2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Náttúran tekur völdin

  „Þú getur gert það inn´á baði, þú getur gert það með hraði, þú getur gert það út‘ á hlaði, þú getur gert það hvar sem er,“ sungu Stuðmenn um árið. Og það er vissulega hægt að gera það út um allt. Inni. Úti. En kannski innan vissra siðgæðismarka.

   

  Ég fór að velta fyrir mér hvers vegna sumum finnst svona spennandi að stunda kynlíf úti við. Þá er ég ekki að meina standandi upp við húsvegg eða buslandi í heita pottinum heldur úti í guðs grænni náttúrunni. Ég verð að viðurkenna að kynlíf úti í náttúrunni höfðar ekki til mín. Kannski af því að ég hef aldrei prófað það. En ég held samt að það geri það einfaldlega ekki.

  Ég er meyja og kýs hrein rúmföt, rennandi vatn og alls kyns þægindi. Ekki grjóthart undirlag og ýmislegt sem fylgir því að liggja á jörðinni. Til dæmis mold og skordýr. Kynlíf í náttúrunni ætti samt kannski að höfða til okkar allra þar sem dýrin stunda það og við eigum jú að vera komin af öpum. Ætti það því ekki að vera ósköp eðlilegt að fleygja sér niður á næsta grasbala og byrja að kela?

  Spennandi tilhugsun að einhver kæmi að þeim

  AUGLÝSING


  Ég gerði mjög óvísindalega könnun meðal nokkurra vinkvenna minna og jú, nokkrar höfðu prófað kynlíf úti í náttúrunni. Ein sagði þau hjónin hafa prófað það óvænt þegar þau voru stödd barnlaus í bústað sem var töluvert afskekktur og þar sem þau væru bæði frekar feimin hefði þeim fundist fínt að eiga ekki á hættu að neinn kæmi að þeim þarna úti.

  Hún sagði að sér hefði fundist þetta visst frelsi og bara snúast um að leyfa hlutunum að gerast sjálfkrafa; það var ekki verið að skipuleggja kynlífið neitt eins og gjarnan þegar þau væru heima með börnin. Þarna hefðu þau ekki þurft að hafa áhyggjur af því að læsa svefnherbergishurðinni, að unglingurinn myndi heyra í þeim, leikskólabarnið myndi vilja koma upp í eða að tengdamamma bankaði óvænt upp á.

  Þá hefði hún heldur ekkert verið að hugsa um það hvernig hún liti út; hvort hún hefði verið búin að raka á sér lappirnar eða hvort líkaminn væri óaðfinnanlegur. „Ókei, en hefði ekki bara verið fínt að fara á hótel?“ spurði ég. „Þú hefðir alveg getað dregið gardínurnar fyrir og slökkt ljósin, þá hefði hann ekkert séð órakaða leggina og þetta sem þú hefur áhyggjur af.“ En hún neitaði því og sagði að þau hefðu auðvitað ekki ákveðið að fara í bústað einungis til að stunda kynlíf úti, heldur hefði það bara þróast þannig

  Og það hefði einmitt verið svo skemmtilegt. Að gera „eitthvað svona fyrirvaralaust og algjörlega ekki planað,“ eins og hún orðaði það. Og henni var alveg sama um óhreinindin við að liggja á jörðinni; það var bara partur af þessu og eins var svolítið spennandi að einhver ókunnugur gæti komið að þeim, þótt það væri mjög ólíklegt.

  „Það er alla vega ógeðslegt að stunda kynlíf á strönd,“ sagði önnur vinkona mín. „Sandurinn fer alveg upp í … Þú veist. Bara öll göt.“ Ég kinkaði kolli og sagðist rétt geta ímyndað mér það. Enda er nógu leiðinlegt að þurfa að skola sig eftir sólbað á ströndinni og hrista sandinn úr öllum handklæðum og töskunni þótt maður sé ekki líka að hrista hann úr … Já, þið fattið hvað ég meina.

  Þegar ég, verandi haldin minnstu spennufíkn allra Íslendinga, spurði hana hvort hún hefði ekkert verið hrædd um að einhver kæmi að þeim, sagði hún að það hefði einmitt verið það sem var svo geggjað. „Það var bara spennandi að hugsa til þess að kannski myndi einhver koma að okkur, mér fannst það rosalega kynæsandi. Þetta er pottþétt viss spennufíkn.“

  „Það var bara spennandi að hugsa til þess að kannski myndi einhver koma að okkur, mér fannst það rosalega kynæsandi.“

  Sú þriðja kom mér dálítið á óvart þegar hún sagðist hafa prófað kynlíf í Heiðmörk með þáverandi kærasta. „Æ, hann var auðvitað miklu eldri en ég og þetta var einhver gamall draumur hjá honum, svo ég ákvað að slá til og prófa,“ sagði hún og hló.

  „Við lögðum bílnum og löbbuðum svo inn á milli trjánna. Hann var alveg rosalega spenntur, eiginlega eins og lítill krakki að bíða eftir jólunum. En þetta voru rosaleg vonbrigði. Alla vega fyrir mig. Mér fannst ég bara ógeðslega skítug, öll í grasi og drullu og svo þegar þyrlan kom þá féllust mér nú alveg hendur.“ „Haaaa? Þyrlan?“ hváði ég. „Já, ég lá þarna á bakinu og sá allt í einu bara þyrlu beint fyrir ofan okkur. Ég gargaði á kærastann að hætta, við yrðum að drífa okkur í burtu en hann var svolítið lengi að fatta þetta og rúlla sér ofan af mér. Ég held ég hafi aldrei verið jafnfljót að klæða mig í fötin. En, þetta var alveg örugglega mjög góð skemmtun fyrir gaurana í þyrlunni. Og jú, pínu fyndið eftir á.“

  Aðspurð hvort hana myndi langa að prófa aftur svaraði vinkona mín að hún væri gallhörð á því að það muni aldrei gerast.

  Veðrið og vitið

  Veðrið er mikilvægur þáttur í lífi okkar Íslendinga og íslensk veðrátta hentar kannski ekkert sérlega vel til kynlífs utandyra; að minnsta kosti ekki þegar lægðirnar ganga yfir landið. En það má auðvitað klæða sig vel og þegar tekur að hitna í kolunum má fækka fötum. Það þarf auðvitað ekki að vera steikjandi hiti en þó þannig að fólk ofkælist ekki.

  Svo má auðvitað framkvæma þetta á ýmsa vegu. Það er til dæmis hægt að stunda kynlíf í tjaldi. Þá ertu úti í náttúrunni en samt inni. Og getur legið á dýnu. Sama er að segja um kynlíf í sumarbústað. Eða fjallakofa. Ef það kemur ekkert annað til greina en að kela úti í náttúrunni, þá er hægt að liggja á teppi. Það er til dæmis ekki vitlaus hugmynd að byrja á smávegis lautarferð og leyfa svo náttúrunni að taka völdin. Bókstaflega. Svo þarf auðvitað ekkert að fara úr öllum spjörunum, það má taka einn stuttan upp við tré sem kallar ekki á mikla fyrirhöfn.

  Þú getur gert það hvar sem er. Líklega er það aðeins undir hugmyndaflugi hvers og eins komið hvaða staðsetning verður fyrir valinu. Og það er um að gera að krydda lífið og kynlífið með skemmtilegum og óvenjulegum uppátækjum. Kynlíf í sambandi dofnar auðveldlega með barnauppeldinu, endurteknum Bónusferðum, þvottastússi og umræðum um hver eigi að skutla og sækja í fimleika og hvort náist að borga reikningana. Ég tala nú ekki um eftir því sem árin líða og hversdagurinn verður enn hversdagslegri. Því er um að gera að finna upp á einhverju til að viðhalda neistanum eða kveikja hann á ný. Það þarf samt að sýna smávegis vit og siðgæti þegar staðsetning er valin fyrir kynlífið utanhúss.

  Mér finnst til dæmis að staðir þar sem hætta er á að börn komi að, eins og leikskólalóð, ættu ekki að koma til greina. Og ekki kirkjugarðar. Ég gekk einu sinni fram á fullorðið fólk í miðjum samförum í Fossvogskirkjugarði og mér bæði brá og ofbauð. Leyfum hinum látnu að hvíla í friði. Það er nóg af öðrum stöðum þar sem hægt er að kela. Og það getur jafnvel verið partur af spennunni að finna rétta staðinn.

  Svo er ágætt að hafa í huga að þótt manni sjálfum finnist það geggjuð tilhugsun að til manns gæti sést, þá finnst þeim sem lendir í því að ganga fram á hasarinn það kannski ekki og jafnvel alveg örugglega ekki neitt spennandi.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is