2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Ósýnilegar hetjur

   Leiðari úr nýjustu Vikunni. 

  Þegar bókin Myndin af pabba – Saga Thelmu kom út var ég allsendis óviðbúin þeim tilfinningum sem hún vakti með mér. Ég man eftir að hafa gengið um gólf nötrandi af reiði og sorg yfir því afskiptaleysi og grimmd sem þær systur upplifðu og þá meina ekki af hendi hins sjúka föður heldur samfélagsins alls. Fram að því hafði ég nefnilega haft trú á að alls staðar leyndist gott fólk sem væri tilbúið að hjálpa og að allir skildu varnarleysi barna. Bókin mölbraut þá mynd og það tók mig langan tíma til að sætta mig við að svona væri þetta, að lítil börn væru látin gjalda fyrir foreldra sína, að barnaverndaryfirvöld gætu kosið að horfa í aðra átt og að heil fjölskylda þættist ekki vita hið augljósa og altalaða. Enn í dag heyrum við af svona málum. Barn elst upp hjá alkóhólistum og er ekki velkomið inn á heimili skólafélaganna af því foreldrar þess eru svona. Barn á þjóf að móður eða föður og er þess vegna fyrir fram stimplað óheiðarlegt. Í stað þess að rétta fram hönd og bjóða skilning og vináttu er viðkomandi hrakinn burtu, eitthvað út fyrir sjónsvið þitt svo þú þurfir ekki að horfast í augu við staðreyndir. Thelma, systur hennar og móðir eru í mínum huga hetjur. Þótt þær hafi verið ósýnilegar flestum öðrum ber sú staðreynd að þær lifðu af og tókst að sigrast á erfiðleikunum, vitni um styrk, þrautseigju og ótrúlega mannkosti.

   „Thelma, systur hennar og móðir eru í mínum huga hetjur. Þótt þær hafi verið ósýnilegar flestum öðrum ber sú staðreynd að þær lifðu af og tókst að sigrast á erfiðleikunum, vitni um styrk, þrautseigju og ótrúlega mannkosti.“

  Í þau fimmtán ár sem liðin eru frá útkomu bókarinnar hef ég fylgst með Thelmu úr fjarlægð. Séð hana stofna samtökin Drekaslóð, koma fram í sjónvarpi og tala máli þolenda kynferðisofbeldis og reyna að varpa ljósi á ýmiss umdeild málefni. Hún er alltaf rökföst, yfirveguð og snjöll. Nýlega tók ég eftir að Thelma var farin að blómstra á nýjan hátt og mér lék forvitni á að vita hvað lægi að baki. Í ljós kom að hún hafði ákveðið að tímabært væri að taka á líkamlegri heilsu sinni og mér finnst merkilegt hvert það leiddi hana. Aukinn kraftur og ný sýn á ýmislegt er meðal þess sem Thelma nefnir. Hún er til að mynda að skapa sér eigin fatastíl, finna hvað henni finnst passa sér best og í hverslags fatnaði henni líður vel. Það hlýtur að vera skemmtilegt. Hún upplifir einnig líkamann á annan hátt, er orkumeiri og ýmsir lífsstílstengdir kvillar hafa alveg horfið. Ég tel að allt of lengi höfum við hér á Vesturlöndum aðskilið líkama og sál. Leitt það hjá okkur að andleg líðan skapar líkamleg vandamál og öfugt. Thelma er kjarkmikil og frábær fyrirmynd og ein af þeim sem finnur eigin leiðir að markinu. Hún veit að ekkert kemur af sjálfu sér og þess vegna er ómetanlegt að heyra um þetta framhald á sögu Thelmu.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is