Óttinn hverfur ekki strax

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ýmis boðefni ráða miklu um hvernig fólk bregst við áreiti og margvíslegum tilfinningum. Allir vita hvernig streita getur safnast upp og skapað lífshættulegt ástand í sumum tilfellum. En boðefnin gera fleira. Skoðum þetta aðeins betur.

 

Hvað gerist í líkamanum þegar við verðum hrædd?

Boðefni sem annars vegar kalla á flótta- og varnarviðbrögð streyma út í alla vöðva. Adrenalínflæði fer af stað í hættulegum aðstæðum og vegna viðvarandi ótta. Hið sama gildir um streituhormónið kortisol og einnig ýmis vellíðunarboðefni sem deyfa sársauka. Það er leið líkamans til að hjálpa fólki að takast á við hið óyfirstíganlega. Við höfum öll heyrt sögur af manneskjum sem öðlast nánast ofurmannlegan styrk, hermenn sem bera særða félaga langar leiðir, menn og konur sem lyfta ótrúlega þungum hlutum ofan af ástvinum sínum, litlar manneskjur sem brjótast út úr sökkvandi bílum eða synda langar leiðir til að bjarga sér frá drukknun og fólk sem stekkur á flótta mun stærri og sterkari manneskju eða hópi sem gerir sig líklegan til að ráðast á það. Sögurnar eru óteljandi en afleiðingarnar eru alltaf þær sömu, boðefnatæming.

- Auglýsing -

Hún hefur vakið athygli vísindamanna undanfarna áratugi og þeir kannað áhrif þessa á andlega líðan fólks. Eftir á finna flestir fyrir mikilli þreytu, depurð og vanlíðan. Það tekur langan tíma að vinna úr líkamlega þættinum ekki síður en hinum andlega. Einfaldasta dæmi um þetta er svokölluð „hangover blues“ eða timburmannadeyfð. Allir kannast við hafa drukkið einum eða tveimur drykkjum of mikið kvöldið áður og finna fyrir leiða og eftirsjá daginn eftir. Tilfinningin situr stundum í mönnum í tvo til þrjá daga þrátt fyrir að þeir hafi litla eða enga ástæðu til að finna fyrir iðrun. Ástæða þessa er að áfengi örvar framleiðslu vellíðunarboðefna líkamans og ef farið er yfir strikið hafa menn tæmt kirtlana og þeir þurfa einfaldlega tíma til að ná sér.

Í kjölfar ofbeldisárása eða annarra alvarlegra áfalla er auðvelt að þróa með sér áfallastreitu. Langvarandi óttaástand veldur tæmingu margvíslegra boðefna og það hefur bæði andlegar og líkamlegar afleiðingar. Ekki er óalgengt að fólk finni fyrir verkjum í liðum, mikilli þreytu, depurð og kvíða. Sumir fá endurlit og upplifa aftur sömu tilfinningar og þá. Nýjar rannsóknir sýna að stór áföll og óttaviðbrögð er vara lengur en nokkrar mínútur valda sömu einkennum í dýrum og mönnum. Innspýting adrenalíns inn í taugakerfið veldur stundum líkamlegu magnleysi. Þetta er ástæða þess að svo margir frjósa þegar þeir verða fyrir alvarlegri árás eða áreiti.

Í sumum tilfellum er fyrsta viðbragð manna að verja sig eða leggja á flótta. Þá kemur magnleysið eftir á. Tilfinningaleysi og minnkuð hæfni til að finna sársauka fylgir. Þarna er náttúran miskunnsöm og hjálpar einstaklingum að komast í gegnum alvarleg áföll. Eftir á koma hins vegar eðlilegar tilfinningar til baka og þá getur verið erfitt að takast á við likamlega verki um leið og sálrænar kvalir. Stundum varir þetta ástand lengi og manneskjur lýsa óskiljanlegri ró er kemur yfir þær í skelfilegum aðstæðum. Þær finna fyirr nánast ofurmannlegri hæfni til að einbeita sér og fá skýra yfirsýn yfir hlutina, vita eins og af eðlishvöt hvað eigi að gera næst og hvernig. Þegar streitan hættir að framkalla boðefnaflæðið fylgir oft ofurnæmi á allar aðstæður, erfiðleikar með að einbeita sér, skammtímaminni raskast og hæfni til að sefa sjálfan sig. Það veldur því að fólk á erfitt með að slaka á og hvílast þótt það sé þreytt og hvíldarþurfi.

- Auglýsing -

Ómetanleg innsýn

Þessi aukna þekking á líkamlegum viðbrögðum við áföllum og afleiðingum þeirra geta í framtíðinni ekki bara hjálpað heilbrigðisstarfsfólki að bregðast við vanda fólks með áfallastreitu heldur einnig aflað nýrra sönnunargagna fyrir rétti. Með því að mæla stöðu margvíslegra streitutengdra hormóna er mögulegt að sýna fram á að þessi einstaklingur hafi vissulega upplifað alvarlegt áfall og talið sig í lífshættu. Að sama skapi er svo mögulegt að hægt væri að þróa lyf sem bæta mönnum upp skortinn á boðefnum og þá verði hægt að draga úr einkennum áfallastreitu og koma í veg fyrir langtímaáhrif hennar á líf fólks. En hingað til hefur verið erfitt að lækna áfallastreitu og manneskjur glímt við líkamlega kvilla oft árum saman og alvarleg andleg vandamál.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -