2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Prjónað án prjóna

  Það getur reynst þrautin þyngri að læra að prjóna og sumir telja sig aldrei geta náð tökum á því þótt þá langi. En nú geta þeir glaðst. Kósýprjón kallast nýstofnað fyrirtæki sem selur meðal annars ekta merino-ull sem prjónað er úr með engu nema höndunum.

  Anna Bragadóttir er annar eigandi Kósýprjóns en fyrirtækið stofnaði hún ásamt Róbert bróður sínum. „Hann er mér aðallega innan handar þar sem ég er að taka mín fyrstu skref í rekstri en hann hefur mikla þekkingu á fyrirtækjarekstri. Svo hefur Sara systir okkar verið að prjóna mikið fyrir okkur og er snillingurinn á bak við nánast allt prjónið okkar. Ég er nefnilega ekki þekkt fyrir að taka upp prjónana,“ segir Anna og hlær. „En þetta er reyndar töluvert öðruvísi en hefðbundið prjón og engir prjónar notaðir í þessu prjóni.“

  Anna Bragadóttir er annar eigandi Kósýprjóns. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

  Ullin of þung sem farangur
  Anna segist hafa rekist á myndir á Pinterest og Instagram fyrir nokkrum árum sem segja má að hafi verið kveikjan að Kósýprjóni. „Þetta voru myndir af dásamlegum teppum úr svona risagarni en þau hafa verið mjög vinsæl í Evrópu síðustu árin. Ég fór á stúfana hér heima því mig langaði svo að eignast svona teppi, en fann garnið hvergi. Ég hugsaði með mér að ég gæti ef til vill keypt það ef ég færi utan en sá strax að það yrði erfitt að ætla að taka það heim í farangri þar sem þessi ull er svo þung. Svo það var ekkert annað í stöðunni en að bretta upp ermarnar, finna þetta garn á Netinu og flytja það inn sjálf erlendis frá. Við Róbert fundum æðislegan birgi í Evrópu sem hefur starfað við þetta í áratugi. Hann kaupir ullina frá litlum fjölskyldureknum sveitabæjum og ullin er fengin á sem umhverfisvænstan hátt. Það skiptir okkur miklu máli hvaðan hún er fengin og að allt sé eins vandað og sem náttúrulegast og hægt er.“ Anna segir að merino-ullin sé silkimjúk og stingi alls ekki.

  Krakkarnir í pásu frá skjánum
  Hún segist strax hafa fundið fyrir eftirspurninni og að fólk væri búið að leita lengi að svona garni til að prjóna úr. Það sé bæði auðvelt og einfalt. „Það tekur jafnvel bara eina kvöldstund að gera heilt teppi og er svo auðvelt að allir ráða við það. Nokkrir sem hafa verslað hjá okkur hafa kannski ekkert prjónað um ævina, eða lítið sem ekkert, en fara létt með þetta. Ég trúði ekki að það væri svona auðvelt að prjóna úr þessari ull fyrr en ég prófaði það sjálf. Snilldin er að maður notar bara hendurnar til að prjóna úr henni. Í stað þess að nota prjóna til að flytja bandið í gegnum lykkjur, eða í kringum þær, þá notar maður bara hendurnar.“

  AUGLÝSING


  Og Anna bætir við að það sé kjörið að leyfa börnunum að prjóna úr þessari ull. „Ísabella dóttir mín sem er níu ára, og sonur minn Ísar Máni, sjö ára, hafa bæði gert hringtrefil með minni hjálp. Það er svo auðvelt að prjóna úr svona stórum lykkjum fyrir svona litlar hendur. Það er líka gaman að sjá krakkana taka pásu frá skjánum til að grípa í prjónið en maður sér það nú ekki oft hjá börnum í dag.

  Fallegar vörur sem Anna hefur prjónað. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

  Margt fram undan
  Eitt af því sem Önnu fannst heillandi við það að prjóna úr þessari ull er einfaldleikinn. „Í fyrsta lagi þarf maður bara að nota hendurnar við prjónaskapinn. En svo þarf maður ekki að kaupa bækur eða blöð til að fá uppskriftir, heldur eru uppskriftirnar bara á Netinu. Það eru til dæmis mjög nákvæm og góð leiðbeiningarmyndbönd á YouTube og Pinterest, til dæmis fyrir púða, teppi, mottur og hvaðeina. Við seljum vissulega tilbúnar vörur en við seljum líka ullina svo fólk geti spreytt sig sjálft.“

  Auk þess að selja Merino-ullina hefur Kósýprjón framleitt teppi í ýmsum stærðum, púða, gólfmottur, kattabæli, barnahreiður og fleira. Anna segir ullina henta einstaklega vel til að búa til fallega handgerða hluti fyrir heimilið. „Við erum alltaf að skoða eitthvað nýtt og spennandi til að búa til. Núna erum við að þróa námskeið sem okkur langar að halda og stefnum að því að útbúa íslensk leiðbeiningarmyndbönd til að setja á Netið. Þessa dagana erum við að vinna í að opna vefverslun okkar, kosyprjon.is, og við erum rosalega spennt fyrir því. Þá verður hægt að versla beint við okkur í gegnum heimasíðuna. Ég er með lagerinn heima hjá mér eins og er, en fólki er velkomið að mæla sér mót við mig og koma að skoða. Það er alltaf heitt á könnunni,“ segir hún og brosir.

  Í eitt teppi þarf fjögur kíló af ull eða um það bil einn hnykil. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

  Teppi – stærð 100*200 cm

  Það þarf um 4 kíló af ull, einn hnykill er 4,7 kíló. Hafa þarf í huga að þetta fer líka eftir prjónfestu hvers og eins, þ.e. hvað þarf mikla ull og hversu margar umferðirnar verða. En svona kom þetta út hjá mér og er gott viðmið.
  Fitjaðar eru upp 17 lykkjur með höndunum (eins og keðjulykkja í hekli) og prjónaðar 52 umferðir. Ég sleppi alltaf að prjóna fyrstu lykkju í hverri umferð til að fá beinni og fallegri kant.

  Anna sýnir handtökin í prjónaskapnum. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

  Til að fella af eru teknar tvær lykkjur saman; þ.e. bandið er sótt í gegnum tvær lykkjur í stað einnar. Svo aftur tvær og svo koll af kolli þar til ein lykkja er eftir. Þá er endinn dreginn í gegnum hana og hert.
  Endinn er svo þræddur á milli til að fela hann.

  Hægt er að sjá mjög góðar leiðbeiningar fyrir það hvernig maður prjónar svona teppi hér. Reyndar ekki sama stræð og í uppskriftinni, en gott til að sjá aðferð.

  Svo er gott að undirbúa ullina fyrir prjón til að styrkja efnið og það er hægt að sjá aðferðina hér.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is