Orðin í ferilskránni

Allir vita hversu mikilvægt það er að koma sérstöðu sinni á framfæri í ferilskrá. Þegar vinnuveitanda berast tugir umsókna hlaupa þeir hratt yfir margar og taka frá aðeins þær sem skera sig úr á einhvern hátt.

Samkeppnin er hörð á vinnumarkaði og hví ekki að prófa að forðast klisjur og nota þess í stað frumlegri og skemmtilegri orð til að lýsa hæfni sinni.

Nóg er til af duglegu og metnaðarfullu fólki á Íslandi í öllum fögum og innan allra starfsstétta. Við viljum að ferilskráin segi skýrt og greinilega hvers vegna við erum æskilegasti kosturinn. Þess vegna er nauðsynlegt að draga fram það sem gerir okkur einstök á einhvern hátt.

Án þess að fara yfir strikið að sjálfsögðu, enginn kann vel við þann sem öskrar: „Ég er best/ur.“ Mörgum finnst meira að segja að lítil innstæða hljóti að vera fyrir fullyrðingunni hjá þeim er hafa hæst. En eitt af því sem mun örugglega gera þína ferilskrá eftirminnilega er að hún sé algjörlega villulaus. Stafsetning og greinamerkjasetning gersamlega fullkomin. Það er sjaldgæft í dag. Málfar eins og: síðan fór ég að gera þetta, ég er alveg að geta þetta, og fleira í þeim dúr rennur ekki vel ofan í yfirmenn á miðjum aldri.

Leggðu þess vegna hugsun og vinnu í hvernig þú lýsir þér. Vissulega eru lýsingarorð til að fullvissa menn um vandvirkni þína og dugnað takmörkuð en það er gaman að æfa sig í að forðast þessi sem vitað er að koma fyrir í öllum öðrum ferilskrám.

AUGLÝSING


Dæmi um nokkrar klisjur

Veltu til dæmis fyrir þér hvort lausnamiðuð/aður er einmitt þitt orð. Kannski er útsjónarsamur mun betra. Duglegur er líka örugglega ofnotaðasta orð í íslenskum ferilskrám, vinnusamur, iðinn og iðjusamur segja það sama en geta sagt þeim sem les að þarna fari manneskja með góðan orðaforða og hún hafi vandað til verka í lýsingunni. Hér eru svo nokkrar fleiri klisjur sem flestir eru örugglega búnir að fá nóg af:

Áreiðanleg/ur
Áhugasamur/söm
Góð/ur í mannlegum samskiptum
Vinnur vel í hópi
Metnaðarfull/ur
Hefur ástríðufullan áhuga á
Vill nýta hæfileika mína til fulls
Fagleg vinnubrögð
Skapandi í hugsun

Jafnvel þótt þú hafir þessa hæfileika í ríkum mæli og getir staðið við allt er þarna stendur verður að hafa í huga að allir hinir geta sennilega sagt það saman. Hefur þú eitthvað umfram þetta? Ertu á einhvern hátt öðruvísi? Reyndu að finna þína sérstöðu og draga hana fram.

Sumir eru til dæmis þekktir fyrir að halda ró sinni í erfiðum aðstæðum, vera barngóðir, hlusta vel, vera hreinskiptnir, fróðir og hafa skemmtilega frásagnargáfu. Nú, og svo segja fá orð oft miklu meira en mörg. Vinnuveitendur kunna vel við að eiginleikum og hæfni hvers umsækjanda sé komið á framfæri á einu blaði. Enginn hefur tíma til að lesa langa ævisögu eða ítarlegt ágrip yfir starfsferilinn. Það borgar sig þess vegna að koma öllu fyrir á einni síðu.

Mynd / Damian Zaleski

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is