til að sjá þá fyrir sér og heimfæra það viðhorf til sjálfs sín þegar kemur að því að fara í þetta ferðalag.“

Í kjólinn fyrir jólin-heilkennið sem betur fer á undanhaldi

Á hverju hausti hafa dunið á okkur auglýsingar um átaksnámskið og konur hvattar til að komast í kjólinn fyrir jólin. Finnst þér þú sjá breytingar í þeim efnum og fólk farið að sinna heilsunni meira allt árið um kring?

„Sem betur fer hefur verið þróun í þessu eins og öðru og hún er hröð. Í kjólinn fyrir jólin-heilkennið, eins og ég kalla það, er sem betur fer á undanhaldi,“ segir Björn og brosir, „en vissulega heyrir maður þetta af og til. Ég er lítið hrifinn af svona fögrum fyrirheitum. Heilsa, útlit og líkamsástand fólks er mjög viðkvæmt málefni og í ljósi þess að heilsufar Vesturlandabúa fer versnandi, þar sem til dæmis offita er orðin meira vandamál, þarf að fara varlega í þessar auglýsingar og fögru fyrirheit um árangur. Mín skilaboð eru einfaldlega þau að við sem erum að leiðbeina fólki um bætt líkamsástand þurfum að átta okkur á því að þar liggur mikil ábyrgð og áherslurnar eru mismunandi en þær verða að vera í samræmi við raunveruleg heilsufarsleg sjónarmið.“

„Mín skilaboð eru einfaldlega þau að við sem erum að leiðbeina fólki um bætt líkamsástand þurfum að átta okkur á því að þar liggur mikil ábyrgð og áherslurnar eru mismunandi en þær verða að vera í samræmi við raunveruleg heilsufarsleg sjónarmið.“

Hann segir ekki sömu sveiflur vera í námskeiðum líkamsræktarstöðvanna eins og var hér áður fyrr. „Það er meira jafnvægi þótt það komi toppar. Ég hef tekið eftir því að fólk er almennt orðið meðvitaðra allt árið um kring í ljósi aukinnar umræðu og fræðslu um mikilvægi hreyfingar og hollara mataræði, áhrif svefns og þar fram eftir götunum.“
Björn segir alltaf einhverjar spennandi nýjungar vera að koma fram í heilsuræktinni. „Nýjungarnar byggja allar á sama sömu grunnforsendunum en það eru ýmsar útfærslur þjálfunar með hárri ákefð. Þjálfun á netinu er alltaf að verða vinsælli. Svo má nefna nýjungar í hópaþjálfun, animal flow-hreyfiflæðisþjálfun með líkamsþyngd er áhugavert og æfingar sem stuðla að breyttri líkamsstöðu eru að sækja í sig veðrið. Áherslur eru að verða þannig að hreyfing/þjálfun er alltaf að verða heildrænni, sem ég fagna,“ segir Björn.

Mýta að fólk þurfi að æfa í lágmark klukkutíma

Björn segir að allur tími sem náist í hreyfingu telji og það séu gæðin en ekki magnið sem skipti máli. „Ég ráðlegg fólki að forgangsraða til að geta gefið sér tíma í það sem er mikilvægt. Þú hefur 168 klukkutíma í einni viku. Segjum að þú vinnir þar af í fimmtíu klukkustundir og sofir í aðrar fimmtíu. Svo ferðu í búðir, eldar mat, borðar, ferð á milli staða, sinnir fjölskyldu, börnum og félagslífi sem við skulum gera ráð fyrir að taki sextíu klukkutíma. Þá áttu eftir átján klukkustundir sem þú getur skilgreint sem frítíma. Hvernig þú svo ráðstafar honum er undir þér sjálfri/sjálfum komið. Mér finnst líka að við ættum að draga úr svokölluðum dauðum tíma, þ.e.a.s. tíma sem fer í til dæmis samfélagsmiðlanotkun sem skilur lítið eftir sig.“

Hann segir það mýtu að fólk þurfi að æfa í lágmark klukkutíma á dag til að ná árangri. „Ef þú nærð tveimur til þremur klukkutímum á viku í æfingar mun það gera heilmikið. Ég hef rætt það við aðila sem reka fyrirtæki að gefa starfsfólki í kyrrsetustörfum tvær klukkustundir á viku til heilsueflingar á vinnutíma en hjá nokkrum einkareknum ríkisfyrirtækjum er það þannig, veit ég, að starfsfólki gefst kostur á að sækja líkamsrækt tvisvar til þrisvar í viku á vinnutíma. Það er ekki lítið sem það bætir starfsandann og þetta er það sem mér finnst þurfa að koma meira inn í fyrirtækin en þetta strandar einhvers staðar. Niðurstöður stórrar rannsóknar sem gerð var á Ítalíu á sextán þúsund þátttakendum sýndu að kyrrsetufólk sem hafði kost á að hreyfa sig á vinnutíma sýndi meiri framleiðni, starfsandi var betri og það dró úr fjarveru þess í vinnu. Ég held, og bind vonir við, að við sjáum þetta í auknum mæli hér á landi hjá einkareknum fyrirtækjum á komandi árum. Það er fólkið sem vinnur og heldur heimili sem langar mest af öllu að hafa tíma til að sinna heilsunni en mun ekki ná því fyrr en sólarhringurinn lengist, sem gerist því miður ekki,“ segir Björn og skellir upp úr.

