Nokkrar leiðir til að mynda tengslanet

Deila

- Auglýsing -

Karlmenn þekkja vel mikilvægi þess að mynda tengslanet. Þeir virðast nánast gera þetta ómeðvitað meðan konur eru hikandi við að notfæra sér kunningsskap bæði í starfi og einkalífi. Þær ættu þó að taka karlana sér til fyrirmyndar að þessu leyti og líklegt að þær átti sig fljótlega á að víða leynast stuðningsmenn meira en tilbúnir til að hjálpa. Hér eru nokkrar leiðir til að mynda tengslanet og notfæra sér það.

  1. Sækistu eftir stöðuhækkun eða viltu hærri laun?

Sumir eiga mjög erfitt með að ganga fyrir yfirmann sinn og biðja um hærri laun eða láta í ljós löngun til að komast hærra innan fyrirtækisins. Því miður er það svo að ef bíða á eftir að yfirmenn taki eftir hversu góður starfsmaður þú ert getur biðin orðið óralöng, einkum í stórum fyrirtækjum.

Ef þú sækist eftir auknum frama eða vilt fá endurskoðun á launum þínum er góð leið til að undirbúa slíkt með hjálp vinkvenna, kunningja eða samstarfsfólks sem þú veist að hefur náð árangri. Spurðu þessar manneskjur hvernig þær fóru að, hvað hafi reynst þeim best og hvernig þær hafi undirbúið sig undir viðtalið við yfirmanninn. Það er ótrúlegt hvað svona samtöl ná að brjóta ísinn og auðveldara verður að leita til þessa hóps næst þegar þig vantar ráð eða stuðning á einhvern hátt.

  1. Hverjir eru styrkleikar þínir og veikleikar?

Að þekkja sjálfan sig er mikilvægur hluti af því að njóta velgengni. Sumir eiga erfitt með að horfa á sjálfa sig með hlutlausum augum og vega og meta. Þá er gott að eiga góða að og notfæra sér tengslin við þá til að kynnast sjálfum sér betur. Biddu fjölskyldu þína, vini og samstarfsmenn að skrifa niður þína helstu styrk- og veikleika. Ef þú vilt getur þú slegið fram ákveðinni tölu, til dæmis fimm kosti og fimm galla. Þetta getur komið að góðum notum í atvinnuviðtölum en einnig verið þér persónulegur vegvísir að því að vinna með það sem þú getur bætt. Hér eru samstarfsmenn ekki hvað síst verðmætir.

Stundum er gott að leita til þeirra er hafa unnið með manni áður, enda eru þeir oft ófeimnari við að tala um veikleika þína. Það er mikilvægt í þessu ferli að leyfa sér enga viðkvæmni og móðgast ekki þótt fólk segi eitthvað sem þér líkar ekki. Mundu þetta er gert til að þú getir lært af því og nýtt þér það.

  1. Langar þig að skipta algjörlega um starf?

Marga langar að skipta algjörlega um gír einhvern tíma í lífinu. Það getur hins vegar verið flókið. Oft er fólk búið að mennta sig, skapa sér nokkuð góða stöðu þegar það gerir sér grein fyrir að eldmóðurinn og ástríðan eru horfin. Þá er ekkert eftir annað en að vakna á hverjum morgni, dragast á fætur og afplána setuna við skrifborðið sitt. Þegar þannig er komið er gott að líta til baka, skoða allt það er veitti ánægju í æsku eða á unglingsárum, rifja upp drauma sína og velta fyrir sér hvort tímabært sé að láta einhvern þeirra rætast. Það getur verið hægara sagt en gert.

Það er erfitt að taka stökkið, yfirgefa öryggið og láta reyna á hæfni sína og útsjónarsemi. Ein leið er að tala við fólk sem hefur gert einmitt þetta, skipt um starfsferil á miðjum aldri, hafið nám í gerólíku fagi á miðjum aldri eða stofnað eigið fyrirtæki. Allir þekkja einhvern sem hefur gert eitthvað þessu líkt og í fjölmiðlum má oft finna viðtöl við fólk af þessu tagi. Hægt er að setja sig í samband við það og fá góð ráð varðandi hvernig á að byrja, halda áfram og viðhalda árangri sem hefur náðst. Um leið hefur þú myndað tengsl við fólk með frumkvöðlahugsun sem getur reynst þér ómetanlegt ákveðir þú að taka skrefið.

  1. Viltu stofna þitt eigið fyrirtæki?

Frumkvöðlar þurfa að hafa sjálfstraust, trú á eigin hugmynd og stuðning til að komast áfram. Settu þig í samband við frumkvöðlasetur, eigendur smáfyrirtækja, markþjálfa eða aðra sérfræðinga er geta gefið þér góð ráð. Spurðu, spekúleraðu og skrifaðu hjá þér vangaveltur um það sem fram kemur á fundum þínum með þessu fólki. Hugsanlegt er að einhver, jafnvel allir séu tilbúnir til að hjálpa og veita þér stuðning fyrstu skrefin.

  1. Hvar er góður vettvangur

Góður vettvangur til að mynda sambönd er í raun alls staðar og tengslanet eru mynduð hvar sem menn koma saman. Margir eiga gott tengslanet síðan í skóla, aðrir  rækta fyrrum samstarfsfélaga, jafnvel frá því í unglingavinnunni, vinir vina eru uppspretta annarra að leiðum til að láta drauma sína rætast, veislugestir í kokteilboðum geta reynst ómetanlegir og menn sem hittast á vettvangi dagsins deila stundum hugmyndum og verðmætum upplýsingum. Sá sem hlustar og leggur sig fram um að eiga góð samskipti getur lagt grunn að góðum tækifærum.

- Advertisement -

Athugasemdir