„Ömmur okkar mótuðu samfélagið í dag“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Uppörvandi orð, hrós og hvatning af því er aldrei nóg. Þegar ungt fólk stígur sín fyrstu skref á vinnumarkaði er mjög mikilvægt að einhver leiðbeini þeim, örvi og gleðji. Sumir eru svo heppnir að kynnast einhverri slíkri manneskju meðan aðrir fara þess á mis. Konur eru konum bestar er fallegt slagorð og Vikan ákvað að kanna sannleiksgildi þess.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir er nýskipaður ríkislögreglustjóri. Hún hefur náð langt í mjög svo karllægu sviði en hefur náð að skapa rúm fyrir önnur og kvenlegri sjónarmið hvar sem hún hefur starfað. Skyldi hún þakka einhverjum konum í huganum fyrir stuðning, góð ráð og uppörvun? „Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur þakka ég fyrir traustið,“ segir Sigríður Björk. „Ég vil gjarnan þakka móður minni, Ingunni Þorsteinsdóttur, fyrir endalausan stuðning. Hún má alls ekki gleymast. Það var Sólveig Pétursdóttir sem dómsmálaráðherra sem gaf mér mitt fyrsta tækifæri sem sýslumaður og lögreglustjóri á Ísafirði og markaði þannig starfsferilinn. Ég hef fengið fjölmörg góð ráð og stuðning frá konum í gegnum tíðina og get ekki gert þar upp á milli – þið vitið hverjar þið eruð takk fyrir mig.“

Áttu þér einhverjar fyrirmyndir í hópi kvenna hér á landi og eru einhverjar í fremstu víglínu sem þú sérð sem slíkar?

„Margar hérlendar kvenfyrirmyndir má nefna og er þar fremst í flokki fyrsti lýðræðislega kjörni forsetinn Vigdís Finnbogadóttir, sem er líklega fyrirmynd flestra kvenna á mínum aldri. Rannveig Rist er fyrirmynd, en hún verið í forsvari fyrir stórfyrirtæki á ólgutímum. Birna Einarsdóttir bankastjóri er einnig fyrirmynd en hún hefur verið ákaflega virk í jafnréttismálum og styrkt konur með markvissum hætti. Ég verð einnig að nefna Guðrúnu Jónsdóttur hjá Stígamótum, sem hefur unnið ómetanlegt starf í þágu íslenskra kvenna í erfiðum aðstæðum, Þórunni Sveinbjarnardóttur, formann BHM sem er algjör töffari og Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð sem er ákaflega vönduð manneskja og svo auðvitað Katrínu Jakobsdóttur, okkar staðfasta forsætisráðherra á þessum krefjandi tímum, og Hildi Guðnadóttur, tónskáld og Óskarsverðlaunahafa, sem sýnir okkur hvað ástundun og ræktun eigin hæfileika getur fleytt manni langt.

Alma Möller landlæknir er nýjasta fyrirmyndin, en hún hefur staðið sig afburða vel í að halda Íslendingum upplýstum og rólegum í miðjum heimsfaraldi, og á sama tíma tekist að halda skopskyninu. Dóttir mín Ebba Margrét er sannarlega fyrirmynd. Hún er einstaklega vel gerð og tekst á við lífið af einurð og með gildi nýrrar kynslóðar að leiðarljósi um hollustu og umhverfisvernd. Að lokum langar mig að nefna ömmu mína heitna, Jóhönnu Valdimarsdóttur, en hún er fyrirmynd frá þeirri kynslóð kvenna sem höfðu það hlutverk allt lífið að hlúa að fjölskyldu og vinum, átti sterkan hóp vinkvenna og þessi kynslóð kvenna var mjög mótandi fyrir það samfélag sem við njótum í dag.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Forsíðuviðtal Mannlífs

Lestu meira