Nútímasígaunar á húsbíl

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Guðríður Gyða Halldórsdóttir og Vilberg Guðmundsson eru miklir náttúruunnendur. Fyrir nokkrum árum tóku þau þá ákvörðun að selja íbúðina sína og búa nú í amerískum húsbíl sem þau nota til að ferðast um Ísland á sumrin en leita í mildara veðurfar á veturna.

Hvernig er að vera nútímasígauni ef svo má að orði komast? „Nútímasígauni er svolítið gott orð yfir lifnaðarhætti okkar Villa,“ segir Gyða. „Það hafði lengi verið draumurinn að kaupa húsbíl sem við gætum ferðast á í útlöndum, en við ætluðum alltaf að eiga hann með íbúðinni okkar í Vesturberginu. Blokkin var gömul og þarfnaðist viðgerða og okkur fannst kostnaðurinn við lagfæringarnar vera farinn fram úr hófi, þannig að við réðum okkar ráðum og komumst að þeirri niðurstöðu að annað hvort væri að selja íbúðina og kaupa stóran húsbíl í Ameríkunni, því þar eru þeir eins og litlar stúdíóíbúðir, eða láta ellilaunin fara í endalausar viðgerðir á húsinu. Valið varð auðvelt þegar til kastanna kom, við völdum bílinn Þar var allt til alls og við gátum ferðast á honum til heitu landanna á haustin en komið svo heim og notið íslenska sumarsins sem reyndar hefur verið ansi blautt.“

Mynd / Hákon Davíð

Þið hafi líka dvalið mikið á Spáni. Hvað heillar þig mest við það land? „Jú, við höfum verið á Spáni á veturna og það er náttúrulega ylurinn sem maður sækist í og svo er svo miklu ódýrara að lifa þar. Þar getur þú lifað af ellilaununum,“ segir Gyða með þungri áherslu.

Myndir þú mæla með þessum lífsstíl við aðra? „Ef fólk treystir sér til að selja húskofann, þá mæli ég hiklaust með þessum lífsstíl á elliárunum, svo framarlega að þið hafið heilsu til. Eins og ég sagði, höfum við allt til alls og bíllinn er einn lúxus, innréttaður eins og Ameríkaninn vill hafa þá. Þetta er yndislegt líf og maður kynnist fullt af skemmtilegu fólki og eignast yndislega vini um leið,“ segir hún.

„Ef fólk treystir sér til að selja húskofann, þá mæli ég hiklaust með þessum lífsstíl á elliárunum, svo framarlega að þið hafið heilsu til.“

Gyða er eins og áður sagði mikill náttúruunnandi og hefur aflað sér mikillar þekkingar á ilmolíum og virkni þeirra og sendi um árið frá sér bókina, Ilmkjarnaolíur, Lyfjaskápur náttúrunnar, sem er fáanleg í öllum bókabúðum. Þar er mikill fróðleikur um virkni jurta, uppskriftir og leiðbeiningar um hvernig nota má þær til að bæta lífsgæði sín. Ef þú ættir að velja fimm ilmkjarnaolíur inn á hvert heimili á landinu hverjar myndir þú benda á? „Cajeput, Lavender, Peppermint, Frankinsence og Cinnamon bark. Ef þú átt allar þessar olíur, þá áttu heilt apótek.“

Guðríður Gyða Halldórsdóttir og Vilberg Guðmundsson tóku þá ákvörðun að selja íbúðina sína og búa nú í amerískum húsbíl sem þau nota til að ferðast um Ísland á sumrin.

 

Áhugi Gyðu á náttúrunni er ekki eingöngu bundin við olíurnar. Hún sækir sér gjarnan næringu og hollustu í íslenska móa. Þú tínir jurtir, sveppi, ber og fleira og vinnur úr alls kyns mat. Hvað kveikti áhuga þinn á nýtingu íslenskrar náttúru á þennan hátt? „Jú, ég tíni jurtir í heilsute, þurrka sveppi, því þeir eru bragðbestir á Íslandi, bý til jólalíkjör úr aðalbláberjum með kanil og negul og svo alls kyns sultur úr íslensku hráefni. Það sem kveikti áhuga minn á jurtunum, var besta vinkonan mín, hún Olga Sverrisdóttir, sem er hafsjór af fróðleik um nýtingu jurta til lækninga. Við förum nokkrum sinnum á sumri í jurtatínslu en förum síðan vestur á land til að tína ber.“

Er einhver íslensk tejurt í uppáhaldi?

„Jú, mjaðurtin er alltaf í uppáhaldi því hún er svo góð fyrir magann,“ er svarið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Óþægilegt fyrir Róbert

Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, er í snúinni stöðu eftir að Fréttablaðið upplýsti að hann vildi taka slaginn...

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -