2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Mun halda minningu hennar á lofti alla tíð“

  Kristbjörg Jónasdóttir flutti með manni sínum frá Cardiff í Bretlandi til Katar á síðasta ári. Vart er hægt að hugsa sér ólíkari lönd en Ísland og Katar engu að síður una þau sér vel þar og Kristbjörg hefur fengið útrás fyrir sköpunargáfuna í vinnu við gerð nýrrar húðvörulínu AK Pure Skin. Hún segir Vikunni frá lífi athafnakonu og eiginkonu fótboltamanns.

   

  Finnst þér þú einangruð þarna? „Já, mér finnst ég einangraðri þarna en annars staðar. Sérstaklega vegna þess að leikmenn mæta í vinnuna og eru þar í kringum annað fólk en ég er heima við allan daginn. Skrepp kannski í mollið og kaupi í matinn en fátt annað er á dagskránni. Að undanförnu hef ég þó haft nóg við að vera í kringum það sem ég hef verið að gera núna. En ég er sannarlega félagslega meira ein en ég hef verið áður. Ég er hins vegar svo lánsöm að hafa Írisi hans Heimis. Við náum rosalega vel saman og hún býr í sama íbúðahverfi og það er stutt á milli. Ég leita mikið til hennar.“

  Ýtarlegt og áhugavert viðtal við Kristbjörgu er í nýjustu Vikunni.

  Hélt alltaf í vonina

  AUGLÝSING


  Fjarlægðin frá Íslandi og lífinu hér er stundum erfið. Ein af bestu vinkonum Kristbjargar, Fanney Eiríksdóttir, lést á síðasta ári eftir tæplega árs baráttu við krabbamein. Það hlýtur að hafa tekið á.

  „Þess vegna var þetta gríðarlegt áfall þegar ég kom til Íslands í maí og hitti hana.“

  „Ég hef auðvitað verið búsett erlendis lengi en ég hitti hana í nóvember og desember 2018 og svo ekki fyrr en í maí 2019. Ég vissi þess vegna aldrei hversu alvarleg veikindi hennar voru. Það komu á tímabili góðar fréttir og við vorum öll í skýjunum þess vegna. Hún vildi sjálf sem minnst vita um veikindi sín. Hún vildi ekki setja sig fyllilega inn í þetta. Að tala við hana var ekki eins og að tala við sjúkling með krabbamein. Hún vildi aldrei vorkunn frá neinum og bar sig ævinlega mjög vel. Fjarlægðin á milli okkar gerði það að verkum að ég sá ekki hversu veik hún virkilega var, að berjast við krabbamein á fjórða stigi. Þess vegna var þetta gríðarlegt áfall þegar ég kom til Íslands í maí og hitti hana. Ég hafði aldrei leyft mér að leiða hugann að því að þetta gæti gerst á svona stuttum tíma. Hún hélt alltaf í vonina og ég líka,“ segir Kristbjörg.

  Kristbjörg og Fanney á brúðkaupsdegi Kristbjargar.

  „Kvöldið sem Fanney kvaddi þennan heim á mér alltaf eftir að vera minnistætt þar sem á sama tíma og hún kvaddi var ég á leiðinni heim til mín og tók skyndilega eftir því hversu fallegur himinninn var, rauðappelsínugulur og einhver gríðarleg orka í loftinu. Ég smellti einmitt mynd af honum. Morguninn eftir fékk ég svo símhringingu frá Rósu, mömmu hennar Fanneyjar, sem sagði mér að Fanney væri dáin. Það var ótrúlega sárt að kveðja hana og ég held að enn þann dag í dag sé ég alls ekki búin að átta mig á þessu og sorgarferlið mun taka langan tíma.

  „Morguninn eftir fékk ég svo símhringingu frá Rósu, mömmu hennar Fanneyjar, sem sagði mér að Fanney væri dáin.“

  Margar tilfinningar brjótast um inni í mér þar sem ég finn fyrir reiði og sorg og ég skil ekki af hverju lífið er svona ósanngjarnt gagnvart ungu fólki í blóma lífsins. Ég er alveg í rusli yfir því að hún sé farin og það er ekkert sem ég get gert til að fá hana til baka. En ég er glöð yfir að tæknin gerir okkur kleift að varðveita minningar og ég mun sko halda hennar minningu á lofti alla tíð með fallegum ljósmyndum og myndböndum.“

  Ýtarlegt og áhugavert viðtal við Kristbjörgu er í nýjustu Vikunni.
  Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is