Nokkrar kvenhetjur sem vert er að skoða

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Í bókmenntasögunni fer ekki mikið fyrir sterkum konum sem eru gerendur í eigin lífi fyrr en líða tekur á tuttugustu öld.

Hester Prynne úr The Scarlet Letter ber merki hórunnar, skarlatsrautt A á brjóstinu. Leikonan Demi Moore í titilhlutverkinu í samnefndri kvikmynd.

Oftast eru konur fórnarlömb karla, fórnfúsar, kærleiksríkar og fremur viljalausar eða illviljuð tálkvendi sem nota fegurð sína til að eyðileggja flesta þá er nálægt þeim koma. Nokkrar skærar stjörnur standa upp úr og vekja aðdáun lesenda og efla þá til dáða.

Líklega verða sjaldan ofmetin þau áhrif sem fyrirmyndir hafa á börn og unglinga. Þess vegna skiptir svo miklu máli hvað þau lesa. Flestir geta áreiðanlega litið um öxl og minnst þeirra sögupersóna sem þeir kusu að leika í ímyndarleikjum æskunnar eða dreymdi um að vera þegar þeir voru ungir. Skoðum nokkrar konur sem við myndum margar enn vilja líkjast.

- Auglýsing -

Merkt kona
Hester Prynne úr The Scarlet Letter ber merki hórunnar, skarlatsrautt A á brjóstinu. Bókstafurinn stendur fyrir „adultress“ eða tálkvendi. Hún er send á undan manni sínum til Nýja Englands, eignast þar elskhuga og með honum barn. Hún er dæmd í fangelsi fyrir það, enda var hórdómur glæpur í púrítönskum samfélögum og síðan neydd til að bera stafinn til marks um synd sína. Stolt stendur Hester Prynne og ber höfuð og herðar yfir alla aðra í umhverfinu bæði fyrir mennsku sína og dugnað. Hún lætur ekki brjóta sig. Að lokum kemst upp að það er presturinn sjálfur, sá sem predikar yfir söfnuði sínum á hverjum sunnudegi, sem syndgaði með henni. Hann er faðir barnsins en lætur barnsmóður sína um að bera hitann og þungann af uppeldinu og fordæmingu umhverfisins. Lýsandi fyrir aðstæður og örlög kvenna í öllum samfélögum á öllum tímum. Ætli Hester Prynne nútímans séu ekki konurnar sem rjúfa þögnina um kynferðisofbeldi sem þær hafa orðið fyrir.

Stolt stendur Hester Prynne og ber höfuð og herðar yfir alla aðra í umhverfinu bæði fyrir mennsku sína og dugnað. Hún lætur ekki brjóta sig.

Eiginkonan sjálfstæða
Eiginkonan frá Bath úr Kantaraborgarsögunum er einstaklega eftirminnileg. Hún er lostafull og jafnvel ansi ágeng við karlpeninginn. En þrátt fyrir það er hér ekki á ferð nein auðsveip daðurdrós. Þetta er kona sem þekkir líkama sinn, eigin ástríður og telur að konur eigi rétt á að fara með sínar hvatir eins og þeim sjálfum sýnist. Svo sannarlega framsækin hugmynd með tilliti til að hún átti að hafa verið uppi á þrettándu öld.

Þekking Herminone Granger og yfirveguð skynsemi bjargar drengjunum í Harry Potter bókunum aftur og aftur úr verstu vandræðum.

- Auglýsing -

Fyrirmyndarnemandinn
Fyrirmyndarnemandinn og nornin snjalla, Hermione Granger úr Harry Potter, er vissulega „besser wisser“ en svo heillandi og skemmtilegur slíkur að flestar unglingsstúlkur vildu örugglega vera líkar henni. Hún lætur engan eiga neitt hjá sér en er vinum sínum ómetanlegt tryggðatröll. Hún er líka fær um greina muninn á réttu og röngu og er tilbúin að beygja reglurnar þegar nauðsyn ber til. Þekking hennar og yfirveguð skynsemi bjargar drengjunum aftur og aftur úr verstu vandræðum. Og ekki má gleyma að hún hefur mikla samlíðan með öðrum og skilning á tilfinningum þeirra sem standa utangarðs, enda sjálf muggi og því ekki fyllilega samþykkt þrátt fyrir óumdeilanlega hæfileika.

Sú viljasterka
Janie Crawford í Their Eyes Were Watching God er ótrúlega sjálfstæð kona. Styrkur hennar felst fyrst og fremst í þrautseigjunni og viljanum að halda áfram sama hversu sterkur mótbyrinn er. Og það er ekki lítið sem hún þarf að takast á við, þeldökk kona alin upp af ömmu sinni, fyrrum þræl, og neydd til að giftast manni sem hún hefur enga ást á. Hún heillast af sjarmerandi og metnaðarfullum manni og flyst með honum til annars bæjar. Þar rís maður hennar til hæstu metorða en heldur henni nánast fanginni á heimilinu. Að lokum springur hún og hjónabandið sömuleiðis. Bókin hefst þar sem hún, þá miðaldra, flyst til Flórída ásamt nýjum eiginmanni sínum sem er tólf árum yngri. Þar kynnist hún konu sem fær að heyra söguna alla.

Barnfóstran hugrakka
Jane Eyre þolir miklar hörmungar í æsku en ber höfuð og herðar yfir alla aðra karaktera í skáldsögunni sem ber nafn hennar. Hún er sjálfstæð, ástríðufull, heiðarleg og með svo sterka siðferðiskennd að hún neitar að gerast ástkona unnusta síns þegar hún kemst að því að hann getur ekki gifst henni. Hún treystir ævinlega fyrst og fremst á sjálfa sig og þarf engan karlmann að styðja sig við. Charlotte Brontë skapaði sannarlega eftirminnilega persónu því þrátt fyrir kostina er Jane ekki leiðinleg, alls ekki fullkomin og gæti alveg verið raunveruleg manneskja.

