„Ofboðslegt frelsi að eiga ekki neitt”

Deila

- Auglýsing -

Eitt sinn var Guðrún Pétursdóttir bara venjulegur launaþræll en í dag er hún létt á fæti, frí og frjáls og ferðast um heiminn. Hún hefur upplifað ótal margt og komist að því að fólk er bara fólk hvar sem það býr.

 

Guðrún er í stuttri heimsókn á Íslandi um þessar mundir og því var ekki úr vegi að grípa hana og spyrja hvernig þetta ævintýri hafi nú allt saman byrjað?

„Ég var, held ég, komin í svona týpískt „burnout“ eða kulnun,“ segir hún. „Þetta var orðin spurning um að halda uppteknum hætti og taka þá áhættu að ég yrði hreinlega til vandræða í vinnunni, bara alls ekki skemmtileg, eða fara í leyfi og sjá hvernig ég yrði. Ég kaus síðari kostinn og nú er ég búin að segja upp og ætla að halda áfram mínum ferðalögum. Eins og er bý ég á Spáni og er með íbúð á leigu út júní í Dénia en veit ekkert hvað verður eftir það.“

„Ég var, held ég, komin í svona týpískt „burnout“ eða kulnun.“

En ferðalagið byrjaði í Víetnam. „Já, mig langaði svo að fara til Asíu. Draumurinn var að fara til Balí. Ég fór inn á einhverjar síður og var að panta mér flug og einhvers staðar á leiðinni breyttist þetta. Skrollaði niður síðuna og rakst á mjög hagstætt verð en lenti þá bara alls ekki á Balí. Ég á það til að vera svolítið fljótfær þannig að ég endaði í Víetnam. Það var svo sem allt í lagi því ég ætlaði að fara þangað líka hvort sem var. Ég heillaðist síðan gersamlega af landi og þjóð. Náttúran er dásamleg og fólkið frábært.

Guðrún Pétursdóttir prýðir forsíðu nýjustu Vikunnar.

Ég var þar í þrjár vikur og fór þaðan til Balí og þaðan til þriggja eyja á milli Balí og Lombok. Þær heita Gili Trawangan en hún er stærst, Gili Air og Gili Meno sem eru heldur minni. Þarna eru engir bílar, bara hjól og hestvagnar. Það var mikil upplifun að koma þangað því rétt áður en ég kom höfðu jarðskjálftar riðið yfir og allt var í rúst. Verið var að byggja upp eyjarnar og engir ferðamenn á svæðinu.

Ég gerði í því að gefa mig að fólkinu og spyrja það út í líðan þess. Í raun var þetta merkileg reynsla vegna þess að aðeins örfá hús stóðu uppi og fólkið sat fyrir utan rústirnar með börnin sín á rúmunum sínum og virkaði hið rólegasta þrátt fyrir allt. Ég spurði hvernig aðstæður væru hjá þeim og þá komu svörin: „Það er nú verið að laga þetta.“ eða „Ég missti nú allt en við eigum hvert annað.“ Ég varð alveg hugfangin af þessu fólki,” segir Guðrún.

Einbeitti sér að þeim sem studdu hana 

Flestum fyndist nú kannski þeir standa á brún hengiflugsins ef þeir seldu allt sitt og héldu síðan út heim með næstum aleiguna í farteskinu. Hvernig leið þér?

„Ég var eiginlega orðin þannig þegar ég hóf að losa mig við þetta að ég var orðin óskaplega leið á öllu dótinu. Ég var farin að henda ótrúlegustu hlutum. Ég var búin að fá nóg. Auðvitað fann ég fyrir því þegar ég lokaði íbúðinni minni í síðasta skipti að það helltist yfir mig spurningin: Hvað er ég búin að gera? Og vissulega var fólk sem dró úr mér en ég reyndi bara að einbeita mér að þeim sem studdu mig.“

„Ég var farin að henda ótrúlegustu hlutum. Ég var búin að fá nóg.“

Guðrún hefur unnið við körfugerð og nýlega fór hún að dunda við að hnýta hengi og veggteppi með macramé-aðferðum.

„Körfugerðina lærði ég á sínum tíma hjá Margréti Guðnadóttur, fyrir um þrjátíu árum líklega, og hef alltaf verið í henni. Ég er voðalega mikil náttúrutýpa og þarf að vera að vesenast í að tína skeljar og steina, sanka að mér einhverju úr umhverfinu og búa til og skapa. Macramé fór ég bara að gera af því ég átti ekki tágar í körfur og fór þess vegna á Netið til að finna kennslumyndbönd í að búa svoleiðis til.

Annars hef ég að undanförnu einbeitt mér mest að því að koma mér á framfæri sem markþjálfa. Ég er líka lærð í því fagi og það starf get ég stundað hvar sem er í heiminum. Ég er þegar búin að keyra eitt námskeið á Netinu, Byr undir báða vængi, en það snerist um að kenna markmiðasetningu og fá fólki í hendur tólin sem það þarf til að ná markmiðum sínum. Þetta var sett aðeins öðruvísi upp að því leyti að nemendur teiknuðu upp nútíðina og hvernig þeir vildu sjá sjálfa sig eftir einhvern tiltekinn tíma. Verkfærin snerust svo um hvernig best væri að halda sig við efnið og feta sig ótrauður nær lokamarkmiðinu.

Þegar ég kem út ætla ég að auglýsa annað svoleiðis námskeið og svo er ég sjálf á námskeiði hjá hollenskri konu í hvernig ég get markaðsett sjálfa mig sem markþjálfa. Það hefur verið rosalega mikið að gera hjá mér síðan ég kom til Spánar. Ég hef verið að vinna og vinna,“ segir þessi magnaða kona en ítarlegra viðtali við hana er að finna í nýjustu Vikunni.

Myndir / Hallur Karlsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur Yves Saint Laurent á Íslandi

- Advertisement -

Athugasemdir