2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Næsta dag voru nágrannarnir horfnir og sáust aldrei meir“

  „Má ég segja ykkur hvernig einu barni líður á flótta?“ Þannig hefst pistill Jasminu Crnac sem hún skrifaði á Facebook í tilefni þess að vísa átti tveimur fjölskyldum í leit að hæli úr landi. Fjölskylda Jasminu var hrakin frá heimili sínu í Bosníu-Hersegóvínu þegar Jasmina var ellefu ára og við tóku fjögur ár á flótta í skugga stríðs.

  Jasmina hefur búið á Íslandi síðan 1996 og segist hafa verið svo heppin að hafa ekki komið hingað sem flóttamaður. Hver veit hvar hún væri niðurkomin í dag hefði svo verið. Hún segir að Facebook-pistillinn hafi vakið mikla athygli og hún hafi fengið mikil viðbrögð við skrifunum. Það hafi komið sér á óvart að finna þau og síminn hafi ekki stoppað. En það sé ekki að ósekju sem hún hafi sterkar skoðanir á málefnum hælisleitenda og flóttamanna.

  Jasmina prýðir forsíðu nýjustu Vikunnar sem kemur í verslanir í dag.

  „Lífið hefur ekki farið um mig blíðum höndum og ég hef gengið í gegnum alls konar. Ég hef verið barn á flótta, verið innflytjandi á Íslandi, einstæð móðir með þrjú börn, lent í veikindum og verið óvinnufær vegna þeirra og tekist á við margvísleg verkefni í lífinu. En versta upplifun mín, sem stenst engan samanburð við allt annað, er að vera á flótta. Sá sem er á flótta veit aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér eða hvað kemur næst. Óvissan er gríðarleg.“

  Ellefu ára þegar allt sem hún þekkti hvarf

  AUGLÝSING


  Jasmina fæddist í borginni Prnjavor í Bosníu-Hersegóvínu árið 1981 sem tilheyrði þá Júgóslavíu. Þrjár þjóðir bjuggu í Bosníu; Serbar, Króatar og Bosníu-múslimar.

  Fjölskylda Jasminu tilheyrði þeim síðastnefndu. Bosnía-Hersegóvína lýsti yfir sjálfstæði árið 1992 en Serbar í landinu vildu frekar sameinast Serbíu og neituðu að viðurkenna sjálfstæðið. Borgarastyrjöld braust út þar sem Serbar höfðu stuðning Serbíu og Króatar stuðning Króatíu. Bosníu-múslimar höfðu ekki stuðning nágrannaríkja og máttu sín því lítils þegar Serbar hófu þjóðernishreinsun í þeim tilgangi að sölsa undir sig landsvæði sem lá að Serbíu.

  „Fram að því höfðum við lifað góðu og hefðbundnu lífi,“ segir Jasmina. „Svo einn daginn var kippt undan okkur fótunum. Allt sem ég þekkti hvarf.“

  Heyrði lætin þegar nágrannarnir voru sóttir

  Fjölskylda Jasminu var hrakin frá heimili sínu í Bosníu-Hersegóvínu þegar Jasmina var ellefu ára og við tóku fjögur ár á flótta í skugga stríðs.

  Jasmina segir að andlega ofbeldið hafi verið mikið og Bosníu-múslimar hafi fundið vel fyrir því. Farið var að segja þeim upp í vinnunni og hópuppsagnir voru daglegt brauð. Foreldrar hennar hafi því beðið eftir því að fá uppsögn, því enginn Bosníu-múslimi var óhultur.

  „Fólki var sagt upp í vinnunni og sett í nauðungarvinnu og fékk auðvitað engin laun. Svo kom að því að bola fólki burt úr húsnæðinu sínu. Við vissum alveg að það kæmi að okkur einn daginn því það var búið að hrekja marga nágranna okkar í burtu. Og það kom að því. Ef við hefðum ekki farið hefðum við örugglega verið drepin … Við fluttum til ömmu og bjuggum hjá henni í einu herbergi.

  „Ég heyrði lætin þegar þeir komu að sækja nágrannana og það var hræðilegt að heyra ópin og skarkalann þegar þeir reyndu að komast undan.“

  Ég man að hún setti teppi innan á gluggana til að það sæist ekkert ljós. Hún var svo hrædd um að hermennirnir kæmu að sækja okkur en auðvitað var þetta bara falskt öryggi því hefðu þeir ætlað sér að ná í okkur hefðu þeir ekki látið teppin í glugganum stoppa sig. Ég heyrði lætin þegar þeir komu að sækja nágrannana og það var hræðilegt að heyra ópin og skarkalann þegar þeir reyndu að komast undan. Næsta dag voru nágrannarnir horfnir og sáust ekki meir. Svona gekk þetta dag eftir dag. Maður beið bara og hugsaði hvenær kemur að okkur?“

  Lestu viðtalið við Jasminu í heild sinni í 28. tölublaði Vikunnar sem kemur í verslanir í dag.

  Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

  Myndir / Unnur Magna
  Förðun / Sigurlín Ósk Hrafnsdóttir
  Föt / Kóda

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is