2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Paul Smith, sérstæður og vandvirkur hönnuður 

  Paul Smith hefur verið lýst sem klassískum en sérstæðum, jafnvel svolítið einkennilegum hönnuði. Sjálfur segir hann föt sín vera einna líkust því að klæðskerasaumuðu fötin frá Savile Row kölluðust á við stíl Mr. Bean. En hann leggur áherslu á að menn og konur geti keypt sér velsniðin föt með sígildu yfirbragði sem engu að síður hafi yfir sér persónulegan brag sem gefi þeim sinn einstaka stíl.

  Paul Smith hannar einnig ilmvötn, snyrtivörur og fylgihluti. Hann elskar bækur og honum finnst gaman að opna nýja bók og halda á vit ævintýranna með hjálp höfundarins. Þessi ást hans á bókmenntum varð kveikjan að ilminum Story sem kom árið 2006. Hann bar þessa hugmynd upp við listræna stjórnandann Alan Aboud og þeim fannst auðvelt að sökkva sér ofan í verkefnið af lífi og sál. Umhverfið sem þeir unnu í hentaði einnig ákaflega vel því skrifstofa Pauls er stútfull af bókum, allt frá sjaldgæfum frumritum til nýjustu teiknimyndasagna.

  Story-ilmurinn..

  Mynd af Paul Smith sjálfum þegar hann var ungur var notuð í auglýsingaherferðinni þegar Story var sett á markað og það á afskaplega vel við því hann hefur útlit hins námfúsa lúða sem dvelur við lestur og skriftir. En útlitið getur verið blekkjandi. Paul var íþróttamaður á yngri árum og dreymdi um að verða atvinnuhjólreiðamaður. Alvarlegt slys batt enda á vonir hans um slíkt og hann dvaldi sex mánuði á spítala. Þar kynntist hann nemendum í listaskóla í nágrenninu og tal þeirra um Mondrian, Andy Warhol, Kokoshka og Rolling Stone sannfærði Paul um að hann vildi verða hluti af þessari veröld.

  AUGLÝSING


  Þar með hófust landvinningar hans í tískuheiminum og á innan við tuttugu árum varð Paul Smith eitt virtasta nafn tískuheimsins. Fyrsta búðin sem hann setti á stofn opnaði við Floral Street í Covent Garden árið 1979. Skautleg mynstrin og sniðugir fylgihlutir fyrir karlmenn blésu þá ferskum vindum inn í tísku sem hafði staðnað. Í dag sendir hann frá sér árlega tólf vörulínur þar sem er að finna karlmannaföt, kvenföt, gallabuxur, fylgihluti, ilmvötn, úr, penna og húsgögn.

  Öll efni sem notuð eru í verksmiðjum hans eru framleidd í Bretlandi, Frakklandi og á Ítalíu og hann er mjög varkár í vali á efnum. Sérstakt einkenni á allri hans hönnun er að einhvers staðar má alltaf reka augun í teinótt vasalok, kraga, fóður eða skraut á hlutum. Paul Smith var einnig ábyrgur fyrir að endurlífga boxer-nærbuxurnar og innleiða fílófaxið í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar.

  Sérstakt einkenni á allri hans hönnun er að einhvers staðar má alltaf reka augun í teinótt-mynstur.

  Þessi skemmtilega skapandi listamaður selur vörur sínar í þrjátíu og fimm löndum og verslanir hans í Bretlandi eru fjórtán að tölu. Hann leggur sérstaka áherslu á að eiga alltaf fatnað fyrir hávaxna og granna karlmenn, enda er hans eigin líkamsvöxtur þannig. Hingað til hafa tískuhönnuðir litla áherslu lagt á að vinna fyrir þennan hóp svo hann skapaði sér þarna tryggan hóp viðskiptavina. Þrátt fyrir þetta var Paul andvígur þeirri áherslu sem tískuheimurinn lagði á ofurgrannar fyrirsætur og löngu áður en Mílanó og París náðu að bregðast við kvað hann upp úr með að mjónur myndu fljótt fara úr tísku.

  Veski frá Paul Smith.

  Hann vakti einnig mikla athygli þegar hann tók upp á því að fela mynd af nakinni konu inni í peningaveski, á ermahnöppum og víðar í þeim munum sem hann hannaði. Eins og gefur að skilja varð það að spennandi og skemmtilegum leik hjá viðskiptavinum og finna felumyndirnar. Paul Smith þykir einstaklega spennandi og líflegur hönnuður sem hefur lag á að aðlagast tíðarandanum og vera á undan samtímamönnum sínum. Paul var aðlaður af Bretadrottningu árið 2001.

  Verslanir hans eru hannaðar í klassískum breskum stíl og þykja bera allt yfirbragð yfirstéttarinnar sem kann að meta formfögur snið, fágun og virðuleika.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is