2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Mín bernskujól

  Á æskuheimili mínu voru tuskur, kústar og skolpfötur dregnar fram upp úr miðjum október og hafist handa við að skúra, skrúbba og bóna allt hátt og lágt. Mamma dró allt út úr skápum, skúffum, kistum og kirnum, flokkaði, þvoði og henti.
  Nóvember var svo bakstursmánuður og þótt stundum væri stressið mikið var allt þess virði þegar helgi færðist yfir klukkan sex á aðfangadagskvöld.

  Við systurnar vorum yfirleitt fljótar að láta okkur hverfa þegar tuskurnar fóru á loft. Það var ekki einleikið hvað sumar okkar voru stálheppnar að veikjast ævinlega um þetta leyti, togna eða á annan hátt heltast úr lestinni. Hinar sem uppi stóðu voru neyddar til að hjálpa til. Þótt ég sé löngu hætt að þrífa á sama hátt og mamma gerði fyrir jólin verð ég að viðurkenna að aðferð hennar hafði fjölmarga kosti. Til að mynda varð allt skínandi hreint og hvergi hætta á að leyndist skúm eða skítur. Sömuleiðis var innihald allra geymslustaða tekið til endurskoðunar og þess vegna söfnuðust ekki upp föt sem enginn notaði eða ónýtir húsmunir engum til gagns. Þegar ég opna mína skápa flýti ég mér yfirleitt að loka þeim aftur og hugsa með mér: tek þetta í gegn á morgun.

  Sá „morgun“ er enn ekki runninn upp, enda tiltók ég svo sem ekki árið. Þegar stórhreingerningardótið fékk aftur hvíldina tók baksturinn við. Þá var nú gósentíð og gleði mikil. Engin okkar systra fékk einu sinni sting í tána meðan hún stóð yfir. Það mátti nefnilega borða brotnar kökur, ljótar og afskurðinn af vínartertunni og niðurskornu brúntertunni. Enn lifir í minningunni dásamlegt bragðið af kökubrotunum og fátt síðan jafnast á við það. Mamma bakaði alltaf fimm ákveðnar sortir af smákökum og tvær í viðbót sem voru breytilegar frá ári til árs. Gyðingakökur, bóndakökur, súkkulaðibitakökur, hálfmánar og spesíur voru alltaf á borðum um jólin en auk þeirra bakaði hún stundum snigla, Bessastaðakökur, blúndukökur, loftkökur og kókoskökur.

  Kökuþjófurinn mikli

  Auðvitað mátti ekki snerta á kökunum fyrr en um jólin eftir að þeim fullkomnu hafði verið komið fyrir ofan í baukum. Yfirleitt virtum við það en eitt árið féll ég fyrir freistingunni. Þannig háttaði til að mamma geymdi kökurnar úti á svölum, beint undir svefnherbergisglugganum mínum og svo hátt stóðu staflarnir af kökubaukum að ég þurfti bara að teygja mig út um gluggann til að geta opnað þá efstu og nælt mér í nokkrar. Ég lá venjulega í bókum öll kvöld og það var ofboðslega notalegt að maula smákökur með Ævintýrabókunum og Beverly Grey. Kvöld nokkurt komst yngri systir
  mín að því hvað ég aðhafðist en það nægði að múta henni með fáeinum kökum. Hins vegar vildi svo illa til að mamma kom inn í herbergið einmitt í þann mund sem við vorum að troða þeim síðustu upp í okkur.

  AUGLÝSING


  Uppi varð fótu og fit og ég fékk fjöldann allan af vel völdum orðum í eyra. Mamma fór og kíkti í baukana og í ljós kom að mjög hafði gengið á þrjár efstu sortirnar. Ég sárskammaðist mín þegar mamma tók til við að baka aftur daginn eftir til að fylla á hálftóma baukana. Sagan barst fljótt út í stórfjölskyldunni og mun lengur hlegið að
  henni en mér þótti tilefni til. Þegar ég var fimmtán ára og mætti í fermingarveislu frænda míns var ég kynnt fyrir skyldmenni sem ég hafði ekki lengi séð. „Já, er þetta kökuþjófurinn?“ Spurði sá mér til gríðarlegs ama. Ég tek það fram að fjögur ár voru frá glæpnum og margur hlotið uppreist æru fyrr og fyrir meiri sakir.

  Í æsku minni var aldrei skreytt fyrr en nokkrum dögum fyrir jól og jólatréð aldrei fyrr en á Þorláksmessukvöld. Þá var jólaísinn líka þeyttur. Oft var mamma ein vakandi fram eftir nóttu að klára síðustu strokurnar úr gluggunum, undirbúa steikina og hreinsa grenið af jólatrésmottunni. Ég man að iðulega var ég skíthrædd um að í ár næðist þetta ekki, eitthvað yrði eftir og jólin færu í vaskinn en til allrar lukku gerðist það aldrei. Þegar ég vaknaði á aðfangadagsmorgun var íbúðin ævinlega óaðfinnanleg, allt skreytt frá gólfi upp í rjáfur og allar kirnur fullar af mat. Við systur gengum um spenntar og fannst klukkutímarnir ótrúlega lengi að líða. Um hádegi var farið í kirkjugarðinn og pakkarnir keyrðir út til fjölskyldu og vina. Eftir það urðum við að hafa ofan af fyrir okkur sjálfum og þegar sjónvarpið kom munaði sannarlega um það.

  Klukkan sex var svo kveikt á útvarpinu og klukkurnar hringdu jólin inn. Þá var eins og allt dytti í dúnalogn, stundin var komin, maturinn á leið á borðið, allur undirbúningurinn var þess virði og jólin gengu í garð.

  Jólin hafa alltaf verið mikill uppáhaldstími hjá mér og fyrstu búskaparárin reyndi ég að hafa allt eins og hjá mömmu. Þegar ég hins vegar heyrði börnin mín tala saman án þess að mér væri ætlað að heyra breytti ég töluvert um gír. Sonur minn spurði dóttur mína hvar ég væri og hún svaraði: „Hún er að þrífa skápana. Jólaæðið er byrjað.“ Í röddinni var engin hrifning og síðan hefur mjög dregið úr krafti jólaundirbúningsins en engu að síður er þvegið, skreytt og bakað og jólin koma klukkan sex á aðfangadag rétt eins og heima hjá mömmu.

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is