2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Ráð til að verjast kulnun

  Örmögnun eða kulnun hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu, enda virðist færast í vöxt að ungt fólk detti út af vinnumarkaði vegna þess að það hefur ofboðið andlegu og líkamlegu þreki sínu. Sérfræðingar eru hins vegar sammála um að nokkur lykilatriði hvað varða daglegt líf geti skipti sköpum um hvort menn endi í kulnun eður ei.

   

  Vertu viðbúin/n því að segja nei

  Allt of margir eiga erfitt með að segja nei, séu þeir beðnir um greiða eða taka að sér fleiri verkefni. Til að tryggja að þú hafir tíma til að sinna þínum hugðarefnum og hvíla þig æfðu þig í að segja nei. Settu þínar þarfir í forgang. Enginn getur allt og allir geta eitthvað. Fáðu þínum nánustu fleiri verkefni og hættu að reyna að geðjast öllum. Staðreyndin er sú að þeir sem kunna að hugsa vel um sjálfa sig og sinna sínum þörfum eru mun meira gefandi fólk en hinir sem alltaf teygja sig lengra en þeir geta og eru því ávallt þreyttir, ósáttir og illa stemmdir þegar þeir eru að gera greiða eða vinna aukaverkefni. Þegar þú lærir að segja nei áttar þú þig fljótt á því að langflestir virða þín mörk og verða ekkert fúlir þótt þú sért ekki fyrst/ur til að hjálpa.

  Það er ekki nauðsynlegt að taka þátt í öllu

  AUGLÝSING


  Nú á dögum eru veislur, boð, ferðalög eða aðrar samkomur mun algengari en áður var. Þess vegna er engin leið fyrir einn einstakling að taka þátt í öllu. Mundu að þú móðgar engan þótt þú afþakkir og þú missir ekki af neinu. Önnur tækifæri gefast til að rækta þetta fólk og þessi áhugamál. Veldu úr og farðu eingöngu ef þig virkilega langar og svo vel stendur á að þú sért vel hvíld/ur og tilbúin/n að skemmta þér.

  Skipuleggðu vikuna vel

  Til að vera viss um að þú komir öllu fyrir er gott að setjast niður á sunnudagskvöldum og skipuleggja vikuna. Sumir kjósa að gera þetta að fjölskyldusamveru. Búa til myndadagbók þar sem allir fjölskyldumeðlimir leggja sitt til. Þau yngstu fá myndir, teiknaðar eða límmiða til að merkja sín verkefni en hinir eldri skrifa eða teikna inn sínar áætlanir. Allir eiga að gera ráð fyrir hvíldartíma eða frjálsum stundum. Þetta gefur góða yfirsýn og tryggir að æfingatími, slökun og samvera fær sitt pláss. Gættu þess bara að lengja ekki vinnudaginn til að koma öllu að. Það er ekkert unnið með því að vakna fimm í stað sjö á morgnana til að koma æfingunum að og lengja einfaldlega daginn um tvær klukkustundir. Ef þú finnur ekki tíma fyrir hvíld eða endurnæringu fyrir sjálfa/n þig deildu þá verkefnum til að tryggja hann í stað þess að bæta á þig.

  Gættu að mataræðinu

  Passaðu að borða hollan og góðan mat og nóg af honum. Rannsóknir sína að þeir sem borða fjölbreytt fæði og forðast skyndibita og sykur hafa meiri orku en hinir. Oft er freistandi að grípa aðeins það sem hendi er næst en það kemur niður á þrekinu.

  Hlustaðu á varnaðarmerkin

  Ef þér finnst þú vera að drukkna í verkefnum og ekki sjá fram úr neinu er mjög líklegt að þú sért komin nálægt örmögnun. Ekki reyna að hrista slíkar tilfinningar af þér og halda áfram. Taktu þeim sem varnaðarmerkjum og skoðaðu hvernig þú getur bætt úr. Stattu á fætur og andaðu eða sestu niður með góðan kaffibolla. Það getur oft skapað andrými og auðveldara verður að halda áfram.

  Minnkaðu skjátímann

  Allt of margir hanga of lengi og of oft fyrir framan tölvu, síma eða sjónvarp. Tæknin er mikill tímaþjófur og stendur í vegi fyrir að fólk fái þá hvíld sem það þarf. Minnkaðu skjátímann og útilokaðu öll rafmagnstæki úr svefnherberginu.

  Slökun er lykilatriði

  Finndu þína leið til algjörrar slökunar. Margir gleyma sér við að lesa, aðrir kjósa að hlusta á tónlist, hugleiðsla gagnast enn öðrum mjög vel og sumir kjósa rólegar göngur úti í náttúrunni. Í raun er sama hvað er svo lengi sem það kemur kyrrð á hugann og hjálpar þér að gleyma áhyggjum og flækjum dagsins. Forgangsraðaðu þannig að þú fáir ævinlega tuttugu mínútur til hálftíma á dag til að slaka á í algjörri ró.

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is