Ratað um refilstigu lífsins

Deila

- Auglýsing -

Leiðari úr 35. tölublaði Vikunnar

Ekki er ástæðulaust að skáld, heimspekingar og ræðumenn kjósa mjög oft að líkja mannsævinni við vegferð eða ferðalag. Við erum að læra frá vöggu til grafar og tilgangur lífsins er að finna sína leið, veginn sinn. Þetta gengur auðvitað misvel og oft þarf að taka nokkur hliðarspor og villast um í dágóðan tíma áður en stígurinn finnst. Kannski er ekki rétt að kalla það villur. Við þekkum það öll hversu gaman það getur verið að villast á ferðalagi utanlands og reika um lítil stræti, sveitavegi eða breiðgötur sem maður hefði hugsanlega aldrei rekist á ef ekki væri fyrir eina ranga beygju aðeins of fljótt.

Stundum verða þá á vegi manns áhrifamikil listaverk, skemmtilegar handverksbúðir, frábært fólk eða notaleg kaffihús. Dagurinn sem þú villtist verður þá hugsanlega að ljúfri minningu, einmitt það sem gerir þessa tilteknu ferð eftirminnilega. Og þannig er það í lífinu líka. Það er gaman að prófa sig áfram, láta reyna á ýmsa hæfileika og þótt ætlunarverkið takist ekki er það engin frágangssök. Upplifunin er það sem gildir, hún verður verðmæt inneign í reynslubankanum.

Ég gat ekki annað en látið hugann reika til allra þeirra hliðarstíga sem ég hef gengið um ævina þegar ég las viðtalið við Berglindi Guðmundsdóttur. Hún er svo opin fyrir nýjum áhrifum og tilbúin að fylgja eigin sannfæringu. Þótt hún hafi lært hjúkrunarfræði kýs hún frekar að vinna við annað og finnur ekki fyrir neinni sektarkennd vegna þess. Þetta hentar henni hér og nú og þar með er það bara svo.

Ótal margir pína sig til að vinna starf sem þeir hafa ekki gaman af og fá ekkert út úr bara vegna þess að þetta var leiðin sem þeir völdu rétt um tvítugt. Sumir eiga líka ákaflega erfitt með að vera einir og finnst ævinlega nauðsynlegt að njóta alls með einhverjum. Berglindi er ekki þannig farið. Hún hélt þess vegna ein í þriggja vikna ferð til Ítalíu í sumar og lét kylfu ráða kasti um hvert hún færi og hvar hún gisti. Og viti menn, allt gekk upp og hún kom heil heim. Í ferðinni ákvað hún einnig að staðfesta ást sína á sjálfri sér og með því að setja upp hring og giftast sér í sólinni á Ítalíu. Er nokkuð betra eða rómantískara? Nei, varla, lífið er ekki einn áfangastaður heldur margir og um að gera að njóta ferðalagsins með þeirri einu persónu sem mun örugglega fylgja þér frá vöggu til grafar.

„Í ferðinni ákvað hún einnig að staðfesta ást sína á sjálfri sér og með því að setja upp hring og giftast sér á strönd á Ítalíu. Er nokkuð betra eða rómantískara?

Sjá einnig: „Þá fékk ég þessa hugmynd að gifta mig bara“

- Advertisement -

Athugasemdir