Ofbeldi spyr ekki um stétt eða stöðu

Kynbundið ofbeldi hefur aldrei verið bundið við stétt eða stöðu. Það hendir jafnt háar sem lágar og hið merkilega er að konur í valdastétt eiga einnig undir högg að sækja. Árið 2006 kom út á ensku bókin Claim My Life eftir Veronicu de Laurentiis. Þar lýsir hún ofbeldi eiginmanns síns gegn henni í þau fjórtán ár sem hjónaband þeirra varði.

Veronica fékk loks hugrekki til að yfirgefa hann fjórum árum eftir að yngsti sonur hennar fæddist. Síðan þá hefur hún unnið hörðum höndum að því að byggja upp líf sitt. Í tólf ár rak hún tískuhönnunarfyrirtæki í New York og naut mikillar velgengni. En draumurinn var að verða leikkona. Faðir hennar, Dino de Laurentiis, er einn þekktasti kvikmyndaleikstjóri og -framleiðandi Ítalíu og móðir hennar, Silvana Mangano ekki síður stórstjarna þar í landi en Sophia Lauren.

Berst gegn heimilisofbeldi á Ítalíu

Dino vann í Hollywood líka og sautján ára lék dóttir hans í myndinni Waterloo, á móti Rod Steiger og Christopher Plummer. En hún hætti þegar elsta barn hennar fæddist, sjónvarpskokkurinn, Giada de Laurentiis. Þrjú börn í viðbót fæddust á næstu tíu árum og eiginmaðurinn krafðist þess að hún helgaði sig uppeldi þeirra. Þegar að því kom að hún ákvað að fara fékk hún mikla hjálp frá samtökum í Bandaríkjunum er styðja við þolendur heimilisofbeldis. Það gerði henni kleift að byggja upp sjálfstraust sitt og nota hæfileika sína til að stofna fyrirtæki og sjá fyrir sér og börnunum.

AUGLÝSING


Veronica kynntist öðrum manni, Ivan Kavalsky, en sá hefur hvatt hana og stutt í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur og eitt af því er leiklist. Hún sótti leiklistartíma og lék nýlega stórt hlutverk í ítölsku sjónvarpsþáttunum D’Ambra Grigia E Cantora. Fyrir tveimur árum sendi hún svo frá sér sjálfshjálparbókina, Claim Your Life – Veronica’s Eight Keys og sú varð líka metsölubók.

Auk þess stofnaði hún Associazione Veronica De Laurentiis til að vinna gegn heimilisofbeldi á Ítalíu. Hún hefur margoft sagt í viðtölum að hún sé heppin og hún viti það því ein af hverjum þremur konum á Ítalíu verði fyrir ofbeldi. Hún ætlar sér að breyta því. Í fyrra notaði hún svo áhrif sín innan tískuheimsins til að styrkja það framtak sitt. Hún og Silvia Venturini Fendi eru æskuvinkonur og í sameiningu hönnuðu þær fylgihlutalínu undir merkjum tískuhúsins fræga. Hún fór í sölu í mars síðastliðnum og allur ágóði rennur til bæði athvarfa fyrir konur og í sjóði til að styrkja þær til sjálfstæðis.

Með hátískuna að vopni

Silvana, móðir Veronicu, var líka tengd Fendi sterkum böndum en tískuhúsið sá um að hanna og sauma búninga í margar kvikmynda hennar, þeirra á meðal Gruppo di Famiglia in un Interno eftir Luchino Visconti, frá árinu 1974. Þær vinkonurnar sóttu innblástur í gamla ferðatösku úr eigu Silvönu sem hafði fylgt henni á mörgum ferðum hennar um heiminn, í silkislæðurnar sem hún var þekkt fyrir að bera og kasmírtreflana sem voru ómissandi á hátindi frægðar hennar. Vörulínan er tileinkuð henni.

Þetta verkefni var ekki síst unnið til að vekja athygli á að heimilisofbeldi er ekki vandi einnar manneskju fremur en annað kynbundið ofbeldi, það er persónulegur harmleikur þess einstaklings er verður fyrir því. Þetta er þjóðfélagslegt mein sem veldur miklum skaða og teygir anga sína um öll svið samfélagsins. Það er ekki bara eitt líf sem er lagt í rúst. Ábyrgðina ber ofbeldismaður sem mun halda uppteknum hætti þar til hann er stöðvaður. Í mörgum tilfellum blandast börn inn í vítahringinn og þau verða fyrir margvíslegum áhrifum sem geta fyrr eða síðar orðið dýrkeypt fyrir samfélagið.

Að þessu fólki stendur líka fjölskylda, vinir og félagar sem munu upplifa margvíslega togstreitu, uppnám og andlega erfiðleika. Á einhverjum tímapunkti mun samfélagið þurfa að axla ábyrgð á líðan þeirra. Ótal brotnar manneskjur líkamlega veikar, brotnar sálir og ófærar um að taka fullan þátt í því þjóðfélagi sem þær búa í. Það er óbætanlegur skaði. Síðustu tölur Sameinuðu þjóðanna segja að á heimsvísu sé 1,3 milljarður kvenna þolendur kynbundins ofbeldis af einhverju tagi. Það er há tala og séu teknir með í reikninginn nánustu ástvinir hennar má reikna með hún fjór- ef ekki fimmfaldist. Að gefa þessum þöglu konum rödd er þess vegna verðugt verkefni. Finna orð á okkar tungumáli til að vernda þær, hugga, líkna og leyfa þeim að upplifa réttlæti.

Sjá einnig: Ofbeldið litaði allt líf þeirra

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is