Mögnuð ævintýraeyja, innblásin af Íslandi

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Litlu litríku verurnar í Tulipop eru velþekktar hér á landi. Þær eru hugverk tveggja kvenna sem kynntust í menntaskóla, hurfu hvor í sína áttina en hittust síðan aftur gagngert til að skapa þennan undraheim, myndi manneskja sem væri forlagatrúar segja. Þær Signý Kolbeinsdóttir og Helga Árnadóttir eru núna á fullu að undirbúa útgáfu á bókum og gerð teiknimynda um Tulipop.

 

En hver er saga Tulipop-vörumerkisins? „Tulipop vörumerkið varð til árið 2010 þegar ég og Helga Árnadóttir ákváðum að leiða saman krafta okkar,“ segir Signý.

„Við Helga kynntust í Menntaskólanum í Reykjavík, en héldum síðan hvor í sína áttina – ég lauk námi í vöruhönnun og starfaði síðan sem teiknari, bæði sjálfstætt og hjá auglýsingastofum, á meðan Helga lærði tölvunarfræði við Háskóla Íslands, starfaði sem markaðsstjóri í hugbúnaðarbransanum og lauk síðan MBA-námi í London.

Við stofnuðum Tulipop með það að markmiði að búa til íslenskan ævintýraheim sem gæti náð til barna á öllum aldri út um allan heim. Hjartað í fyrirtækinu er Tulipop-heimurinn sem ég hef skapað, en Tulipop er mögnuð ævintýraeyja, innblásin af Íslandi, þar sem búa heillandi og óvenjulegar persónur, Túlípoppararnir. Persónurnar í Tulipop-heiminum eru afar fjölbreyttar, en þær eru flestar byggðar á vinum mínum og fjölskyldu. Í Tulipop er enginn fullkominn, allir hafa sína galla en allir eru góðir inn við beinið – svona eins og fólk er flest.“

„Við stofnuðum Tulipop með það að markmiði að búa til íslenskan ævintýraheim sem gæti náð til barna á öllum aldri út um allan heim. Hjartað í fyrirtækinu er Tulipop-heimurinn sem ég hef skapað.“

Íslensk börn alast upp með Tulipop

Samfélagið á eyjunni óx og dafnaði hratt. „Við Helga ákváðum að byrja á því að setja á markað fallegar gjafavörur skreyttar persónum úr Tulipop-heiminum,“ segir Signý. „Við settum okkar fyrstu vörulínu á markað þremur mánuðum eftir stofnun. Til dagsins í dag hafa yfir 300 Tulipop-vörur litið dagsins ljós, allt frá skólavörum og matarstellum til lampa og fatnaðar. Þessar vörur hafa frá upphafi notið mikilla vinsælda á Íslandi þar sem þær hafa verið seldar í fallegum verslunum um land allt, auk þess að vera nú einnig fáanlegar í Tulipop-versluninni á Skólavörðustíg og í vefverslun Tulipop.

Það er afar dýrmætt hversu vel vörumerkinu hefur verið tekið á Íslandi. Fyrsta spurningin sem við fáum oft utan landssteinanna er hvort Tulipop sé vinsælt á Íslandi og það er afsakaplega gaman að geta svarað þeirri spurningu játandi. Einnig er ótrúlega gaman að hafa séð íslenska krakka vaxa úr grasi sem hafa alist upp með Tulipop-persónunum – hafa fengið matarstell í skírnargjöf og byrja svo í skóla með Tulipop-skólatösku á bakinu.

Mynd / Aðsend

En Tulipop hefur ekki einungis framleitt gjafavörur heldur hefur mikill vinna verið lögð í að þróa Tulipop-heiminn og persónurnar með það að markmiði að búa til áhugaverðar sögur sem innihalda jákvæð skilaboð. Stórt skref var stigið árið 2012 þegar Margrét Örnólfsdóttir, verðlaunaður barnabókahöfundur, skrifaði bókina Mánasöngvarann í góðu samstarfi við mig. Sú bók fékk góðar viðtökur en kom einungis út á íslensku og hefur okkur síðan dreymt um að setja á markað bók sem myndi henta til alþjóðlegrar útgáfu.

Fyrir tveimur árum hóf Tulipop svo þróun á Tulipop-teiknimyndum og framleiddi tvær teiknimyndaseríur af stuttum þáttum með dreifingu á Netinu að meginmarkmiði, en Tulipop-teiknimyndir er hægt að sjá á YouTube-rásum Tulipop á íslensku, ensku, spænsku og þýsku, auk þess sem RÚV hefur haft þær til sýningar. „Nú erum við með í undirbúningi framleiðslu á lengri teiknimyndum sem verða í hærri gæðaflokki þar sem meginmarkmiðið er að selja þær til sýninga í sjónvarpi um allan heim. Þetta verða lengri þættir og við höfum fengið til liðs við okkur einvalalið handritshöfunda og hlökkum til að sjá afraksturinn líta dagsins ljós á næsta ári,“ segir Signý.

Vöruframleiðsla samhliða þróun söguheimsins

Það er svolítið óvenjulegt að fyrst komi vörurnar síðan sögur og teiknimyndir. Hver er ástæðan fyrir því? „Já, það er vissulega svolítið óvenjulegt en alls ekki án fordæma. Sem dæmi má nefna að ástsæla persónan Hello Kitty birtist heiminum fyrst á lítilli peningabuddu árið 1974 og náði síðan vinsældum fyrst og fremst í gegnum sölu á varningi. Í okkar tilfelli byrjuðum við á vöruframleiðslu af praktískum ástæðum, en þegar við stofnuðum fyrirtækið lögðum við í það allan okkar tíma og krafta en höfðum lítið fjármagn til umráða og þurftum að finna leiðir til að koma stoðum undir reksturinn og byrja að búa til tekjur. Við byrjuðum því að framleiða fallegar vörur en samhliða því að þróa persónurnar og söguheiminn því það er okkur afskaplega mikilvægt að vanda þar til verka – að búa til sögur sem bæði börn og fullorðnir hafa gaman að og munu standast tímans tönn. Okkar draumur er sá að Tulipop verði klassískt vörumerki sem fólk mun kynnast og tengjast á fjölbreyttan hátt, hvort sem það er í gegnum teiknimyndir, bækur, vörur, tölvuleiki eða hvaðeina,“ segir Signý.

Litlu litríku verurnar í Tulipop eru velþekktar hér á landi.

Þið voruð nýverið í átaki til að fjármagna útgáfu fyrstu bókarinnar um Tulipop-verurnar, hvernig gekk? „Það gekk vonum framar og það er ótrúlega gaman að sjá hversu margir hafa stutt við útgáfuna nú þegar og tryggt sér eintak af bókinni! Við ákváðum að fara þá leið að vera með hópfjármögnunarherferð til þess að gefa Tulipop-aðdáendum út um allan heim kost á að taka þátt í að gera bókina að veruleika. Við höfum verið spurð að því í mörg ár hvenær von sé á Tulipop-bók á ensku og það er virkilega gaman að nú sé loks komið að því.“

Hver er höfundur bókanna? „Höfundur bókarinnar, bæði texta og myndskreytinga, er ég en ég er jafnframt yfirhönnuður Tulipop. Bókin heitir „Sögur frá Tulipop: Leyniskógurinn“ og er hugmyndin að þetta sé fyrsta bókin í bókaröð og við stefnum að því að gefa út næstu bók áður en langt um líður,“ segir Signý.

Hver verða svo næstu skref? „Fyrsta skrefið verður að klára prentun á bókinni, senda út bækur og gjafir til allra þeirra sem hafa tekið þátt í hópfjármögnuninni á Kickstarter-síðunni og halda gott útgáfuhóf. Svo erum við með fjölmörg önnur spennandi verkefni í vinnslu eins og nýju teiknimyndaseríuna okkar og frekari bókaútgáfu þannig að það er nóg um að vera,“ segir hún að lokum en frekari upplýsingar og fréttir má finna á facebook.com/tulipop.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Nína ekki ólétt

Nína Richter ljósmyndari og rithöfundur og fyrrum kvikmyndagagnrýnandi á RÚV leiðréttir fjölda hamingjuóska í færslu sinni á...