Mikilvægast að bíða ekki lengur

Björn segir það stórt skref fyrir marga að byrja eftir langt hlé en hvetur þá til að hafa trú á sjálfum sér. „Finndu þér ferli og æfingaaðferðir sem henta þér og þínum áhuga. Gerðu samning við sjálfa/n þig um að gefast ekki upp. Þú mætir eflaust hindrunum á leiðinni en þær eru til þess að sigrast á og þú styrkist við að yfirstíga þær. Það er oft stórt skref að ganga inn um dyrnar á líkamsræktarstöð og hafa ekki fyrirfram ákveðin verkfæri í höndunum. Það er eins og að byrja á nýjum vinnustað án þess að vita hvar maður eigi að byrja eða gera sem skapar óöryggi og kvíða. Það veldur því að við gefumst upp. Leitaðu ráða og fáðu leiðsögn. Mikilvægast er að bíða ekki lengur heldur einfaldlega byrja.“

Hann segir allt eða ekkert-hugarfarið stórhættulegt, þar sem fólk ætli sér stóra hluti strax frá byrjun og taka mataræðið og hreyfinguna föstum tökum af mikill ákefð. „Það er eiginlega dæmt til að springa í andlitið á okkur með þeim afleiðingum að við hættum,“ segir Björn og þagnar um stund. „Ef þú hefur getu og tíma til þess að mæta sex sinnum í viku í ræktina þá er það auðvitað í lagi og frábært,“ heldur hann áfram, „en um leið og það fer að verða pressa og valda streitu þá verður ánægjan minni og maður gefst upp. Það er líka gott að spyrja sig þegar maður byrjar á sinni vegferð í heilsurækt hvort maður sjái fyrir sér að ná að framfylgja þessari uppsetningu næstu þrjá mánuði, sex mánuði, næsta árið eða lengur? Ef svarið er nei, þá er þetta mjög sennilega tifandi tímasprengja og ég er búinn að sjá það svo oft að það er hræðilegt. Það er langbest að halda jafnvægi. Sama á við um mataræðið. Það verður líka að vera jafnvægi í því. Mér finnst varhugavert að missa mikla þyngd á skömmum tíma, eins og gerist gjarnan þegar fólk fer á ketó eða low carb-mataræði, því fólk lendir mjög oft í svokölluðum jójó-áhrifum. Það er að segja, það missir fjölmörg kíló á stuttum tíma en bætir þeim á sig aftur og þannig getur það gengið aftur og aftur. Eftir því sem fólk gengur í gegnum fleiri svona jójó-tímabil því erfiðari verða hlutirnir oft viðfangs.“

Ættu að hugsa sinn gang

Björn segir afleiðingarnar af þessum jójó-áhrifum alltaf vera að koma betur og betur í ljós. „Til dæmis með versnandi blóðsykurstjórn, meiri vandamálum í liðum og stoðkerfi auk almennt verri hæfni líkamans til að brenna fitu en áður. Ég tel það ekki vænlegt til langframa að telja macros og vigta ofan í sig mat og taka út heilan orkuefnaflokk. Ég vil taka það fram að þegar fólk heyrir orðið kolvetni þá segja sumir að þeir byrji að fitna en kolvetni eru sykrur og sykrur eru mismunandi og ekki allar slæmar. Sumt fólk sem er að ráðleggja öðrum með heilsu sem segir að ávextir eins og bananar séu ekki fyrir okkur ættu að hugsa sinn gang alvarlega,“ segir hann og glottir.

„Ef þú nærð tveimur til þremur klukkutímum á viku í æfingar mun það gera heilmikið.“

„Ég myndi segja að góður svefn væri lykilatriði í að ná tökum á heilsunni. Ef við náum að halda góðum svefnvenjum skapar það jafnvægi í taugakerfinu okkar og þá eru meiri líkur á að okkur farnist vel með reglubundna hreyfingu, blóðsykurstjórn verður betri og þar af leiðandi mataræðið. Lífsstílsþættir eins og streita verða ekki eins fyrirferðamiklir og hlutirnir fara almennt að ganga betur fyrir sig án þess að við þurfum að hafa eins mikið fyrir þeim og við höldum. Líkaminn sér um að vinna vinnuna fyrir okkur að miklu leyti. Því betra hráefni sem við skilum honum í formi næringar og með hreyfingu launar hann okkur rækilega fyrir það og lífsgæði verða almennt betri og um leið andleg vellíðan,“ segir Björn og brosir.

Hvort er betra: Brennsla eða styrktarþjálfun?

„Það er misjafnt. Þolþjálfun er nauðsynleg fyrir hjarta, æðakerfi og lungu. Meira úthald og þol stjórnast af inntöku súrefnis eða getu lungna til að taka inn súrefni og hefur áhrif á blóðsykurstjórn. Styrktarþjálfun er nauðsynleg til að viðhalda sterkum beinum, vöðvum, heilbrigðum liðum og til þess að stuðla að hraðari efnaskiptum, þ.e. brennslu. Styrktarþjálfun er orðin þekkt sem besta forvörn gegn hnignun líkamans á efri árum, þegar bein og vöðvar slappast. Samspil styrktar- og þolþjálfunar, brennslu, er ótvírætt. Sumir hafa verið gjarnir á að einblína of mikið á brennslu en ég vara fólk við því og ráðlegg fólki að lyfta meira því það er betur til þess fallið að grennast en það að flytja lögheimilið á brennslutækin.“

Hvað myndir þú segja að væri mikilvægast að hafa í huga fyrir þá sem eru að byrja og vilja koma sér af stað í átt að heilbrigðum lífsstíl?

„Að byrja ekki of geyst. Temdu þér smávegis þolinmæði, þetta þarf ekki að yfirtaka líf þitt og og á ekki að gera það. Besta ráðið er jafnvægi og samræmi í hlutunum og þar er sígandi lukka best. Það mun taka þig alla ævi að viðhalda heilbrigði og góðri heilsu. Búðu þig undir að byggja upp þann góða farveg.“

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -