Notuð tíska

Deila

- Auglýsing -

Með aukinni meðvitund fólks um hvernig sóun og ofneysla hefur farið með Jörðina okkar kemur löngun til að bæta sig og nýta betur það sem til er. Margir hafa dregið verulega úr fatakaupum og farið að kaupa notað í auknum mæli. Að undanförnu hefur fjölgað mjög í Reykjavík verslunum sem gera fólki kleift að finna notaðan fallegan fatnað.

Nefna má verslanir á borð við Trendport á Nýbýlavegi, Extraloppuna í Smáralind, Rauðakrossbúðirnar víða, Barnaloppuna í Skeifunni og Barnabasar í Kringlunni. Auk þess má nefna að árum saman hefur verið hægt að kaupa notuð föt í Kolaportinu.

Í Bretlandi vakti mikla athygli þegar leiðandi áhrifavaldar í tísku hvöttu fólk til að kaupa eingöngu notuð föt. Nokkrir tískublaðamenn, m.a. hjá Red og Vogue, gengu fram með góðu fordæmi og sýndu fólki að þetta væri vel hægt. Meðal annars bentu þeir lesendum á vefsíður á borð eBay, Vestiaire Collective og fleira þar sem nálgast má föt og fylgihluti á góðu verði. Bent var á að í Bretlandi er talið að allt að 11 milljón stykki einhvers konar fatnaðar endi á öskuhaugunum í hverri viku. Þetta er óneitanlega ógnvænlega há tala.

„Í Bretlandi vakti mikla athygli þegar leiðandi áhrifavaldar í tísku hvöttu fólk til að kaupa eingöngu notuð föt. Nokkrir tískublaðamenn, m.a. hjá Red og Vogue, gengu fram með góðu fordæmi og sýndu fólki að þetta væri vel hægt.“

Þegar framleiðsla á hátískufatnaði færðist í auknum mæli frá Vesturlöndum og yfir til þróunarlanda lækkaði vöruverð mikið. Tískurisar og stórir fataframleiðendur voru farnir að senda frá sér nýjar fatalínur vikulega og hvetja fólk til að endurnýja fatnaðinn hraðar. Margir létu ekki segja sér þetta tvisvar en kostnaðurinn er gífurlegur, hvort sem litið er til jarðvegseyðingar, iðnaðarmengunar eða áníðslu á fólki. Strax á áttunda áratug síðustu aldar var farið að vekja athygli á þrælabúðum þar sem fátækt fólk þrælaði allan sólarhringinn fyrir ömurleg laun við að sníða, sauma og ljúka við fatnað handa gráðugum Vesturlandabúum sem klæddust hverju plaggi þrisvar að meðaltali og svo var því hent.

Aukin meðvitund, bættar aðstæður

Með aukinni meðvitund um þessa ömurlegu staðreynd tókst smátt og smátt að fækka þessum verksmiðjum og bæta aðstæður verkafólks þótt enn vanti töluvert á. Leiðandi tískurisar í ódýrum fatnaði á borð við H&M, Lindex og fleiri hafa tekið höndum saman um að sýna aukna ábyrgð og samfélagsvitund. Bæði hafa þessi fyrirtæki minnkað framleiðslu sína, hafið að nota endurunnin efni og valið ábyrgari samstarfsaðila í þróunarlöndum.

 

 

„Leiðandi tískurisar í ódýrum fatnaði á borð við H&M, Lindex og fleiri hafa tekið höndum saman um að sýna aukna ábyrgð og samfélagsvitund.“

Hér á landi urðum við áþreifanlega vör við það eftir hrun að fólk fór í auknum mæli að prjóna og sauma eigin fatnað. Nýtnin varð einnig meiri og skapandi konur og menn kusu að breyta gömlu fötunum, poppa þau upp með alls konar aðferðum. Saumastofur sem breyttu og bættu lifðu góðu lífi. Víða erlendis fylgdi kreppunni svokölluð skiptiboð. Þá hittust konur úr tilteknum vinahópum, hverfi eða félagi heima hjá einni og hver og ein kom með föt sem hún var orðin leið á, svo hófust þær handa við að skipta. Er ekki sagt að rusl eins sé annars fjársjóður? Slíkir viðburðir hljóta að vera skemmtilegir og Vikan hvetur alla til að skoða í skápana hjá sér og athuga hvort ekki má endurnýta, endurbæta eða endurselja eitthvað af því sem þar leynist.

 

- Advertisement -

Athugasemdir