2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Ofbeldið litaði allt líf þeirra

  Hafi einhver efast um að kynferðisofbeldi hefði alvarlegar afleiðingar fyrir þolendur ættu hinir sömu að kynna sér þrjár bækur er komu út nú fyrir jólin. Þar er fjallað um fjórar konur og hvernig ofbeldið litaði allt líf þeirra. Tvær lifðu það ekki af. Flestir eru djúpt snortnir þegar þeir heyra slíkar örlagasögur en þær eru einnig kostnaðarsamar fyrir samfélagið og eru meinsemd sem við verðum að uppræta.

  Sálumessa, Gerður Kristný.

  Í Sálumessu biður Gerður Kristný fyrir stúlku sem hún kynntist þegar hún var ritstjóri Mannlífs. Henni hafði árum saman verið nauðgað af eldri bróður sínum og skrifað grein um hvernig skelfingin, áföllin og sú streita sem hún mátti búa við hafði brotið hana niður. Þessi kona sagði frá ofbeldinu eftir að hún varð fullorðin en fjölskylda hennar var algerlega ófær um að taka á því. Foreldrarnir brugðust við með þögn, eldri bróðirinn afsakaði sig með því að hafa verið sveltur tilfinningalega og þess vegna verið knúinn til að níðast á systur sinni og annar bróðir gerði margt til að styðja og hjálpa en það dugði ekki til.

  „Það vantar orð,“ segir Gerður í Sálumessu. Meðan Grænlendingar eiga orð yfir að skima eftir mannaferðum, í farsi er hægt að lýsa ljómanum í augum fólks þegar það eignast nýjan vin, í wagiman-málinu er orð yfir að leita með fótunum í vatni og Finnar eiga orð yfir vegalengdina sem hreindýr ferðast án hvíldar. Allt þetta segir Gerður okkur en jafnframt að á Vesturlöndum finnast engin orð til að hugga stúlkur sem hafa verið niðurlægðar, meiddar og misnotaðar af karlmönnum sem telja sig eiga rétt á kynlífi þegar þeim sýnist.

  Engin orð til að líkna, létta af þeim skömminni, sýna þeim sanngirni og færa þeim réttlæti. Dómsorð kveða á um trúverðugleika þeirra en sýkna samt árásarmanninn. Ein af hverjum sjö konum í heiminum verður fyrir nauðgun, kynferðislegri áreitni og misþyrmingu á kynfærum sínum áður en hún nær sextán ára aldri. Stór hluti býr við ofbeldi á eigin heimili. Feður, eiginmenn og bræður beita því. Víða um heim tíðkast að refsa konum fyrir að neita körlum. Sýruárásir og heiðursmorð eru framin vegna þess að kona hlýddi ekki.

  AUGLÝSING


  Myrtar eftir að þær flýja heimilið

  Auðna, Anna Ragna Fossberg.

  Í bókinni Auðnu, fjallar Anna Ragna Fossberg um sögu kvenleggs móðurfjölskyldu sinnar. Þetta er margslungin örlagasaga og þar er lýst kynferðisofbeldi gegn fatlaðri konu og barni. Fatlaða konan er móðursystir Önnu Rögnu, Auðna, sú sem bókin er nefnd eftir. Á leið heim úr boði hjá hálfbróður sínum í Kaupmannahöfn er henni nauðgað af manni sem býðst til að fylgja henni.

  Þarna kristallast varnarleysi fatlaðs fólks í samfélagi okkar og virðingarleysi gagnvart þeim sem persónum og manneskjum. Líklega muna margir sem nú eru komnir á miðjan aldur hvernig oft var haft að leik að gera lítið úr fötluðu fólki og jafnvel gefið til kynna að það ætti að vera þakklátt fyrir að einhver gæti hugsað sér að neyða það til kynlífs.

  Anna Ragna segir einnig frá óviðeigandi hegðun föður síns inni á æskuheimilinu og áreitni hans gagnvart henni þegar hún var barn. Systkini hennar hafa mótmælt frásögnum hennar en það er alþekkt að börn alin upp á sama heimili hafi upplifað mjög mismunandi hluti. Aldursmunur getur skipt sköpum og aðstæður í lífi foreldranna ráðið miklu um hvers konar andrúmsloft ríkir. Það útlokar aldrei að kynferðisofbeldi hafi átt sér stað að segja að ekki allir er umgengust tiltekinn mann hafi sömu reynslu af honum. Sumir kynferðisbrotamenn velja þolendur af kostgæfni og áreita kannski aðeins eitt barn meðan aðrir ná að misbjóða tugum.

  Kerfið braut hana

  Manneskjusaga, Steinunn Ásmundsdóttir.

  Þriðja sagan er svo Manneskjusaga eftir Steinunni Ásmundsdóttur. Þar lýsir hún lífshlaupi systur sinnar. Stúlku er glímdi við félagslega erfiðleika eða einhvers konar þroskahamlanir sem hugsanlega hefði verið hægt að greina núna. Hún var ættleidd og þótt foreldrar hennar gerðu sitt allra besta voru þau ráðalaus. Kerfið, á hinn bóginn, brást við af fáheyrðu ofbeldi og yfirgangi.

  Skólayfirvöld gerðu lítið til að stemma stigu við einelti og útilokun hennar í skólanum og að lokum var hún vistuð á Kleppi tólf ára innan um fullorðna sjúklinga. Blóðfaðir hennar nauðgaði henni ítrekað og hún var svipt börnum sínum, en þau voru henni kærust í lífinu og hún jafnaði sig aldrei. Þessi kona lést langt fyrir aldur fram.

  Þessar sögur eru sorglegar og skelfilegar, ekki hvað síst vegna þess að við vitum að þetta er aðeins toppurinn á ísjakanum. Ótalmargar sambærilegar sögur eru ósagðar. Og ekki nóg með það, svipuð atburðarás á sér stað enn í dag úti í samfélaginu og inni á heimilum. Ofbeldi sprottið úr samfélagsgerð sem er í eðli sínu andstæð konum og aldagömlum viðhorfum um að konur séu lægra settar en karlmenn, á einhvern hátt óæðri og að karlmenn eigi rétt á ástúð þeirra, umhyggju og undirgefni.

  Sláandi tölur

  Á árinu 2017 leituðu 969 einstaklingar til Stígamóta, af þeim voru 453 sem leituðu aðstoðar vegna eigin mála í fyrsta skipti. Þá voru 74 nýir aðstandendur sem leituðu til Stígamóta og þar af var 31 með upplýsingar um mál sem ekki voru þekkt hjá Stígamótum. Þær tölulegu upplýsingar sem hér fara á eftir varðandi árið 2017 miðast við fjölda skýrslna sem fyrir liggja um hvern hóp fyrir sig, þ.e. brotaþola, ofbeldismenn og aðstandendur.

  Í þau 28 ár sem liðin eru frá stofnun Stígamóta hafa 8.3211 einstaklingur leitað aðstoðar hjá Stígamótum. Jafnframt er þess að geta að ofbeldismennirnir teljast vera 11.890 en eru væntanlega nokkuð færri þar sem einhverjir þeirra hafa beitt fleiri en einn einstakling ofbeldi.“ (Úr ársskýrslu Stígamóta 2017)

  Konur er ávallt í miklum meirihluta þeirra er leita til Stígamóta, árið 2017 voru þær 395, karlarnir 54.

  Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á stöðu fólks í vændis- og klámiðnaði. Niðurstöður sýna óyggjandi að ofbeldi er þar viðvarandi og oftast alvarlegt. Fíkniefnaneysla mjög mikil og hlutfall þeirra er láta lífið fyrir eigin hendi hærra en í nokkurri annarri starfsgrein. Samkvæmt sænskum og bandarískum rannsóknum hefur einnig sláandi meirihluti þeirra kvenna er starfar í klám- og vændisiðnaði orðið fyrir kynbundnu ofbeldi. Flestar á barnsaldri. Hlutfallið rokkar frá 82% upp í 92%.

  Mynd / Riccardo Mion

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is