2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Nokkur hundakyn sem seint verður hægt að kalla kjölturakka

  Í Bretlandi er það haft að orðtaki að leyndir þræðir liggi milli manns og hundsins hans (there is something between a man and his dog) og víst er að hundar eiga almennt greiða leið að hjörtum eigenda sinna.

   

  Um það vitna ótal sögur af kjölturökkum fengnum fyrir konuna en urðu smátt og smátt að félögum og vinum karlmannsins á heimilinu. Skoðum nokkur hundakyn sem seint verður hægt að kalla kjölturakka en eru tryggir og góðir heimilishundar.

  Sterkir, gáfaðir og grófir

  Rottweiler er vinnuhundur. Þessir hundar voru upphaflega ræktaðir í Þýsklandi og kynið kom fram um aldamótin 1800. Þeir voru vinsælir varðhundar og þóttu framúrskarandi á því sviði. Karldýrin geta náð allt að 50 kg að þyngd og hæð þeirra um herðakamb 58-69 cm. Rottweiler eru meðalauðveldir í þjálfun. Þykja næmir og gáfaðir en að sama skapi sjálfstæðir og þurfa því mikinn og stöðugan aga.

  Rottweiler voru vinsælir varðhundar.

  AUGLÝSING


  Rottweiler er ekkert sérlega félagslyndir og þeir geta verið einir mun lengur en margir aðrir hundar. Það þýðir þó ekki að hægt sé að skilja hundinn eftir einan von úr viti. Vel agaður rottweiler er sérlega skemmtilegur og lipur hundur.

  Vinalegur og góður

  Labrador retriever er vinsælasta hundakyn í heimi. Það er ekki að ástæðulausu að sögn eigenda því hundarnir eru einstaklega auðveldir í þjálfun, vinalegir og skemmtilegir heimilishundar. Þeir eru fyrst og fremst veiðihundar og hafa reynst afburðagóðir sem slíkir. Þeir eru mjög þefnæmir og hafa reynst vel sem lögregluhundar, leitarhundar og björgunarhundar víða um heim.

  Labrador retriever er vinsælasta hundakyn í heimi.

  Þetta er fremur stórt hundakyn, karldýrið 37-36 kg og hæðin 55-57 cm á herðakamb. Feldurinn er þykkur og þéttur en hárin stutt. Þrír litir eru viðurkenndir á hreinræktuðum labrador, súkkulaðibrúnn, gullgulur og svartur.

  Næmir og duglegir

  Það sem almennt er kallað schäfer hér á landi er þýskt fjárhundakyn. Á ensku kallast þeir german shepard eða alsatian. Hundakyn þetta kom fyrst fram í Karlsruhe árið 1899. Hundarnir eru sérlega auðveldir í þjálfun og vinna reglulega öll verðlaun á björgunar- og lögregluhundasýningum.

  Hundurinn sem kallast schäfer hér á landi er þýskt fjárhundakyn.

  Þeir eru sérlega næmir, sterkir og duglegir. Þeir eru einnig ákaflega hugrakkir og jafnlyndir. Það þarf almennt mikið til að schäfer-hundar reiðist. Þeir þurfa hins vegar mikla hreyfingu og mikla athygli. Þeir eru ágætir með börnum en þurfa helst að venjast þeim frá blautu hvolpsbeini. Schäfer eru fremur stórir hundar, karldýrið er 60-65 cm á herðakamb og 30-40 kg að þyngd.

  Hundurinn sem átti að líkjast ljóni

  Fyrir um það bil hundrað og fimmtíu árum bjó maður að nafni Heinrich Essig til sitt eigið hundakyn og kallaði það leonberger. Heinrich var mikill dýravinur og borgarstjóri þýsku borgarinnar Leonberger. Hann tileinkaði konungi sínum og borginni þessa ræktun en draumur hans var að skapa hund sem líktist ljóni.

  Leonberger eru mjög stórir hundar en karldýrin verða allt að 70 kg.

  Hann paraði því saman einstaklega fallega nýfundnalandstík og stóran st. bernharðshund. Hvolparnir urðu svartir og hvítir og voru einstaklega skapgóðir. Næst tók hann great pyrenees-hund og bætti þeim genum í blönduna. Eftir dauða hans tóku vinir hans við ræktuninni og árangurinn eru þessir glæsilegu hundar. Leonberger eru mjög stórir hundar. Karldýrin verða allt að 70 kg en lifa aðeins 8-10 ár að meðaltali.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is