Miðvikudagur 24. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

„Neitaði að viðurkenna að ég væri ekki ósigrandi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigurborg Íris Hólmgeirsdóttir hárgreiðslumeistari greindist með brjóstakrabbamein árið 2009 en neitaði að líta á sig sem sjúkling, endaði með því að yfirkeyra sig í vinnu og neyðast til að játa að hún væri ekki ósigrandi. Sykursýki sem hún greindist með um tvítugt versnaði til muna við krabbameinsmeðferðina en Sigurborg hefur haldið henni í skefjum með réttu mataræði og minnkað það magn af insúlíni sem hún þarf að sprauta sig með daglega. Hún segir glímuna við veikindin hafa kennt sér að njóta hvers dags og ganga ekki að neinu sem gefnu.

Ég byrja á því að biðja Sigurborgu, eða Sillu eins og hún er alltaf kölluð, að segja mér frá sjálfri sér og það kemur dálítið á hana.

„Ég er bara venjuleg kona og hárgreiðslumeistari sem býr í Hafnarfirði með eiginmanni og annarri af tveimur uppkomnum dætrum. Mér þykir óskaplega gaman í vinnunni og er fegin að vera á lífi,“ segir hún eftir andartakshik.

Ég gríp síðustu fullyrðinguna á lofti og bið Sillu að segja mér frá þeirri reynslu að greinast með krabbamein rúmlega fertug og ganga í gegnum krabbameinsmeðferð.

„Ég greindist með brjóstakrabbamein árið 2009,“ útskýrir hún. „Ekki þetta dæmigerða hormónatengda afbrigði heldur aðeins grimmara afbrigði. Ég spáði reyndar ekkert mikið í það, reyndi bara að lifa þetta af. Það var tekinn hluti af öðru brjóstinu, þannig að ég er með eitt og hálft brjóst, en ég var reyndar mjög heppin hvað þetta uppgötvaðist snemma, það var fyrir tilviljun. Ég átti að fara í aðgerð til að láta taka einhvers konar vöðvahnút sem var svo djúpt á í öðru brjóstinu á mér að það þurfti að skurðmerkja hann svo ég fór til geislalæknis sem merkti leiðina inn fyrir skurðlækninn og rakst þá á annan hnút sem ekki hafði komið fram á myndum en reyndist vera krabbamein. Ég segi stundum að ég hafi unnið í Víkingalóttóinu að það skyldi finnast.“

Leitaði allra ráða við sykursýkinni

- Auglýsing -

Krabbameinsmeðferðinni lauk 2010 og Silla hefur ekki greinst með krabbamein aftur. Hefðbundnu eftirliti lýkur fimm árum frá greiningu og hún segist krossa fingurna og vona að hún sé sloppin. Brjóstakrabbamein er ekki algengt í fjölskyldu hennar og hún segist ekki vera með BRCA-genið þannig að systur hennar og dætur hafi ekki þurft að hafa áhyggjur.

 „Fólk segir stundum við mig að ég sé svo dugleg, en það er ekki eins og það sé eitthvert val. Annaðhvort sest maður niður og gefst upp eða reynir að berjast áfram. Það er eina valið sem maður hefur.“

Krabbameinið er þó ekki eini sjúkdómurinn sem Silla hefur þurft að takast á við. Rúmlega tvítug greindist hún með sykursýki sem hún segir eiginlega hafa verið erfiðara að fást við en krabbameinið. Hún hefur þó fundið stóran mun til batnaðar eftir að hún breytti mataræðinu.

„Ég held ég hafi verið að leita að hinum heilaga kaleik til að minnka áhrif sykursýkinnar í þrjátíu ár,“ segir hún og hlær. „Fyrst gekk mér vel að hafa hemil á henni með mataræði en svo dugði það ekki og ég var alltaf að leita að einhverju sem gæti hjálpað. Krabbameinsmeðferðin hafði mjög slæm áhrif á sykursýkina og mér versnaði mikið þannig að ég var örvæntingarfull að reyna að finna einhverja lausn. Fyrir nokkrum árum sá ég síðan þátt úr seríunni Trust me I’m a doctor og þar var verið að fjalla um 5:2 mataræðið og ég hugsaði með mér að það sakaði kannski ekki að prófa það, ég væri hvort eð er búin að prófa allt annað. Mér hafði gengið mjög illa að halda sykursýkinni í skefjum, þurfti að sprauta mig mjög mikið með insúlíni. Eftir að ég byrjaði á 5:2 mataræðinu lagaðist það heilmikið og ég gat farið að draga úr því að sprauta mig. Það eru um það bil tvö og hálft til þrjú ár síðan ég byrjaði á 5:2 og svo er svona ár síðan að ég fór líka aðeins að draga úr neyslu kolvetna, þótt ég sé nú ekki á ketó, og alltaf með það bak við eyrað hversu mikið af kolvetnum sé í matnum sem ég borða. Það er mjög erfitt að léttast þegar maður er alltaf að dæla í sig svona miklu insúlíni, þannig að um leið og ég gat farið að nota minna af því fór ég að léttast aðeins. Ég er samt ekkert orðin mjó, ég er enn þá stór manneskja en það munar um hvert kíló sem fer og ég sakna ekkert þessara tíu kílóa sem er búið að taka mig nærri þrjú ár að skafa af mér. Ég er afskaplega þakklát fyrir að hafa fundið eitthvað sem virkar því það munar ansi miklu hvort maður þarf að sprauta sig með sextíu til sjötíu einingum af insúlíni oft á dag eða sprauta sig með einni sprautu með sex til átta einingum á dag. Ég hef eignast alveg nýtt líf eftir að ég tók upp þetta mataræði og er afskaplega sæl og glöð í dag.“

- Auglýsing -

Farin að berja barnapíurnar með hárbursta áður en hún gat staðið

Silla á og rekur hárgreiðslustofuna Hárbeitt í Hafnarfirði ásamt eiginmanni sínum, Árna Eiríki Bergsteinssyni, hvernig stóð á því að hún valdi það starf?

„Ég ætlaði alltaf að verða hárgreiðslukona,“ segir hún, dálítið hissa á spurningunni. „Mamma mín er hárgreiðslukona og það kom aldrei neitt annað til greina hjá mér. Ég held ég hafi verið byrjuð að berja barnapíurnar með hárburstum áður en ég gat staðið. Ég hef aldrei haft áhuga á neinu öðru starfi og finnst ég heppin að fá að vinna við það sem mér finnst ógeðslega skemmtilegt.“

Meðal þess sem Silla hefur fengist við í hárgreiðslunni er starf við ýmsar kvikmyndir og sjónvarpsþætti, hvernig kom það til?

„Ég hef verið undirverktaki fyrir leikgervahönnuði,“ segir hún hógvær. „Ég hef unnið mikið fyrir Kristínu Júllu Kristjánsdóttur og Áslaugu Dröfn Sigurðardóttur sem eru algjörar kanónur í þeim bransa í dag, ótrúlega flottar konur. Bíóbransinn á Íslandi hefur breyst mjög mikið og það er ekki hægt að vera að klippa eða lita á settum í dag, framleiðslan hefur stækkað svo mikið. Þær hafa stundum ráðið mig til að sjá um litanir, eða hárlengingar eða eitthvað slíkt. Ég fór í rauninni ekki að sinna neinu svoleiðis fyrr en ég fór – alveg óvart – að vinna í Borgarleikhúsinu þar sem ég vann í leikgervadeildinni í tæp fimmtán ár, frá 2000 til 2014 með fram vinnunni á stofunni. Það var hrikalega skemmtilegur tími. Eftir að ég hætti þar opnuðust þessar dyr inn í bíóbransann og mér fannst afskaplega gaman að fá að taka þátt í honum. Kristín og Áslaug eru auðvitað leikgervahönnuðirnir, ég bara fæ að vera með á kantinum.“

Meðal þeirra bíómynda og þátta sem Silla hefur unnið við eru Brot, Lof mér að falla, Skjálfti, báðar seríurnar af Ófærð og fleiri. Hún segir það hafa komið á óvart hvað var mikið að gerast í kvikmyndaheiminum á Íslandi og vinnan við þær sé óskaplega skemmtileg.

