Myndir sem snerta áhorfandann alveg inn að dýpstu hjartans rótum

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Kvikmyndir sem töfrar hvíla yfir.

Ævintýramyndir eru frábær skemmtun en yfir sumum þeirra hvíla einstakir töfrar. Sagan er á einhvern hátt sérstæð og nær að snerta áhorfandann alveg inn að dýpstu hjartans rótum. Slíkar myndir eru tímalausar og á við hressandi gleðiinnspýtingu að horfa á þær.

Þetta fagra og frábæra
This Beautiful Fantastic (sjá mynd hér að ofan) er dásamleg saga vináttu og ástar og hvernig hún vex þegar menn rækta garðinn sinn. Bella Brown vinnur á bókasafni og lætur sig dreyma um að skrifa barnabækur. Hún leigir indæla íbúð en í leigusamningnum er ákvæði þess efnis að henni beri að sinna garðinum vel. Það getur Bella hins vegar ekki því hún haldin ofsahræðslu við grænan gróður. Þegar eftirlitsaðili leigusalans lítur við fær hún mánaðarfrest til að koma hlutunum í lag en á sama tíma ræður hún til sín ungan ekkill sem kokk, kynnist áhugaverðum uppfinningamanni og lendir upp á kant við skapvondan nágranna sinn. Úr þessum flóknu aðstæðum spilast svo sérstæð og bráðskemmtileg saga.

________________________________________________________________

Í Willow fær samnefnd söguhetja það hlutverk að koma barni undan grimmri drottningu.

Hin sterka víðigrein
Hinn dvergvaxni Willow fær það hlutverk í samnefndri mynd að koma barni undan grimmri drottningu. Gamall spádómur er til þess efnis að barn með tiltekinn fæðingarblett eigi eftir að koma einræðisfrúnni frá og þegar lítil stúlka með einmitt þannig blett fæðist leggur hún allt kapp á að koma henni fyrir kattarnef. Ljósmóðirin kemur barninu undan, setur það í körfu og fleytir því niður á. Þar rekst Willow á það og bjargar því. En hann er venjulegur bóndi og hefur enga löngun til að sýna af sér hetjuskap en telur sig samt ekki geta annað en taka að sér að vernda barnið þegar seiðmaður þorpsins fær honum það hlutverk. Hann leggur upp í leiðangur ásamt sjálfboðaliðum til að koma stúlkunni í öruggt skjól.

________________________________________________________________

Í Big Fish fá  áhorfendur að kynnast Edward ungum og taka þátt í ævintýrum hans um leið og hann segir frá.

Stór fiskur
Big Fish er sérstaklega falleg saga af feðgum sem reyna að ná saman og laga samband sitt við banabeð föðurins, Edward Bloom. Sá var ferðasölumaður og hefur alltaf haft einstaklega gaman af að segja sögur. Sonurinn, Will, er jarðbundnari og ótrúlegar frásagnir Edwards fara í taugarnar á honum. Áhorfendur fá að kynnast Edward ungum og taka þátt í ævintýrum hans um leið og hann segir frá. Smátt og smátt nær faðirinn að brjótast í gegnum múrana umhverfis hjarta sonarins og allt fer vel að lokum. Þetta er falleg mynd og gaman að geta þess að leikstjórinn, Tim Burton, hafði nýlega misst báða foreldra sína þegar hann vann að þessari mynd og hún á víst alveg sérstakan stað í hjarta hans.

________________________________________________________________

Í Enchanted er óspart grín gert að hefðbundnum ævintýrum úr smiðju Disney.

Í álögum
Í Enchanted gera forsvarsmenn Disney skemmtilegt grín að eigin framleiðslu um leið og þeir segja sögu hinnar illu drottningar Narissu er ríkir yfir Andalasiu. Hún veit að þegar hinn ungi prins Edward finnur sína einu sönnu ást verður hún að láta af völdum en það er hún alls ekki tilbúin til að gera. Giselle er ung og falleg stúlka sem dreymir um að hitta Edward og lifa með honum hamingjusöm til æviloka. Narissa sér í hendi sér að það megi ekki verða svo hún sendir skósvein sinn til að drepa hana en líkt og í öllum góðum ævintýrum fer margt öðruvísi en ætlað var og auðvitað vel að lokum.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira