2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Nokkrar staðreyndir um hjónabönd

  Allir sem hafa átt í langtímasamböndum vita að það er ekki auðvelt að halda ástinni lifandi. Þess vegna er alltaf áhugavert að heyra viðhorf fólks sem hefur átt í ástríku og gjöfulu sambandi um langa hríð. Obama-hjónin eru þar á meðal en Michelle Obama sagði nýlega í fyrirlestri: „Það koma löng tímabil þegar mann langar mest að fleygja honum út um næsta glugga.“ En hún hafði fleira fram að færa.

  Barack og hún fara reglulega á stefnumót. Þau færu þá jafnan á staði þar sem hægt er að dansa og gerðu í því að horfast í augu á dansgólfinu. Að auki talaði hún um að mikilvægt væri að finna jafnvægi milli vinnu og einkalífs og taka aldrei starfið með sér heim. En fleira þarf til og ef skoðaðar eru bækur fjölskylduráðgjafa um hjónabönd eru nokkur atriði sem getur borgað sig að hafa í huga.

  Strax í byrjun sambandsins ætti fólk að vera meðvitað um hvað það getur talað um hvað ekki.
  Ef þið endið alltaf á að rífast þegar einhver tiltekin málefni koma upp eru það ágreiningsefni sem þið verðið að leysa. Það gengur ekki að fresta slíkum umræðum eða þegja og vona að viðhorf makans breytist. Ef þið getið ekki talað út um þetta sjálf, farið þá og fáið hjálp við það.

  Mjög margt í samlífi hjóna er vanþakklátt.
  Bæði karlar og konur mættu taka betur eftir því sem makinn leggur á sig fyrir þau. Umhyggju er hægt að sýna á margan hátt. Sumir nota orð, aðrir smáviðvik til þess fallin að létta hinum lífið og enn aðrir gleðja með gjöfum. Að sýna þakklæti og meta þessi litlu atriði getur munað miklu fyrir makann en líka breytt eigin hugarfari til hans þegar þessi tímabil koma þegar mann langar mest að fleygja honum út um gluggann.

  Hjónabandið lengir líf karlmanna en styttir líf kvenna.
  Hingað til hafa allar rannsóknir sýnt þessa undarlegu niðurstöðu en hvort þetta breytist nú þegar karlar eru farnir að taka meiri þátt í heimilisstörfum og uppeldi verður tíminn að leiða í ljós. Ein ástæða þess er líka að konur hugsa jafnan vel um heilsu eiginmanna sinna og sjá til þess að þeir leiti læknis sé eitthvað að. Auk þess er mjög algengt að þær taki ábyrgð á sjúkdómum er upp koma, t.d. með því að breyta mataræði eða hvetja til aukinnar hreyfingar og hjálpa mönnum sínum að ná slökun. Þær gleyma hins vegar stundum að hugsa á sama hátt um sjálfar sig.

  AUGLÝSING


  Margar rannsóknr hafa leitt í ljós að hjónabandið lengir líf karlmanna en styttir líf kvenna. Mynd / Matthew Bennett

  Stundum er allt sem hann eða hún gerir hrikalega ergilegt.
  Það er eins og hann/hún sjái ekkert nema sjálfa/n sig og vanmeti hvað er í gangi í þínu lífi. Hann/hún er svo tímabundinn, getur ekki, kann ekki, vill ekki og þér finnst þú stöðugt vera að sinna því sem hann/hún ætti með réttu að gera. Þegar þannig stendur á er gott að muna að verkaskipting er samkomulag háð stöðugri endurskoðun. Láttu í ljós óánægju og taktu upp samningaviðræður að nýju rétt eins og þú myndir gera í vinnunni.

  Þú býrð þér til mynd.
  Hver og einn býr til mynd af samferðafólki sínu í huganum. Þar með er ekki satt að hún sé sú eina sanna. Allt fólk á sér margar hliðar og sýnir þær við mismunandi aðstæður. Leyfðu makanum að koma þér á óvart allt ykkar líf saman og ekki dæma strax þótt hann eigi til eiginleika sem þér finnst ekki sérstaklega eftirsóknarverðir. Mörgu má breyta og skoðanir eru ekki fasti heldur mjög hvikular.

  Óþolandi vinir.
  Maki þinn á vini og mun mynda vináttu við ýmsa í gegnum tíðina sem þér líkar mismunandi við. Þetta eru vinir hans eða hennar og ekki þitt að dæma. Hér eru tilfinningar og margvísleg atvik sem binda bönd að baki. Sættu þig við það fólk er fylgir maka þínum og lærðu að sýna því umburðarlyndi.

  Grasið er ekki grænna.
  Þótt þér virðist stundum hjónabönd allra annarra mun betra en ykkar, að makar vinkvennanna eða vinanna séu skemmtilegri, rómantískari, betri og þolinmóðari en þinn er ansi margt í samskiptum þessa fólks sem er þér hulið. Það munu líka koma stundir þegar þú laðast að annarri manneskju og tímar þegar auðvelt væri að láta undan freistingunni að vera með öðrum. Þá er vert að muna að svik í tryggðum eiga flestir mjög erfitt með að þola og grasið er sjaldnast grænna hinum megin þótt það geti litið þannig út úr fjarlægð.

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is