2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Nokkur góð viðmið í innanhússhönnun

  Íslendingar leggja mikið upp úr að eiga falleg heimili og eru stoltir af þeim þegar vel tekst til. Okkur er þó mislagið að raða smekklega upp eða nýta hlutina þannig að þeir verði ofurkúl.

  Hér eru nokkur góð viðmið og ráð sem má nota þegar rými er skipulagt og húsgögn valin inn í það.

  Einfaldleikinn virkar best

  Til að spara gólfpláss getur verið skynsamlegt að hengja til dæmis náttborð upp á vegg eða koma fyrir hillu í stað náttborða, gagnstætt því sem hér er gert. Mynd/Pexels.com

  Allir innanhússarkitektar vita að einfaldleikinn virkar best. Ef valdir eru hlutlausir litir, einfaldar línur og form er auðveldara að láta allt passa saman. Alltaf má lífga upp á rýmið með nokkrum litlum hlutum í skærum litum eða brjóta upp stærri rými með einu afgerandi húsgagni.

  AUGLÝSING


  Skandinavísk húsgögn og húsbúnaður hefur þann kost að uppfylla einmitt þessar kröfur. Línur eru skýrar og formin einföld en oft má fá húsgögn í litríku áklæði eða skrautmuni í æpandi gulum, rauðum og bláum tónum. Háir grannir fætur, pinnabök og þunnar borðplötur gefa húsgögnunum frá Norðurlöndum létt yfirbragð og setur fallegan svip á heimilið.

  Leður lifir lengi

  Vandað leðuráklæði gefur sófum og stólum lengri líftíma bæði vegna þess að það er sterkt og slitnar síður en einnig vegna þess að leður fer aldrei alveg úr tísku. Þótt vissulega komi tímar þar sem tauáklæði eru vinsælli er leðrið klassískt og á alltaf við. Ef svart eða brúnt er valið er gulltryggt að sófasettið endist og endist.

  Margir sófar njóta sín mjög vel standandi úti á miðju gólfi, hið sama gildir um skápa sem hafa fallegt bak og frístandandi hillur geta verið góð leið til að stúka af horn í stofunni eða skipta herbergjum í tvennt.

  Blár í ýmsum myndum

  Blár litur er klassískur í innanhússhönnun og mikið notaður í teppi, púða, kertastjaka, vasa, mottur og fleira. Hann hefur þann kost að dýpka rýmið og skapa róandi andrúmsloft.

  Rauður litur

  Þótt rauði liturinn sé rómantískur og fallegur þurfa menn að fara varlega í notkun hans innanhúss. Hann á það til að verða of ráðandi og verður þá yfirþyrmandi fremur en hlýr en fallegir rauðir hlutir eiga mjög vel við í hjónaherbergi og geta aukið hlýju í mjög hvítum stílhreinum rýmum.

  Sparaðu plássið

  Til að spara gólfpláss getur verið skynsamlegt að hengja til dæmis náttborð upp á vegg eða koma fyrir hillu í stað náttborða. Hillur geta einnig verið mjög góð leið til að auka geymslu- eða skápapláss á heimilum. Innbyggðar hillur í horn sem annars nýtast ekki eru mjög fallegar en einnig snjöll leið til að nýta rými sem annars væri ónotað. Hornskápar, litlir stólar og snagar eru líka leið til að spara pláss annars staðar og nota króka og kima sem annars væru auð.

  Mjög margir innanhússarkitektar para saman ólíka en skylda hluti. Til dæmis tveir hvítir vasar eða vasar svipaðir laginu en í sitthvorum litnum. Mynd/Pexels.com

  Alltof margir binda sig við að raða öllum húsgögnum upp við vegg. Það er óþarfi.

  Margir sófar njóta sín mjög vel standandi úti á miðju gólfi, hið sama gildir um skápa sem hafa fallegt bak og frístandandi hillur geta verið góð leið til að stúka af horn í stofunni eða skipta herbergjum í tvennt.

  Á baðherberginu er gott að hafa góðar skúffur eða skáp undir vaskinum til að koma fyrir þeim hlutum sem nauðsynlegt er að hafa handhæga þar.

  Blandaðu saman

  Það er gaman að blanda saman ólíkum efnum en þá þarf að gæta þess að stíllinn sé svipaður. Margir hafa til að mynda gaman af að láta silfurkertastjaka standa á glerbakka eða öfugt. Járn-, kopar- og glerljós geta hangið saman yfir borðstofu- eða eldhúsborði ef lag þeirra er svipað. Flauel er mikið í tísku núna og það er gaman að bæta því við einhvers staðar, til dæmis með notalegu teppi í sjónvarpsófann, púðum eða teppi yfir hjónarúmið. Með flauelinu fer svo vel að hafa silki, eða annað þunnt létt efni.

  Mjög margir innanhússarkitektar para saman ólíka en skylda hluti. Til dæmis tveir hvítir vasar eða vasar svipaðir laginu en í sitthvorum litnum. Að blanda saman gömlu og nýju er önnur skemmtileg leið og setur persónulegan svip á heimilið. Oft er þá um að ræða hluti sem fylgt hafa fjölskyldunni lengi og þeim fylgja góðar minningar og saga.

  Höfundur / Steingerður Stefánsdóttir

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is