2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Morð eina leiðin út úr gíslingunni

  Sjónvarpsþættirnir The Act, sem sýndir eru á Hulu, segja óhugnanlega og sanna sögu Gypsy Rose Blanchard sem fæddist alheilbrigð en var talin trú um það fram eftir aldri af móður sinni að hún væri fárveik, lömuð og andlega misþroska. Þegar sannleikurinn fór að koma í ljós endaði það með morði.

   

  Síðla kvölds í júní árið 2015 var lögreglan kvödd að heimili mæðgnanna Dee Dee Blanchard og dóttur hennar Gypsy Rose að frumkvæði nágrannanna. Þeir óttuðust að líf mæðgnanna væri í hættu eftir að einhver hafði skrifað á Facebook-síðu Dee Dee að tíkin væri dauð. Í kjölfarið kom önnur stöðuuppfærsla sem vakti mikinn óhug og þar sem Dee Dee hvorki svaraði í síma né kom til dyra þótt bíllinn hennar væri í innkeyrslunni var lögreglan kölluð til.

  Þegar lögreglumennirnir fóru inn í húsið fundu þeir Dee Dee sem hafði verið myrt. Gypsy Rose var hvergi að finna í húsinu og óttuðust nágrannar og lögreglan að henni hefði verið rænt en hún fannst heil á húfi næsta dag. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að Gypsy Rose hafði skipulagt morðið ásamt kærasta sínum.

  Skjáskot af stöðuuppfærslunni á Facebook-síðu mæðgnanna sem varð til þess að nágrannar hringdu í lögregluna.

  AUGLÝSING


  Eitt stórt leikrit

  Morðið á Dee Dee Blanchard vakti heimsathygli, enda hafði hún ávallt komið fyrir sjónir sem fórnfús móðir sem myndi vaða eld og brennistein fyrir dóttur sína. Dótturina sem var bundin hjólastól, með margs konar alvarlega sjúkdóma og kvilla og andlegan þroska á við sjö ára gamalt barn. En ekki var allt sem sýndist.

  Gypsy Rose fæddist heilbrigð en þegar hún var um þriggja mánaða fór móðir hennar að tala um að eitthvað væri að barninu og þar með var leikritið hafið. Þegar Gypsy Rose var sjö ára lenti hún í umferðarslysi og slasaðist á hné. Upp frá því sagði Dee Dee læknana hafa sagt að hún væri lömuð fyrir neðan mitti og yrði að vera í hjólastól það sem eftir væri. Þar að auki taldi hún öllum trú um að Gypsy Rose væri með hina ýmsu sjúkdóma og heilsufarskvilla.

  Sjúkrasaga Gypsy Rose var löng og samkvæmt læknaskýrslum fór Dee Dee með hana á spítala oftar en 100 sinnum á árunum 2005 til 2014. Meðal annars átti hún að vera flogaveik, með vöðvarýrnunarsjúkdóm og hvítblæði. Hún sannfærði lækna um að Gypsy Rose gæti ekki nærst nema í gegnum sondu og að það þyrfti að fjarlægja munnvatnskirtla úr henni þar sem hún slefaði svo mikið. Ef einhver læknanna sýndi vantrú eða vildi rannsaka Gypsy Rose betur fór Dee Dee einfaldlega eitthvert annað.

  Gypsy Rose tók ótal mörg lyf við hinum ýmsu kvillum og listinn yfir lyfin spannaði margar blaðsíður. Hún fékk t.d. flogaveikislyf og krabbameinslyf og mörg lyfjanna urðu til þess að framkalla einkenni sem blekktu læknana.

  Mæðgurnar Dee Dee og Gypsy Rose Blanchard.

  Dee Dee taldi líka öllum trú um, þar á meðal Gypsy Rose sjálfri, að dóttirin væri yngri en hún í raun var og með þroska á við lítið barn. Það er í raun ótrúlegt að læknarnir hafi ekki séð í gegnum þetta en hluti ástæðunnar er e.t.v. sá að Dee Dee fyrirskipaði dóttur sinni að þegja og leika sér að Barbie-dúkku eða tuskudýri á meðan hún sæi um að tala við læknana.

  Hún einangraði dóttur sína frá umheiminum eins og frekast hún gat. Gypsy fór hvorki í leikskóla né grunnskóla og hefur sagt frá því í viðtölum að hún hafi ekki mátt eiga neina vini. Þá taldi Dee Dee henni trú um að faðir hennar vildi ekkert með hana hafa og sjálf hafði hún klippt á öll samskipti við fjölskyldu sína. Faðir hennar, Claude Pitre, sagði í viðtali að dóttir hans hefði fengið makleg málagjöld og hann hefði sturtað ösku hennar í klósettið eftir bálför hennar. Dee Dee er grunuð um að hafa átt þátt í dauða móður sinnar með því að svelta hana til dauða en það verður ekki sannað úr þessu.

  Uppgötvar smám saman að hún er ekki ósjálfbjarga

  Þættirnir The Act sýna vel hvers konar blekkingarvefur líf þeirra mæðgna hefur verið og hvílíkt ofbeldi Gypsy Rose mátti þola til margra ára. Í raun má segja að móðir hennar hafi haldið henni í gíslingu. Áhorfendur fylgjast með Gypsy Rose uppgötva það smám saman að hún er ekki ósjálfbjarga, vanþroska barn sem er algerlega upp á móður sína komið. Hún stelst fram úr um nætur og skráir sig á stefnumótasíðu þar sem hún kynnist Nicholas Godejohn, ungum manni sem hefur líka sína djöfla að draga. Í sameiningu ákveða þau að ryðja Dee Dee úr vegi því þau vita að hún mun aldrei gefa þeim samþykki sitt og Gypsy Rose sér ekki aðra leið út úr aðstæðum sínum en að koma móður sinni fyrir kattarnef.

  Þegar þetta er skrifað eru fimm þættir komnir inn á Hulu. Og jafnvel þótt maður viti hver endalokin verða og það sé auðvelt að spyrja google hver hafi myrt Dee Dee Blanchard, er erfitt að bíða eftir framhaldi í næsta þætti. Þættirnir halda manni límdum við skjáinn, eins óhugnanlegir og þeir eru. Leikararnir standa sig frábærlega og Joey King, sem leikur Gypsy Rose, er stórkostleg í hlutverki sínu. Horfi maður á viðtöl við raunverulegu Gypsy sést vel hvað leikkonan líkist henni í einu og öllu. Sömu sögu má segja um leikkonuna Patricia Arquette sem leikur Dee Dee og kemur hlutverki hinnar ógeðfelldu, sjúku móður vel til skila.

  Það er vissulega ótrúlegt hvernig hægt er að myrða foreldri sitt með köldu blóði en það sem er enn ótrúlegra er hvernig hægt er að beita barn sitt slíku ofbeldi. Gypsy Rose sagði í viðtali við Dr. Phil að hún hefði ekki viljað að móðir sín myndi deyja; hún hefði bara þráð að eignast venjulegt líf. Að þessum blekkingarleik myndi ljúka.

  En hvers vegna greip hún ekki tækifærið til að flýja þegar það gafst? Það er óneitanlega hugsun sem skýtur upp í kollinum þegar horft er á The Act en Dee Dee beitti dóttur sína miklu ofbeldi, bæði líkamlegu og andlegu og Gypsy Rose óttaðist hana og afleiðingarnar ef flóttinn myndi misheppnast.

  Auk þess hefur hún sagt í viðtölum að hún hafi ekki getað skilið móður sína eftir eina; hún hefði ekki átt neinn annan að og þá hefði verið betra fyrir hana að deyja en að missa dóttur sína. Móðurástin er vissulega sterkt afl en það getur meðvirknin verið líka.

  Münchausen-heilkenni staðgengill móðurástar

  Hvað gekk Dee Dee Blanchard til með því að gera dóttur sína að ósjálfbjarga sjúklingi? Ef til vill gerði hún það vegna athyglinnar, meðaumkunarinnar og peningastyrkjanna. Sérfræðingar segja að líklegt megi telja að Dee Dee hafi verið með svokallað Münchausen-heilkenni staðgengils (Munchausen Syndrome By Proxy, MSBP).

  Það lýsir sér þannig að foreldrar eða forráðamenn gera börnum sínum upp veikindi eða framkalla jafnvel veikindi hjá þeim til að geta leikið hlutverk umönnunaraðila alvarlega veiks sjúklings til að fá athygli, samúð og aðdáun.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is