- Auglýsing -

Sumir hafa kallað Lisbeth Salander femínískan hefndarengil en það er kannski fullmikil einföldun.

Tölvusnillingurinn
Lisbeth Salander í bókum Stieg Larsons er einstaklega ófullkomin en samt svo heillandi og stórkostleg. Hún er án efa einhverf eða á einhverju slíku rófi en virðist ekki hafa neina sérstaka þörf fyrir náið samneyti við annað fólk. Greind hennar og sterk réttlætiskennd skilar henni áfram þótt sjaldnast virði hún þau mörk sem aðrir setja í viðleitni sinni til að skúrkarnir fái makleg málagjöld. Sumir hafa kallað hana femínískan hefndarengil en það er kannski fullmikil einföldun. Lisbeth er fyrst og fremst útsjónarsamur einstaklingur að berjast við að komast af í veröld sem er honum andsnúinn á ótal vegu, bæði vegna fötlunar hennar, uppeldis, uppruna, skorts á menntun og löngunar til að laga sig að meðalmennskunni.

Éowyn, skjaldmærin í Rohan úr Hringadróttinssögu, er eftirminnilegasti og raunverulegasti kvenkarakter bókanna … ein stórkostlegasta sena bókanna er þegar hún rís upp á móti nornakóngnum frá Angmar …

Mærin frá Rohan
Éowyn, skjaldmærin í Rohan úr Hringadróttinssögu, er eftirminnilegasti og raunverulegasti kvenkarakter bókanna. Hún þráir að verja fólkið sitt og landið og dulbýr sig sem karlmann til að geta tekið þátt í bardaganum gegn illu öflunum. Álfadísirnar eru loftkenndar verur með yfirnáttúrulega hæfileika sem fáar konur myndu máta sig við en Éowyn berst eins og karlmaður og ein stórkostlegasta sena bókanna er þegar hún rís upp á móti nornakóngnum frá Angmar og hann segir: „Enginn lifandi maður getur drepið mig.“ „Ég er enginn maður,“ svarar hún, hefur sverðið á loft og rekur það í ófreskjuna sem með það sama leysist upp.

Nafn Hua Mulan var fáum kunnugt þar til hún varð aðalpersóna í teiknimynd frá Disney. Fyrirmyndin að þeirri heillandi persónu er hins vegar að finna í kínversku sögukvæði frá 6. öld.

Bardagahetjan
Nafn Hua Mulan var fáum kunnugt þar til hún varð aðalpersóna í teiknimynd frá Disney. Fyrirmyndin að þeirri heillandi persónu er hins vegar að finna í kínversku sögukvæði frá 6. öld. Óðurinn um Mulan er eftir Song Nan Zhang en ólíkt óöruggu smástelpunni í Disney-myndinni er Mulan hans sautján ára stúlka, þegar fljúgandi fær í hermennsku og bardagaíþróttum sem ætlar sér stóra hluti í hernum. Allt sem hún kann kenndi hún sér sjálf því hún var einfaldlega ekki ánægð með að sitja við vefnað. Hún fer í stríð í stað föður síns, vinnur alla sína bardaga, kemur heim og tekur upp sitt fyrra líf. Smámál, já, fyrir Mulan.

Sjálfur háðskaðinn
Katniss Everdeen úr Hungurleikunum er örugglega sú hetja sem flestar ungar konur vilja líkjast. Falleg, hugrökk, snjöll, dugleg og fær um að blása öðrum ástríðu í brjóst. Að vísu veit hún í fyrstu ekkert hvorn karlmanninn hún vill en hver hefur ekki verið þar. Hún velur að lokum og stendur við val sitt. Það er fyrir öllu.

„Heldur þann versta“
Hin stolta Snæfríður Íslandssól úr Íslandsklukku Halldórs Laxness er án efa eftirminnilegasta kvenpersóna íslenskra bókmennta. Salka Valka er stórkostleg í sjálfstæði sínu og þótt hún sé karlmannsígildi að burðum langar okkur fæstar að standa í hennar sporum. Úa í Kristnihaldi undir jökli er of óræð og dularfull til að venjulegar konur skilji hana og Ugla í Atómstöðinni of jarðbundin fyrir flestar. Öðru máli gegnir um álfakroppinn mjóa sem leysir bandingja á Þingvöllum til að koma boðum til ástmanns síns. Kýs síðan heldur þann versta en þann næstbesta og þolir honum drykkjuskapinn ótrúlega lengi. Líklega af sektarkennd yfir að elska hann ekki. Snæfríður er margbrotin kona, tilfinningarík, uppreisnargjörn en gengst að lokum undir ok samfélagsins, giftist dómkirkjuprestinum og verður maddama líkt og systir hennar. En hún reyndi þó að marka eigin slóð.

Kvenhetjur Íslendingasagnanna
Nokkrar eftirminnilegar kvenhetjur Íslendingasagnanna hafa án efa haft áhrif á sjálfsmynd íslenskra kvenna í gegnum tíðina. Guðrún Ósvífursdóttir, Hallgerður langbrók, Bergþóra Skarphéðinsdóttir á Bergþórshvoli, Hildigunnur Starkaðardóttir, Helga Jarlsdóttir, Þuríður á Fróðá og fleiri eru sterkar konur, svipmiklar og láta enga karla kúga sig.

Katniss Everdeen úr Hungurleikunum er örugglega sú hetja sem flestar ungar konur vilja líkjast.

Höfundur / Steingerður Steinarsdóttir

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -