2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Ótrúverðug

  Framleiðendur hjá Netflix hafa verið duglegir að búa til sjónvarpsþáttaraðir um raunverulega atburði. Þeirra á meðal er Unbelievable en hún fjallar um eitt stærsta raðnauðgaramál Bandaríkjanna. Marie Adler er aðeins átján ára. Hún á að baki erfiða æsku og hefur mátt þola margvíslegt ofbeldi. Þegar grímuklæddur maður brýst inn til hennar um nótt og nauðgar henni er auðvelt að stimpla hana ótrúverðuga.

   

  Í raun bregðast Marie allir. Fósturmæður hennar, rannsóknarlögreglumennirnir í máli hennar, vinir og stuðningsfulltrúar. Hún er feimin og bæld þess vegna finnst fólki viðbrögð hennar skrýtin. Hún er í fyrstu eins og frosin í stað þess að sýna merki áfalls. Skömmu síðar er hún glöð að flytja sig milli hæða og íbúða í búsetuúrræðinu þar sem hún býr og virðist lítt eða ekkert snortin af því sem kom fyrir. Enginn virðist gera sér grein fyrir að barn í hennar stöðu er vant áföllum, hefur alla ævi þurft að bæla niður sorg og doði því eðlileg viðbrögð.

  En þetta varð til þess að fósturmæðurnar töldu hana hafa spunnið upp sögu til að fá athygli og rannsóknarlögreglumennirnir neyddu hana til skrifa undir yfirlýsingu um að svo væri. Í kjölfarið sneru allir baki við henni, vinir hennar, samstarfsmenn og að lokum fékk hún yfir sig holskeflu haturs í gegnum samfélagsmiðla og síma. Ekki bætti úr skák að yfirvöld ákváðu að lögsækja hana.

  Á meðan á öllu þessu gekk rannsökuðu tvær lögreglukonur aðrar nauðganir. Þær fréttu hvor af annarri fyrir tilviljun og komust að því að mál þeirra væru svo lík að um raðnauðgara hlyti að vera að ræða Og þau reyndust fleiri, þær fundu sjö konur. Þegar gerandi loks fannst voru í tölvu hans myndir af Marie rétt eins og öðrum fórnarlömbum hans.

  Æskan lituð af ofbeldi

  AUGLÝSING


  Marie Adler er ekki rétt nafn á stúlkunni sem um ræðir en nafni hennar var breytt til að vernda hana. Sama máli gegnir um lögreglukonurnar, Stacy Galbraith er kölluð Karen Duvall í þáttunum, og Edna Hendershot fær nafnið Grace Rasmussen. Marc O’Leary heitir gerandinn réttu nafni en í þáttunum er hann kallaður Christopher McCarthy. Hann var fundinn sekur um tuttugu og átta nauðganir og hlaut þyngsta dóm sem hægt er að veita eða þrjú hundruð tuttugu og sjö ár og sex mánuði í fangelsi.

  Kaitlyn Dever fer með aðalhlutverkið í þáttunum Unbelievable.

  Handrit þáttanna er byggt á Pulitzer-verðlaunaumfjöllun, The Marshall Project og ProPublica en fyrirsögn hennar var: An Unbelievable Story of Rape, eða Ótrúleg saga af nauðgun. Þar er fjallað um konurnar, líf þeirra eftir árásina og bakgrunn. Marie hitti líffræðilegan föður sinn aðeins einu sinni um ævina og veit ekki mikið um móður sína. Hún var ung tekin af henni en vitað var að móðirin skildi hana iðulega eftir hjá hinum og þessum kærustum sínum. Marie veit ekki hvort hún var nokkurn tíma á leikskóla. Hún man eftir að hafa verið sísvöng og hafa borðað hundamat til að seðja sárasta hungrið.

  Eftir að kerfið tók við henni var hún á hinum og þessum fósturheimilum og þurfti að þola bæði kynferðislega misnotkun og líkamlegt ofbeldi. Hún sagði blaðamönnunum að þegar hún var barn hafi henni verið gefin sjö mismunandi lyf til að halda henni í skefjum þar á meðal Zoloft þegar hún var aðeins sjö ára. Er nokkuð undarlegt að barn í þessari stöðu sé tilfinningalega flatt.

  Átján ára var hún fullorðin samkvæmt lögum en var svo heppin að henni bauðst þátttaka í tilraunaverkefni, Project Ladder. Það var hannað til að hjálpa ungmennum með ekkert bakland að fóta sig í lífinu. Hún fékk litla stúdíóíbúð að búa í, stuðning við að finna vinnu og stunda hana og hjálp við nám. Þar var það svo í Alderbrooke Apartments í Lynnwood í Washington-ríki sem á hana var ráðist árið 2008.

  Rannsókn lituð af fordómum

  Í þáttunum er mjög vel sýnt hvernig Marie þurfti aftur og aftur að segja sögu sína. Hún þurfti einnig að ganga í gegnum ítarlega læknisskoðun og besta leiðin til að komast af er að fara eitthvert annað í huganum. Að lokum endaði mál hennar á borði rannsóknarlögreglumannanna. Fósturmæður hennar töluðu sig saman og þær fóru að efast.

  „Hún sýndi einfaldlega engar tilfinningar,“ sagði önnur þeirra við blaðamenn ProPublica. „Það var eins og hún væri að segja mér frá því hvernig hún útbyggi samloku.“ Sömuleiðis sagði konan að það hafi vakið tortryggni sína að þegar hún fór með Marie til að kaupa ný rúmföt hafi hún verið mjög leið yfir að finna ekki eins og þau sem voru fyrir á rúminu. „Hvers vegna myndi manneskju langa í nákvæmlega eins rúmfatasett og það sem henni var á rúminu þar sem henni var nauðgað,“ sagðist hún hafa hugsað með sér.

  Toni Collette og Merritt Wever í hlutverkum sínum sem rannsóknarlögreglumenn.

  Eftir samtal þessara tveggja fór önnur þeirra til lögreglu og rakti efasemdir þeirra og eftir á að hyggja er augljóst að það skapaði fordóma í garð stúlku sem stóð höllum fæti fyrir. Þetta gerðist þrátt fyrir rannsóknir sýni að eftir stór áföll m.a. kynferðislega árás og ofbeldi á fólk mjög erfitt með að rifja upp í smáatriðum það sem gerðist. Það þráir heitast af öllu að allt verði aftur eins og það var og leitast við að koma hlutunum í sama horf. Í hugum margra sýnir þetta skort á tilfinningum, vöntun á einhverjum merkjum um áfall en er í raun leið líkamans til að deyfa og hjálpa einstaklingnum að komast yfir skelfinguna.

  Annað atriði truflaði rannsóknarlögreglumennina einnig. Upphaflega sagði Marie lögreglumanninum á vettvangi að eftir árásina hafi henni tekist að ná í skæri og klippa á böndin sem hún var bundin með áður en hún hringdi í fyrrverandi kærasta sinn. Á lögreglustöðinni sagðist hún hins vegar hafa hringt í hann með fótunum. Þeir báru undir hana þetta misræmi og gengu svo hart að henni að Marie brotnaði að lokum og sagðist hafa spunnið söguna upp. Þetta varð til þess að hún var ákærð fyrir grófa ávirðingu eða gross misdemeanor og dæmd í skilorðsbundið eftirlit og til að greiða 500 dollara í málskostnað.

  Missti allt

  Þetta voru miklir peningar fyrir stúlku sem átti ekkert en auk þess missti Marie stöðu sína innan verkefnisins, Project Ladder. Hún var því á götunni, vinalaus og án alls stuðnings ástvina. Það er ekki fyrr en tveimur og hálfu ári síðar þegar Stacy Galbraith og Edna Hendershot handtóku Marc O’Leary að Marie fékk uppreisn æru. Í þáttunum var annar lögreglumannanna er komu að máli hennar miður sín og reyndi að sýna iðrun sína á einhvern hátt. Hinn aftur ekki. Lögreglan í Lynnwood gerði hins vegar ekkert í málum þessara tveggja þótt sýnt hafi verið fram á að þeir beittu hana þrýstingi til að fá hana til að draga sögu sína til baka. Marie fór í mál við bæjarfélagið og fékk greidda 150.000 dollara í skaðabætur. Hún hefði getað fengið meira en sagði lögfræðingi sínum að láta gott heita, fyrir sér hefði þetta aldrei snúist um peninga.

  Marie gerðist í kjölfarið flutningabílstjóri og er í dag gift með tvö börn. Hún forðast sviðsljósið og vildi alls ekki að nafn hennar yrði gefið upp í tengslum við gerð þáttanna. Nafn þeirra, Unbelievable, er hins vegar einstaklega vel til fundið. Þetta orð getur þýtt hvoru tveggja, ótrúlegt og ótrúverðugt en það eru einmitt oft örlög þolenda kynferðisofbeldis, þeir eru dæmdir ótrúverðugir og saga þeirra ótrúleg.

  Hér á landi gerist þetta ekkert síður en annars staðar og mál fimmtán ára stúlku í Breiðholti kemur upp í hugann. Henni var nauðgað af hópi skólabræðra sinna og þeir dreifðu myndum af verknaðnum á Netinu. Stúlkan kærði en drengirnir voru aldrei ákærðir því ekki þótti trúverðugt að hún mætti í skólann daginn eftir og kærði ekki strax. Móðir hennar kom fram í viðtali í sjónvarpinu og reyndi að tala fyrir því að þessir drengir yrðu látnir sæta ábyrgð en allt kom fyrir ekki.

  Í þáttunum talaði lögreglumaður við nauðgarann, Marc O’Leary og hann lýsti því hvernig honum hafi eftir fyrstu nauðgunina ekki dottið í hug að hann slyppi. Nóg sönnunargögn hafi hann skilið eftir á vettvangi og erfðaefni hans var á skrá vegna veru hans í hernum. Samt bankaði enginn upp á og hann hugsaði með sér: Vá, ég komst upp með þetta. Ég get gert þetta. Það er ekki annað hægt en að velta fyrir sér hvar drengirnir úr Breiðholtsmálinu eru í dag. Hugsuðu þeir eins og Marc og ef svo er, er umhugsunarefni hvort fleiri hafa orðið fyrir ofbeldi af þeirra hálfu síðan?

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is