Fylgdi nema í atvinnuviðtal og var ráðin á staðnum

Ég hegg eftir því að hún segist hafa farið að vinna í Borgarleikhúsinu „alveg óvart“ hvað á hún við með því?

„Það er mjög fyndin saga,“ segir Silla og brosir. „Þannig var að leikgervadeild Borgarleikhússins vantaði einhvern sem kunni að gera bylgjur í hár og höfðu haft samband við Iðnskólann í Reykjavík sem hafði bent þeim á nemann minn. Nema hvað hún var svolítið umkomulítil og þorði ekki að fara ein upp í leikhús og ég er náttúrlega svoddan ungamamma að ég dreif mig bara með henni. Við mættum í Borgarleikhúsið og komumst að því að þar bráðvantaði fólk á stundinni. Neminn minn kláraði viðtalið og hún var ráðin en svo spurði Eva Sólan, sem var að leysa af sem yfirmaður deildarinnar, mig hvort ég gæti ekki gert eitthvað? Það endaði með því að við byrjuðum báðar að vinna sama kvöld og unnum þarna báðar í mörg, mörg ár. Þannig að það var svo sannarlega algjörlega óvart að ég lenti þar.“

 „Ég er samt ekkert orðin mjó, ég er enn þá stór manneskja en það munar um hvert kíló sem fer og ég sakna ekkert þessara tíu kílóa sem er búið að taka mig nærri þrjú ár að skafa af mér.“

Neitaði að horfast í augu við að vera veik

Silla segir það ekki hafa komið til af góðu að hún hætti í Borgarleikhúsinu, hún hafi neyðst til að hætta eftir að hún hafi rekist á vegg vegna ofþreytu.

„Ég bara vann yfir mig, eins og fólk gerir,“ segir hún, eins og ekkert sé eðlilegra. „Það byrjaði þegar ég var í krabbameinsmeðferðinni. Ég vildi ekki vera veik og neitaði algjörlega að horfast í augu við það. Ég ætlaði ekki láta þetta krabbamein sigra mig. En það kom að því að það gekk ekki lengur. Ég þurfti bara að viðurkenna að ég var ekki ósigrandi og það var mjög erfitt að sætta sig við að þurfa að slá af vinnu. Ég reyndi líka oft að hætta að vera með sykursýki þegar ég var yngri, með skelfilegum afleiðingum. Þá hætti ég að taka lyfin mín og nennti ekkert að taka sjúkdóminn með í reikninginn. Ef ég gæti keypt nýjan kropp held ég að ég myndi borga hvað sem væri. Ég reyni allt til að halda kroppnum í formi, druslast í ræktina og er í Pilates og geri alls kyns hluti til að reyna að halda mér í fimmtíu prósent vinnu. Fólk segir stundum við mig að ég sé svo dugleg, en það er ekki eins og það sé eitthvert val. Annaðhvort sest maður niður og gefst upp eða reynir að berjast áfram. Það er eina valið sem maður hefur. Ég er svo heppin að ég á mitt eigið fyrirtæki þannig að ég get leyft mér að kaupa aðstoðarfólk sem ég gæti auðvitað ekki ef ég væri að vinna hjá öðrum. Ég gæti kannski unnið eitthvað aðeins meira ef ég væri að vinna við eitthvað annað en að fá að vinna við það sem maður elskar er ómetanlegt. Þótt starf hárgreiðslukonunnar sé oft erfitt, maður er standandi eða á hlaupum allan daginn, þá væri alveg hræðilegt að vera að vinna við eitthvað sem maður elskar ekki. Þegar ég sé fólk vinna á skrifstofu fæ ég bara hjartsláttartruflanir. Mig langar ekki að sitja á rassinum allan daginn, þótt ég taki ofan fyrir því fólki sem getur það. Mitt starf er líka svo lifandi, maður hittir svo margt fólk og suma hefur maður verið með lengi. Ég segi stundum að þetta sé svona eins og framhaldssaga mánaðarins, að fá allar nýjustu upplýsingar um það hvað kúnnarnir hafa verið að gera síðan síðast. Maður heyrir alls konar sögur og það er eitt af því sem gerir starfið svona skemmtilegt og fjölbreytt.“

Ekki enn búin að slátra hvort öðru

Árni, eiginmaður Sillu, vinnur líka á stofunni, er ekkert erfitt að vera bæði að vinna saman og búa saman?

„Við erum búin að vinna saman í þrjátíu ár og erum ekki enn búin að slátra hvort öðru,“ segir hún og skellir upp úr. „Það fyndna er að margar konur tala um hvað það hljóti að vera æðislegt að vinna með manninum sínum en karlarnir segja manninum mínum að þetta gætu þeir sko aldrei. Það er greinilega misjöfn sýn á þetta hjá kynjunum en þetta hefur hentað okkur mjög vel og gengið alveg upp. Árni er frábær og ég kæmist ekkert yfir að gera það sem ég er að gera án hans. Hann sér um allt, ég þarf aldrei að gera neitt heima heima hjá mér. Hann er minn besti vinur og helsti stuðningsaðili og við erum ægilega góðir félagar. Það má heldur ekki gleyma því að við svona rekstur eins og við erum í skiptir mestu máli að liðsheildin sé góð og maður eigi gott bakland í vinnunni. Við höfum verið einstaklega heppin með okkar starfsfólk í gegnum árin.“

Þarf að kunna að bregðast við fólki í sorg

Stundum er sagt að hárgreiðslufólk þurfi að vera sálfræðingar í leiðinni, fólk segi því ýmislegt sem það myndi aldrei segja neinum öðrum, er það þín reynsla?

„Já,“ segir Silla án þess að hika. „Ég sá einhvern tímann niðurstöður breskrar rannsóknar þar sem kom í ljós að þegar sálfræðingar spurðu þá sem leituðu til þeirra hvers vegna þeir hefðu komið svöruðu mjög margir því til að hárgreiðslukonan þeirra hefði sent þá vegna þess að hún hefði ekki getað gert meira fyrir þá. Og vissulega kemur fólk ekki bara til okkar í gleði, það gleymist mjög oft að fólk kemur líka til okkar í sorg. Þess vegna hef ég oft hamrað á því að krakkar eigi ekki að fara of ungir í þetta nám því fólk kemur líka til okkar þegar það þarf að jarða maka sinn, eða pabba sinn sem fyrirfór sér eða son sem hengdi sig og svo framvegis. Maður verður að vera tilbúinn að bregðast rétt við í þeim aðstæðum. Það lenda allir í miklum áföllum í lífinu og fólk kemur oft til okkar eftir stór áföll en það er ekki mikið kennt um það í náminu eða í öðrum skólum ef út í það er farið. Mér finnst að það þurfi að gera miklu meira af því. Þetta gildir ekki bara um okkar starfsstétt heldur margar aðrar líka. Fólk kemur í alls konar ástandi og maður þarf að taka á honum stóra sínum til að bregðast rétt við, en ég vildi samt ekki skipta um starf við neinn.“

„Ég vildi ekki vera veik og neitaði algjörlega að horfast í augu við það. Ég ætlaði ekki láta þetta krabbamein sigra mig. En það kom að því að það gekk lengur. Ég þurfti bara að viðurkenna að ég var ekki ósigrandi.“

Leitaðirðu þér einhverrar andlegrar aðstoðar þegar þú rakst á vegginn, eins og þú kallar það?

„Já, ég fékk aðstoð í gegnum Virk og það hjálpaði mér mjög mikið,“ segir Silla. „Ég fór á núvitundarnámskeið, sem mér fannst dálítið erfitt af því að ég er afskaplega óþolinmóð manneskja, en ég hafði mjög gott af því. Ég fór líka í gegnum meðferð hjá verkjateyminu á Reykjalundi og lærði að lifa með verkjunum og því sem sjúkdómnum fylgir. Hjá Virk er unnið mjög gott starf og leitað persónulegra lausna fyrir hvern og einn, ekki allir settir í sama prógrammið. Ég átti auðvitað óskaplega erfitt með að biðja um hjálp og ég ímynda mér að öllum finnist hrikalega erfitt að vera í þeirri stöðu að þurfa að viðurkenna að þeir þurfi aðstoð. En kerfið sem greip mig á sínum tíma var gott og það varð til þess að ég get stundað mína fimmtíu prósent vinnu. Ég lærði líka að ég þarf að vera mjög passasöm með það að ég get ekki leyft mér að vinna meira. Ef ég geri það kostar það mig mikið og ég ætla ekki að fara á þann stað að geta ekki unnið. Ég ætla að klippa þangað til ég drepst. Ég skal!“

Slysaðist inn í handverk

Er hárgreiðslan sem sagt eina áhugamálið? „Nei, reyndar ekki,“ segir Silla og hlær aftur. „Ég slysaðist líka út í smávegis handverk með bestu vinkonu minni og einum af vinum mannsins míns sem er í víkingafélaginu Rimmugýgi. Við erum með vinnustofu í Íshúsinu í Hafnarfirði þar sem er frábært samfélag alls konar lista- og handverksfólks. Þar höfum við hannað og unnið víkingalínu sem við erum að selja í túristabúðir auk þess að vera með prjónamerki og sjalanælur og hálsmen. Við erum með svona pínulítinn dótakassa þarna, ef svo má segja. Það má segja að ég hafi hannað víkingalínuna, en vinur okkar handsker allar kúlurnar og Magnea vinkona mín setur allt saman. Sumt af mununum sem við gerum er handmálað og ég sé um það. Það er svona frístundaiðjan mín, sem ég hef líka mjög gaman af. Það skiptir svo miklu máli að hafa gaman af lífinu. Við eigum bara eitt líf og það dugar ekki að lifa því eins og við eigum mörg til vara.“

 „Ég segi stundum að þetta sé svona eins og framhaldssaga mánaðarins, að fá allar nýjustu upplýsingar um það hvað kúnnarnir hafa verið að gera síðan síðast. Maður heyrir alls konar sögur og það er eitt af því sem gerir starfið svona skemmtilegt og fjölbreytt.“

Hlakkar til hvers einasta dags

Spurð hvort krabbameinið hafi á einhvern hátt breytt því hvernig hún horfir á lífið segir Silla að vissulega hafi það gert það.

„Já, maður verður náttúrlega dauðlegur þegar maður fær svona sjúkdóm,“ segir hún. „Þegar maður er hraustur er maður kannski ekki alltaf með hugann við það að einhverju geti lokið þannig að þegar maður áttar sig á dauðleika sínum fer maður að verða sparsamari á þann tíma sem maður á og forgangsraða betur hvernig maður vill verja þeim tíma sem eftir er. Ég veit ekki hvort hægt er að segja að maður verði sjálfselskari á tíma sinn en kannski finnst einhverjum það. Ég er þyngri sjálf á vogarskálinni eftir þessa reynslu, ég set mig pínulítið framar í röðina en ég gerði áður. Er ekki alltaf sagt að ef maður hugsi jákvætt þá komi til manns jákvæðir hlutir og mér finnst ég hafa verið heppin með það hversu skemmtilegir hlutir hafa komið til mín eftir að ég lenti í þessu. Ég hef átt mjög góðan tíma síðan þetta gerðist og er bara sjúklega glöð með hvert einasta ár sem ég fæ. Það fá ekki allir að verða gamlir og maður þarf að muna það að það er ekkert sjálfsagt. Málið er að maður ræður því sjálfur hvernig maður horfir á hlutina og ég valdi að vera þakklát í staðinn fyrir að horfa á slæmu hliðarnar. Ég er stundum svolítið mikil Pollýanna. Brjálað veður í byrjun mars er til dæmis bara páskahret í mínum augum, það er alveg að koma vor. Það kemur nýr dagur á morgun og þar með ný tækifæri og ef þér gekk til dæmis illa í megruninni í dag er ekkert allt ónýtt, þú heldur bara áfram aftur á morgun. Ég hlakka til hvers einasta dags og þakka endalaust fyrir að vera á lífi.“

Förðun: Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -